Líf í árvekni: Alltaf að skrifa

miðvikudagur, 16. apríl 2008

Alltaf að skrifa

,,Ertu ekki alltaf að skrifa?" segir fólk við mig.
,,Jú, jú," segi ég strax. ,,Alltaf að skrifa." Reyni að vera ekki vandræðaleg þótt Mín Innri Rödd hvísli um leið: ,,Er það nú alveg rétt, góða? Suma daga skrifarðu nú barasta varla staf!"

,,Það er ekkert að marka," ansa ég Minni Innri Rödd fúl og er strax komin í vörn. ,,Kona getur ekki skrifað og skrifað tímunum saman eins og ekkert sé, hún þarf nú að næra andann til þess að geta verið frjó og frumleg og komið með nýjar hugmyndir! Stundum verð ég til dæmis að lesa, það er heilmikil heimildavinna sem þarf að vinnast meðfram þegar sagan gerist langt aftur í öldum, það segir sig nú sjálft. Og stundum þarf ég að vinna í textanum, snurfusa og lagfæra og þannig. Það er ekki allt talið í línum eða skrifuðum síðum!"

,,Iss," segir Innri Röddin með hofmóði. ,,Fyrirsláttur. Hvernig var vinnudagurinn í dag til dæmis, viltu segja okkur frá því?! Farið laglega af stað í morgun, með kaffidrykkju og kjaftablaðri í þrjá tíma, vesskú!"

,,Ég þarf nú að eiga samskipti við annað fólk líka, það er enginn leikur að vinna heima hjá sér þar sem engir vinnufélagar eru til að deila með kaffitímanum, skal ég bara segja þér. Þessi vinkona mín er í heimsókn frá útlöndum, komin alla leið frá Finnlandi og fyrr mætti nú andskotans fyrr vera að gefa sér ekki tíma til að rækta vináttuna þá sjaldan að færi gefst!" Mér finnst þetta ekki sanngjarnt.

,,Já, já, og svo var mín náttúrulega óskaplega skapandi jafnskjótt og ræktunarstarfinu lauk um hádegisbilið, eða hvað?" Mín Innri Rödd er ekki á því að gefa sig, tónninn sífellt kaldhæðnari.

,,Njah - " Ég þarf aðeins að hugsa mig um. Já, alveg rétt! ,,Ég þurfti nú að svara tölvupóstinum, þess þurfa ALLIR."

,,Já, það var víst þarna áríðandi englakeðjubréf frá mágkonu þinni sem þurfti að sendast á tíu manns í viðbót og aftur á hana. Og hvað svo fleira?"

,,Svo las ég helling í tveimur bókum til að gá að svolitlu sem skiptir sko máli þarna í sambandi við söguna, ég á eftir að ákveða tiltekna staðsetningu fyrir tiltekna persónu sem gegnir stóru hlutverki og var svona að athuga betur kortin og sjá hvort væri hentugra upp á söguþráðinn að gera að hafa þetta svona eða hinsegin, landfræðilega sko, og svo var ég að spá í hvort ég ætti að fara eftir þessarri eða hinni heimildinni um hvort tilteknir sögulegir menn hafi verið bræður eða ekki - það skiptir verulegu máli upp á framhaldið að gera hvort þeir voru bræður en þeir voru líklega ekki verið bræður því þeir eru klárlega af sitt hvoru þjóðerninu og ég skil ekki hvað þessir sagnfræðingar eru eiginlega að rugla með svona lykilatriði, meiri vitleysan. Byggir allt á því að menn með sama nafni eru á ferðinni á sama aldarfjórðungi en í sitt hvoru landinu! Eins og menn geti ekki verið nafnar fyrr á tímum rétt eins og í dag!"

Mín Innri Rödd stynur mæðulega eftir þessa ræðu. ,,Og ertu nú búin að komast að sömu niðurstöðu og síðast þegar þú fórst í gegnum þetta eða skipta um skoðun aftur?" Hæðnistónninn er nístandi.

,,Njah. Ætli ég hafi þá ekki bara bræður, það er eiginlega sennilegast að þannig hafi það verið. Svo væri hitt svo flókið og þá væri sagan farin að teygja sig út í allt aðra móa en til stóð, skilurðu. Nóg er nú samt. Krítíkerarnir segja líka að sagan verði að ganga fyrir sagnfræðinni svo að það getur verið að ég slái jafnvel saman tveimur sögulegum atburðum til að einfalda þetta aðeins."

,,Og þetta er sem sagt dagsverkið þá? Að komast að sömu niðurstöðu og síðast?"

,,Nei, nei. Ég ákvað líka að hafa aðsetur tiltekinnar persónu á tilteknum stað, öðrum en ég var búin að ákveða í gær." Ég er nokkuð hróðug með mig þegar ég átta mig á þessu. ,,Ég á bara eftir að breyta staðarheitunum í textanum."

,,Og svo var dálítið sofið, var það ekki?! Á vinnutímanum!"

