Líf í árvekni: Plúshelmingamegin

þriðjudagur, 29. apríl 2008

Plúshelmingamegin

Þar er komið í málþroska mínum og skilningi á dýpt okkar ástkæru, ylhýru tungu að ég get búið til málfræðilega rétta setningu sem enginn skilur nema Minn heittelskaði. Ekki einu sinni ég sjálf. Dæmi?

,,Fallkerfaröð er samtenging tveggja eða fleiri rása þar sem útgangur rásar tengist inngangi næstu rásar." Og sé þetta ekki nógu áhrifamikið, hvað þá um þessa fullyrðingu? ,,Þetta er flokkur magnara sem er með vinnupunkt forspenntan við opnun þannig að þeir magna plús- eða mínushelming merkisins. Forspennan gerir það að verkum að cross-over bjögun verður minni en í klassa B."
Hann er sem sagt búinn með bókina sína, vel á undan mér (N.B. hann byrjaði líka langt, langt á undan mér) og ég er nú að prófarkalesa Rásakverið: handbók í rafeindavirkjun. Makalaust skemmtilegt verk; aldrei hef ég á ævinni lesið texta og leiðrétt án þess að skilja svo mikið sem múkk í innihaldinu. Hafi ég áður fengið í hnén yfir gáfnafari Míns heittelskaða, þá er ég nú gjörsamlega fallin í stafi yfir því sem rúmast í kolli hans - það er aldeilis ekki að sjá að drekaskoffínið hafi haft nokkurn skapaðan hlut að segja í gagnabankann sem þar hefur verið komið upp næstliðna áratugi, hvort sem er sálar- eða jónamegin.Við heiðurshjónin höfum nú með sumarkomunni tekið til við ákaflega sportlegt líf: nú er synt tvo morgna í viku í Vesturbæjarlauginni, hlaupið umhverfis Tjörnina og hjólað reglulega þess á milli, auk þess sem Minn er nú dottinn í golfið (nei, ekki í gólfið, golfið). Fórum í sólríkan og frísklegan hjólatúr út í Nauthólsvík á Drottinsdaginn síðasta með Skottuna í aðstoðarstúlkusætinu, þá um morguninn hafði Minn verið frá átta til ellefu (!) í golfinu og Yðar einlæg síðan tekið Tjarnarhringinn á ofurkonuspretti.
Hreyfingin, dagsbirtan og blessuð Reykjavíkurgolan eru hreinustu undralyf; gleðin streymir inn í sálina og hrekur burt myrkrið sem þar hefur ríkt þessa löngu vetrarmánuði, stundum svartara en kona hefur kært sig um að viðurkenna fyrir opnum tjöldum. Á sunnudagssíðdegið hlýddum við síðan dolfallin á yndislegan kórsöng Háskólakórsins í Neskirkju og Mín við það að tárast af hamingju yfir að eiga þarna sirka 1/50 hlut í þessum rjómaröddum, þannig talað. (Sú uppkomna er þarna aðeins til hægri við miðju í fremstu röð, með hendur fyrir aftan bak.) Þegar þau sungu Ég vil lofa eina þá (þ.e.a.s. Máríu guðsmóður) við lag Báru Grímsdóttur hvarf ég með lukt augun inn í hljómmikinn helgisönginn og tók undir í hljóði; mikið er mitt blessaða barnalán :o)
Við bætist tilhlökkun til Hvítasunnunnar en þá á mánudeginum gengur Únglingurinn í skóginum til liðs við okkur Kristsmenn og -konur og verður fermdur af síra Auði Eir kvennakirkjupresti í safnaðarkirkju beggja fjölskyldna hans, þ.e. Dómkirkjunni. Næsta ritverk frá minni hendi verður ,,ávarp til fermingarbarns" til flutnings við athöfnina; ég hef verið að fletta svonefndri Matthíasarbók sem ég hef haldið frá því piltur var þriggja ára gamall í leit að einhverju sem væri við hæfi við svo hátíðlegt tilefni - sumt er nú svo krúttlegt að það hálfa væri nóg og myndi án vafa kosta djúpan roða í únglíngsvöngum og tár á frænku- og ömmuhvörmum:
3 ára: Knúsin hans Matta geta klárast. Stundum á hann bara eitt pabbaknús eftir og þrjú mömmuknús en öll Katrínarknúsin eru búin. Yfirleitt má bæta birgðastöðuna með því að gefa honum nokkur knús og þá margfaldast lagerinn fljótt.

5 ára: Eftir að hafa lesið nokkrum sinnum bókina Gettu hve mikið ég elska þig notar Matthías yfirleitt lengdareiningar til að lýsa ást sinni og elskar ástvini sína ,,hærra en geimurinn," ,,upp í tungl og til baka" og það stórkostlegasta: ,,Ég elska þig lengra en endimörk geimsins!"
Kannski læt ég bara duga að birta þetta hér. Fer eftir því hvernig únglíngahormónasprengigosin arta sig næstu tvær vikurnar... ;o)
P.S. Þau ykkar sem eigið kærleikshugsanir aflögu, sendið þær endilega á þessa slóð hér þar sem verið er að takast á við dreka af því sama tagi og hér var minnst á að ofan, auk annars - þær koma ábyggilega að góðum notum.

6 ummæli:

Katrín sagði...

Awww... Matti var SVO mikið krútt þegar hann var lítill ;)

Nafnlaus sagði...

Það hefur nú ekki farið á milli mála að ónefndur stuðull lækkaði hér í IH þegar þinn maður yfirgaf okkur og snéri sér að öðrum viðfangsefnum. Björgvin láttu okkur vita þegar bókin kemur út. Bestu kveðjur, Bryndís

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Var að taka eftir því að það styttist í heimsókn númer 100.000 og var að spá í að gera eitthvað svipað og Pétur frændi (Björgvins) í símaauglýsingunni, hafa lúðrasveit tiltæka og svona. Sá eða sú heppna er beðin að gera vart við sig hér þegar þar að kemur, sem ætti eftir mínum vísindalegu útreikningum að vera einhvern tímann fljótlega eftir Hvítasunnu. Spurning um a.m.k. Latte og lummur...

Nafnlaus sagði...

Katrín tekur sig sannarlega vel út íþessum myndarlega hópi:
Matti, það fer enginn í fötin hans í speki og skemmtileg heitum!
'Astarkveðjur Mamma.

Nafnlaus sagði...

hæhó frænka, rakst á þetta og hélt að þér þætti gaman að lesa þetta: http://www.hugi.is/fantasia/articles.php?page=view&contentId=5834145

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með daginn.
kveðja Inga María