Þessar afmörkuðu stundir mín með hamingjupælingunum eiga samleið með kreppunni af því að í byrjun mánaðarins skrifaði ég uppá að þýða litla bók um efnið hjá bókaútgáfunni Sölku, útgáfa væntanleg með vorinu.
Sem betur fer þá er ekkert talað um peninga í þessari bók, ekki nema þar sem tekin eru dæmi af því hvernig söfnun þeirra getur hindrað okkur í að vera hamingjusöm núna, burtséð frá því hver staðan er á fjármálunum. (Þ.e. ef við hengjum hamingju okkar á tiltekna fjármálastöðu þá er nokkuð ljóst að við verðum að bíða með hamingjuna þar til aurarnir hafa skilað sér. Hvenær sem það nú verður - ef einhvern tímann).
Meginþemað í þessari bók um listina að lifa, líkt og ýmsum öðrum sem ég og Minn höfum sankað að okkur um efnið í gegnum tíðina, er mikilvægi þess að streitast ekki á móti veruleikanum heldur gangast við því sem er. Þar með er ekki endilega sagt að við eigum að gera okkur ánægð með það sem er, heldur einfaldlega að taka því að allt er eins og það er, án þess reyna að horfa framhjá því, afneita því, berjast við það í huganum, stinga höfðinu í sandinn, garga yfir því hvað það er óréttlátt að einmitt svona sé þetta, án þess að óska þess að hlutirnir væru öðruvísi en þeir eru. Sem sagt: Lykillinn að hamingjunni er að gangast við því sem er. Að vera kjur með því sem er.
Hljómar aldeilis einfalt en er þó hægara sagt en gert. Get samt sagt frá því af eigin reynslu að þegar það tekst þá færist yfir kollinn og kroppinn allan ótrúleg friðsæld. Eins og sálin dragi andann djúpt og dæsi síðan af tómri vellíðan: ,,Jæja, þá er manneskjan loksins til friðs!" Ég upplifði þetta síðast 12. janúar 2007 um kl. 22.00 og hef oft hugsað til þeirrar stundar síðan, sótt mér æðruleysi í þá minningu, svo einkennilega sem það kann nú að hljóma fyrir þá sem til þekkja.
Þetta þýðir samt ekki að við eigum bara að sitja á rassinum þegar eitthvað er verulega mikið að því hvernig allt er. Alls ekki. En þetta er samt sem áður allra fyrsta sporið í að átta sig á því einmitt hvort og hvað má færa til betri vegar.
Þau sem kannast við Sporin tólf kalla þetta einmitt 1. sporið: að viðurkenna vanmátt sinn. Undarlegt að hægt sé að öðlast styrk með því að játa vanmátt sinn. Samt er það svo. Að láta af bardaganum við það sem er ekki á okkar valdi. Magnað.
Svona er ég spök á morgnana. En eftir hádegi, þegar ég sit úti á Safni við mín eigin skrif, þá hallast ég meira að því að taka undir það sem kollega mín ein, sem ég deildi einu sinni skrifstofu með, sagði um hamingjuna, nefnilega að hún felist í því að hafa verið dugleg. Mest við skriftirnar náttúrulega, en líka við hvaðeina sem getur flokkast undir annan dugnað, skúringar (með kraftmikilli músík), straujun á uppsöfnuðum haug af krumpuðu taui og þess háttar. Í uppáhaldsbók minni þessa dagana, Ritmálssafni Orðabókar Háskóla Íslands, fann ég þetta gullkorn svipaðs efnis: ,,Iðnin og hamingjan eru mæðgur."
Þegar ég hugsa um það, þá er dugnaður/iðni líkast til falinn í að gera hvaðeina sem skilar af sér einhverjum afrakstri eða sköpun. Í víðustu merkingu þeirra orða.
Afraksturinn af því að lesa kvöldsögu fyrir háttað og strokið smáfólk er til dæmis sköpun á vellíðan fyrir foreldri og barn.
Afraksturinn af því að dúka kvöldmatarborðið með spariglösum og servíettum í servíettuhringum og logandi kertaljósum er glatt auga (og svo held ég að maturinn smakkist hreinlega betur líka).
Lýk þessum spekúlasjónum með spurningu til ykkar, elskulegu les-endur Varurðarlífsins: Hver væri ykkar botn á setningunni: Ég er hamingjusöm /hamingjusamur þegar .......... ? Vísast margir botnar, kannski jafnmargir og mannfólkið. En það væri gaman að sjá brot af því sem hægt er að hugsa sér.
P.S. Efsta myndin er tekin á Laugarnesi í Reykjavík. Skottan krýpur í grasinu þar sem á skilti segir frá Laugarneskirkju, sú mun hafa staðið þar frá því í öndverðu Íslandsbyggðar þar til á síðustu eða næstsíðustu öld.
P.P.S. Gleymdi alveg sparnaðarráði dagsins og bæti úr því með því að vísa í pistil frá því fyrr á árinu þar sem útskýrt er vel og vandlega hvernig má spara fúlgur fjár með matseðilsgerð. Ath. Ráðið er í síðari hluta setningarinnar og svo er smáviðbót í athugasemdaglugganum.
8 ummæli:
Kæra Vilborg. Þetta er áðdáendabréf! Þú ert aldeilis frábær rithöfundur og dásemdar lífskúnstnar pælari. Hlakka til að lesa næstu bók eftir þig. Hvenær kemur hún út? Gangi þér vel... Ólöf Guðmundsdóttir.
Góð hugleiðing.
IÞÞ
Takk fyrir mig, yndisleg skrif að vanda ..knúskveðja frá litlu systur.
P.s hvenær ætlar þú að skrá þig á Facebook kona?
Ég held að ég sé hamingjusömust þegar ég hugsa ekki um neitt.
Tek undir áskorun um að þú hefjir líf á snjáldurskræðunni.
þva
Matta
Eða kannski er ég hamingjusamari þegar ég sleppi listakonunni út
þva
M
Ég er hamingjusöm þegar ég leiði hugann að því hvað ég er heppin. Með allt.
Kær kveðja,
Dagbjört - einlægur aðdáandi skrifa þinna allt frá því hún las Við Urðarbrunn 12 ára og samviskusamur lesandi ,,Varúðarlífsins" í tæp tvö ár.
VarURÐarlífsins að sjálfsögðu :)
Dagbjört
Sæl Vilborg,
ég las s0guna þína Hrafninn og æyla svo sannarlega að lesa hinar við tækifæri.
" Ég er hamingjusöm /hamingjusamur þegar .......... ég finn innri frið og lifi í samræmi við mitt innsta eðli/lífstilgang og gildismat"
Skrifa ummæli