Líf í árvekni: Fyrsta eintakið komið í hús

fimmtudagur, 22. október 2009

Fyrsta eintakið komið í hús

Stóðst ekki mátið að smella mynd af gripnum, hún kemur í búðir á þriðjudaginn. Velti því fyrir mér hvort þið áttið ykkur á kápumyndinni (?) Hún hefur beina vísun í söguna en er líka táknræn á óskaplega gáfulegan og skáldlegan hátt (sem ég mun fabúlera langt mál um síðar, þegar ég hef eirð í mér til þess).

Um daginn setti ég agnarlítið brot hér inn, nú geri ég það aftur. Gríp niður framarlega, Auður (djúpúðga) Ketilsdóttir rifjar upp atvik sem átti sér stað þegar hún var barn. Sögusviðið er eyjan Tyrvist, ein Suðureyja, vestur af Skotlandi. Sögutíminn er mið 9. öld:

-----------------------------------

Döggvotur mosinn þrýstist að vitum Auðar þegar Helgi knýr hana ofan í móann og sest yfir hana klofvega, snýr handleggina upp á bakið svo að hún getur sig hvergi hrært. Hún vindur höfðinu til með erfiðismunum og æpir upp, fremur af
reiði en sársauka.
„Fantur!“

„Segðu að þú sért óværa,“ hvæsir bróðir hennar í eyrað á henni,
röddin hlakkandi af yfirburðum. Hann er aðeins árinu
eldri en hún, tíu vetra, jafnhár henni en stæltari af slagsmálum
og leikjum við félaga sína; þess er ekki langt að bíða að hann
fái sverð í hendur í stað tálgaðra spýtna sem honum er þó
einkar annt um og hefur staðið hana að því að handleika.

„Aldrei,“ ansar hún hortug en tárast þegar hann ýtir handleggjunum
ofar.
„Segðu það! Óværan þín!“
„Helgi lítilmunnur,“ tautar hún ofan í mosann, þó nógu
hátt til þess að hann heyri og hann herðir enn á: „Endurtaktu
þetta ef þú þorir!““
„Helgi beólán,“ segir hún þverúðarfull og ögn hærra en
fyrr, hún hefur heyrt Morag nota þetta orð um hann; hvort
sem það er nú af því að Helgi er smámynntur eða hinu að
hann er oft fýldur, nema hvort tveggja sé.

Hann rekur upp reiðiöskur og hún heldur að nú hljóti
hún að fara úr axlarliðunum báðum en þá er hún skyndilega
laus; Helga er hent ofan af henni og krangalegur unglingurinn
Rauður stendur yfir þeim, segir eitthvað hvasst á gelískunni
sem enn er þeim að mestu óskiljanlegur kokhljóðasöngur;
það fer samt ekki á milli mála hvað hann á við.

Helgi hefur hafnað á kviðnum ofan á háum þúfnakolli og nær varla
andanum, bæði af lendingunni og þykkju, svo fær hann bæði
hljóð og krafta aftur, orgar upp og setur undir sig hausinn,
rýkur eins og naut í þrælinn og fellir hann í móana en er fljótt
hafður undir. Fólk drífur að og skilur þá í sundur, sá yngri
grátandi heiftartárum, hinn þögull en gneistar úr augnakastinu.

Rauður er bundinn við staur og kaghýddur með hrísi í
allra augsýn svo að aðrir megi læra af því ekki síður en hann
sjálfur að ekki gengur að ánauðugir leggi hendur á börn húsbænda
sinna, þó ekki svo illa að hann geti ekki gengið til
verka innan fárra daga.

Það er að sumu leyti fyrir bænir Auðar
að honum er vægt en meir hitt að lítið fæst fyrir þræl sem ber
þess augljós merki á bakinu að hann sé illur viðskiptis.

16 ummæli:

Alda sagði...

Til hamingju með bókina!! xx

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir að leyfa okkur að líta í Auði, ég er forfallinn aðdáandi bókanna þinna og kíki stundum hérna inn, er þjóðfræðingur og sögurnar þínar, frásagnastíllinn og öll heimildavinnan heilla mig alveg. Gangi þér sem best með bókina
kv. Rakel Valgeirsdóttir

Matthildur sagði...

Til hamingju með bókina Villa mín og gangi þér sem allra best.
þva
Matta

Nafnlaus sagði...

Líst vel á! Hlakka til að lesa. Til hamingju enn og aftur, ástarkveðjur mamma.

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með bókina frænka
gangi þér allt í haginn
Kveðja Gunna

Sigurður Atlason sagði...

Ég get vart beðið. :)

Unknown sagði...

Til hamingju með bókina Villa:) ég get ekki beðið eftir að fá eintak, fer beint á jólagjafalistann:...!!!

kv. stína (vinkona Tomma og Auðar)fan númer 1;)

Nafnlaus sagði...

Þetta er falleg bók og mikið hlakkar mig til að lesa hana :)

Kveðja Auður Lísa

Eygló Traustadóttir sagði...

Til hamingju með bókina :-) Hlakka mikið til að fá eintak í mínar hendur. Get tekið undir allt sem Rakel skrifar hér fyrir ofan ;-)
Bestu kveðjur, Eygló

Nafnlaus sagði...

Good luck with the book, Vila
from your good friend
Morag D.x and best wishes too from Elspeth

Unknown sagði...

Vúhú! Loksins! :) Til hamingju með bókina!

Nafnlaus sagði...

Til Hamingju Villa - hlakka til að lesa bókina - þetta lofar góðu
Kveðja frá Grindavík
Fanney Pétursdóttir

Harpa H. sagði...

Bestu hamingjuóskir með bókina (sem ég hlakka ógurlega mikið til að lesa um leið og ég verð læs á ný)! Flott kápa - en ég of athyglisbrostin í augnablikinu til að tengja ...

Unknown sagði...

Flott bók, skoðaði hana í Eymundsson í dag!

Nafnlaus sagði...

Sæl Vilborg og til hamingju með Auði. Ég var núna rétt í þessu að hlusta á viðtal við þig á Rás 2 og það var virkilega gaman að heyra röddina á bak við bloggið og svo ég tali nú ekki um bækurnar þínar. Á morgun er ég að fara að byrja að lesa Laxdælu fyrir 15 ára unglinga og er aldeilis fróðari eftir að hafa hlýtt á þig, hlakka til að deila þeim fræðum á morgun.
Takk fyrir mig og gangi þér vel,
Sigrún Valdimarsdóttir

Harpa H. sagði...

Til hamingju með tilnefninguna! Þú ert flott á myndinni í Mogganum í dag :)