Líf í árvekni: Tæknileg vandkvæði

þriðjudagur, 16. desember 2008

Tæknileg vandkvæði

Það er góð hugmynd að taka myndir af smákökunum sínum, því þá getur kona notið þeirra áfram eftir að búið er að borða þær allar. Árlega Smákökuboðið Okkar heppnaðist óskaplega vel, sirka fjörtíu gestir heiðruðu okkur með nærveru sinni og allir fengu sér kökur nema einn (en honum fyrirgefst því hann vill bara brjóstamjólk ennþá, kemur sterkur inn á næsta ári, trúi ég).

Það er ennþá umdeilt hvort okkar Míns vann í keppninni um bestu smákökuna, næst höfum við skriflega atkvæðagreiðslu svo ekki þurfi að standa í þrasi fram að jólum sem fær forsetakosningaatkvæðatalningarvesin í Flórída BNA fyrir nokkrum árum til að blikna í samanburði. Ath. þið sem mættuð á laugardaginn og lesið þessi orð; kveðjuglugginn er opinn fyrir ítrekun atkvæða (þ.e. séu þau réttu megin).
Annars gengur bara vel að undirbúa komu jólahátíðarinnar, Yðar einlæg m.a.s. búin að stíga í pontu í sjálfri Dómkirkjunni og messa yfir lýðnum og nú þarf ég ekki að fara í guðfræðideildina, presturinn í maganum búinn að fá næga útrás í bili.

Eitt aðventuverk er þó eftir sem er kannski það eina sem ég hlakka ekki sérlega til: Í dag förum við Únglíngurinn í skóginum að kaupa á hann jólafötin og skó. Baaa...! Þau sem þekkja drenginn í Gelgjunni, teiknimyndaseríu Fréttablaðsins skilja hvað er framundan...

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Aldeilis fínt kökuhlaðborðið.
Ekki amalegt að komast í það.
'Astarkveðjur Mamma

Nafnlaus sagði...

Þó ég hafi ekki verið á staðum þá vil ég fyrir hönd fjarstaddra "gömlu" vinkvenna gefa Vilborgu atkvæði okkar. Fyrir því eru sterk rök sem ég get ekki gefið upp í núna þar sem málið er á viðkvæmu stigi. (þetta var skrifað á Geirsku)

Það er alveg rétt hjá þér að það er góður siður að taka myndir af smákökunum. Í það minnsta hef ég og mínir skemmt mér mikið yfir myndunum af erótísku kökunum sem við seldum til styrktar góðu málefni um daginn.

Satt að segja líst mér ágætlega á þessa prestshugmynd. Séra Vilborg hljómar vel, ertu ekki nokkuð lagviss? Það er svo gaman þegar prestar tóna fallega. Ég held bara að ég og húsbandið myndum láta þig splæsa okkur saman (aftur)ef þú lætur gluða.
Annars við ég bara óska ykkur góðs og gleði.
þva
Matta

Katrín sagði...

Hehe, hann Palli sem einusinni hét Nabbi!

Nafnlaus sagði...

gleði og gleðilegt ár mín kæra. Fer að koma að því að ég hafi samband..hugsa til þín!
Inga María