Líf í árvekni: Með þrútið hjarta

þriðjudagur, 13. maí 2008

Með þrútið hjarta

Tilfinningin er ekki ósvipuð og eftir fæðinguna fyrir tæpum fjórtán árum; þreytt en ákaflega sæl og glöð, fegin yfir því hvað þetta gekk nú óskaplega vel allt saman og að oggulítill kvíði í aðdragandanum reyndist alveg ástæðulaus, í aðra röndina er konu líka létt yfir að þetta er að baki. Hjartað er þrútið af móðurlegu stolti og lítil rödd hvíslar í gegnum gleðivímuna nú eins og þá: ,,Þetta gastu, stelpa!"

Sem sagt, drengurinn er fermdur.

Athöfnin í Dómkirkjunni í gær var óskaplega falleg og persónuleg og lítið eitt öðruvísi en flestir eiga að venjast; Únglingurinn í skóginum var eina fermingarbarnið því að hann sótti fermingarfræðslu í Kvennakirkjunni, hjá sr. Auði Eir og var fermdur af henni. Kvennakirkjan er söfnuður (sem yðar einlæg hefur tilheyrt síðan í fyrra eða hitteðfyrra) innan okkar lútersku þjóðkirkju, sem fær lánaðar kirkjur eftir hentugleikum fyrir messur og athafnir, í þessu tilviki sóknarkirkju beggja foreldrasettanna sem búa sitt hvoru megin við Dómkirkjuna (og gengu þar hvort um sig í hjónaband fyrir eigi svo alllöngu).

Strákurinn var svona líka flottur, í smókingjakkanum og með Billabong hattinn (sjá mynd - NB hann var vitanlega hattlaus í kirkjunni), stóð sig eins og hetja og bliknaði hvorki né blánaði en beit bara í tunguna á sér þegar móðirin flutti til hans ávarp með tilvitnunum bæði í Matthíasarbók (sjá síðasta blogg) og Pál ,,Postulín" í Biblíunni (Fyrra Þessaloníkubréf, kafli 5, vers 15-24).

Eitt af því sem gerir messur Kvennakirkjunnar öðruvísi en þær hefðbundnu er að altarisgangan er með lítið eitt öðru sniði. Eftir að Matthías hafði verið tekinn til altaris gengu þau sr. Auður Eir fram og stóðu í neðstu altariströppunni, hún með vínið í kaleiknum (vínberjasafa) og hann með brauðið í körfu (rifnar hveitibollur) og gáfu okkur kirkjugestunum, sem gengum hvert af öðru fram fyrir þau, jafnt ung sem aldin (virk sem óvirk) og öll þar á milli.
Á meðan við þáðum blóð Krists og lífsins brauð söng Anna Sigga Helgadóttir (hún söng líka í brúðkaupinu okkar Míns heittelskaða, 5.8.06) svo undurfagurt við píanóundirleik Aðalheiðar Þorsteinsdóttur að ekki varð hjá því komist að konu og manni vöknaði um augu.

Ættartrénu drengsins (sem líkist stórum og fallegum rósarunna fremur en beinvöxnu grenitré) var boðið til fermingarveislunnar í björtum og notalegum sal Dómkirkjusafnaðarins við Vonarstræti; þar svignaði fimm metra langt kökuborðið af kræsingum framreiddum úr eldhúsum beggja fjölskyldna og svo að sjá sem hvor um sig hafi talið sig eina um baksturinn oní þessa sirka fimmtíu gesti okkar. Betra að hafa of en van, fannst okkur, og að veislulokum var restunum sem reyndar voru ekkert svo óskaplega miklar, býttað á heimilin tvö, þannig að hér verður annar og þriðji í fermingarveislu næstu dagana (þarf nauðsynlega að fá uppskriftina að frönsku súkkulaðikökunni hennar Siggu fyrir næsta afmæli og ef Tommi mágur lítur hér við þá var ítrekað beðið um uppskriftina að brauðréttinum með sólþurrkuðu tómötunum!).

Við ferminguna leiddu konur úr kór Kvennakirkjunnar sönginn, hlýjar þakkir til þeirra fyrir það. Ég botna þessa fermingarfærslu með sálmi sem þær sungu til hans þegar hann hafði staðfest skírnarheitið (ég hef verið að raula þetta í vetur af og til, ekki síst þegar únglíngaveikin hefur herjað, prófið endilega sjálf og finnið hvað sálmaraul hrífur vel til hugarhægðar); Megi gæfan þig geyma eftir Bjarna Stefán Konráðsson:

Megi gæfan þig geyma,
megi Guð þér færa sigurlag.
Megi sól lýsa þína leið,
megi ljós þitt skína sérhvern dag.
Og bænar bið ég þér,
að ávallt geymi þig Guð í hendi sér.
P.S. Á neðstu myndinni eru tvær af Systrunum sex (já, hann á sex systur í allt og einn ponsulítinn bróður að auki) að opna sína pakka í veislunni - snilldarhugmynd úr stjúpmóðurgarði sem sló aldeilis í gegn.
P.P.S. Betri myndir munu með tíð og tíma birtast í myndasafninu, en til að byrja með eru hér þrjár góðar frá fermingardeginum á bloggsíðu elstu systurinnar.

3 ummæli:

McHillary sagði...

Gaman að lesa þessi skrif og sjá hvað allt heppnaðist vel. Hann er ekkert smá flottur fermingardrengurinn.
Innilega til hamingju enn og aftur :-)

Nafnlaus sagði...

Hjartanlega til hamingju med drenginn. Hugsadi til ykkar hedan ur sumarblidunni i Birmingham ( 24 stiga hiti!)
Er buin ad labba af mer faeturnar og otrulegt en satt tha er eg buin ad versla dulitid lika!
Herna er margt spennandi og skemmtilegt ad skoda. Eg er inni i risastorri holl med 5 risa storum solum og oryggisvorur svo langt sem augad eygir.
Hlakka til thess ad hitta ykkur er heim er komid og sendi fermingarbarninu astarkvedjur.
Knus a linuna. Litla systir

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Miðvikudagurinn 14. maí 2008: teljarinn minn er kominn í 100 þúsund og 12 flettingar. Hver skyldi hafa verið númer 100.000? Lummur og latte í boði fyrir vinningshafann :o)