,,Ég sofnaði nú eiginlega ekki," muldra ég vandræðaleg. ,,Þetta er kallað leidd slökun, maður fer í svona á-milli-svefns-og-vöku-ástand í afmarkaðan tíma og hlustar á slökunartónlist, öldugang og fuglasöng á meðan, hver einasti gúrú sem hefur sett orð á blað í sjálfshjálparbók segir að þetta sé algjörlega lífsnauðsynlegt fyrir andann og sálina og ekki síður líkamann, bætir nætursvefninn (og ekki veitir nú af) og skapar nauðsynlega ró sem er skilyrði fyrir því að nokkur sköpun geti átt sér stað. Og hafðu það!"

,,Já, þannig að niðurstaðan er sem sagt sú að í dag var ekkert skrifað nýtt nema þetta blogg en á morgun...?"

,,Á morgun ætla ég að skrifa heila síðu. Kannski tvær. Og ekki blogga neitt í marga daga. Lofa."

,,Og fyrir þetta er borgað með skattfénu borgaranna?! I rest my case!"

12 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þitt letikast er gróði okkar netverja þegar afraksturinn er svona skemmtilegt blogg :-)
Palli

Nafnlaus sagði...

Makalaust skemmtilegar pælingar hjá skáldinu .Kærar þakkir. Mamma.
:-)

Nafnlaus sagði...

Gvööööð hvað þú ert skemmtileg! Fáðu nú endilega sem flest svona köst

Alda sagði...

Askolli góðar samræður sem þú átt við þína innri rödd, þetta kallar maður að vera í sambandi! :)

Nafnlaus sagði...

Það er nú gott að þú gafst þér tíma til að spjalla við hana Huldu mina, segi ég. En svona er þetta, það að vinna við skriftir er öðru visi en að vinna í fiski til dæmis, stundum gerist voða fátt og stundum rennur þetta bara á blaði eins og ekkert sé. Verst er þegar maður er búinn að segja við sina Innra rödd að þetta á að vera klappað og klárt í mars og svo er eigi. En það gerist á bestu skipasmiðastöðum. Kær kveðja og um hvað ertu að skrifa núna annars?

Guðný Pálína sagði...

Mikið kannast ég við sambærilegt ástand þó ekki sé ég að skrifa bók. Ég er heima að jafna mig eftir brjósklos-aðgerð og einhvern veginn kem ég mér aldrei að því að gera eitthvað gáfulegt við allan tímann sem ég hef til afnota. Þyrfti helst að koma saman einhverju plaggi til að heilla bankann uppúr skónum svo hann (eða stjórnendur hans reyndar) láni okkur meðeiganda mínum í Pottum og prikum fyrir framkvæmmdum sem við stöndum í, en mér er lífsins ómögulegt að koma mér að verki. Tel sjálfri mér trú um að það sé vegna þess að ég má ekki sitja, bara liggja eða standa, en ég er bara vön því að sitja við skrifborð við skriftir (ekki liggja í sófanum með tölvuna á maganum eða standa við upphækkað borð).

Hm, þetta varð víst heldur langt hjá mér, en gangi þér vel við bókaskrifin!

P.S. Er svo ekki kominn tími á blogg, þú stóðst við stóru orðin og bloggaðir ekkert í marga daga ;-)

Nafnlaus sagði...

Takk kærlega fyrir innlitið Vilborg. Er búin að lesa um ykkar reynslu á síðunni hjá þér og las sumar upplifanir ykkar upphátt fyrir minn ektamann svo að hann væri ekki að leika Palla einan í heiminum. Katarínurnar okkar eru fæddar á sama árinu!
Kærar kveðjur
Inga María

Nafnlaus sagði...

'Oskum ykkur gleðilegs sumars .'Astarkveðjur Mamma og Pabbi.

Nafnlaus sagði...

Hæ Villa mín,
Það er svipa með okkur sum og sumarfuglana (..og flóabitin..) ..látum sjá okkur fyrir rest :-)
Mikið er ég nú fegin að það er ekki bara ég sem á stundum í smá skoðanaerjum við innri rödd og anda! Það getur nú reyndar tekið svolítinn tíma að velja rétta strigann nú eða liti :-) Svo ég tali nú ekki um af hvaða heimi persónurnar eigi að vera. Ég er sammála að það þarf þónokkra hvíld til að finna þetta allt út!
Gott að heyra að allt gengur vel hjá ykkur og gangi þér vel við skrifin.
Kveðja Alla

Nafnlaus sagði...

Sæl Vilborg, rakst á bloggið þitt á síðunni hjá Ingu Maríu, bara gaman að lesa þetta hjá þér! Var að rifja upp að ég hef ekkert rekist á þig síðan á frumsýningunni á Óbeislaðri Fegurð!! Svona er víst að vinna heima eins og þú segir... Hafðu það sem best, Beta Markúsar. Skelfingmodur.blog.is

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir frábæran gærdag systir kær...
Hlakka til þess að lesa næsta blogg sem ég vona nú að fari að fæðast fljótleg, það er ómögulegt að koma hingað án þess að fá að gæða sér á nýrri færslu!

Knúsó Auður Lilja

Nafnlaus sagði...

Sækja um fljótlegt og þægilegt lán til að borga reikninga og til að hefja nýjan fjármögnun verkefnum þínum á ódýrustu vexti 2%. Hafðu samband við okkur í dag með: elijahloanfirm@outlook.com með lánsfjárhæð sem þarf vegna þess að lágmarkslánið okkar er 1,000.00 að einhverju vali lánsfjárhæð.