Líf í árvekni: Gott ráð

þriðjudagur, 19. febrúar 2008

Gott ráð

Börnin mín, þessi eldri það er að segja því sú sem dansar við spegilmyndina er ekki farin að lesa ennþá, hafa bæði haft orð á því í tvígang nýlega að ég ætti nú að fara að blogga og það sé allt í lagi að skrifa bara eitthvað stutt, ég geti til dæmis sagt bara frá því að við höfum farið í bíó að sjá Brúðgumann eða í leikhúsið loksins eftir ríflega tveggja ára hlé og séð Vígaguðinn og funndist hvort tveggja gargandi snilld en ég hef þá svarað því til að mér finnist persónulega ekkert varið í blogg sem eru um þetta smotterí sem við erum öll að dúlla okkur í til að brjóta upp hvunndaginn, það verði að vera eitthvað dýpra umræðuefni, eitthvað sem geti hugsanlega gagnast lesandanum umfram það að vera ómerkileg dægrastytting sem gæti valdið honum samviskubiti jafnvel svo honum færi að finnast ég vera að stela af honum dýrmætum tíma sem hann gæti notað á uppbyggilegri hátt, væri að minnsta kosti réttlæting á því að hann (lesandinn) eða hún (lesöndin) liti hérna inn og væri ekki bara hrein tímasóun og þá sögðu þau, Sú Uppkomna og Únglingurinn í skóginum, að ég gæti þá haft eitthvað svoleiðis með en alla vega að skrifa eitthvað smá svo ég hætti ekki alveg að fá heimsóknir því það séu ansi margir farnir að bíða og þá ákvað ég að skrifa þetta og til að bæta úr skák fyrir ykkur sem eruð þegar farin að sjá eftir því að hafa byrjað að lesa og voruð að vona að það yrði eitthvað varið í þetta loksins þegar manneskjan tæki sig til þá ætla ég að gefa ykkur gott ráð sem hefur gagnast okkur heiðurshjónunum vel undanfarin þrjú ár sirka til þess að spara tíma, peninga, auka fjölbreytni í mataræði og draga úr streitu sem annars kynni að fara illa í okkur, en það er að gera matseðil fyrir allan mánuðinn um hver mánaðamót með matreiðslubók við höndina og skipta á honum matreiðsludögunum á milli okkar (og Únglingurinn fær líka sína tvo daga) og skrifa í línu fyrir aftan réttinn hvað þarf að kaupa í hann (maður hefur 3 dálka, einn fyrir dagsetninguna, annan fyrir réttinn og þriðja fyrir hráefnið), gera svo innkaupalista einu sinni í viku eftir matseðlinum og skiptir ekki máli hvenær það er í vikunni, gott að fara þegar maður getur verið barnlaus og passa að vera ekki svöng því það sparar óþarfa nasl-og-nammikaup (ef kona borðar sykur á annað borð, sem ég mæli ekki með persónulega, fer illa í vefjagigtina) og þá þarf ekkert að vesenast við það á hverjum einasta degi 1)hugsa upp eitthvað frumlegt til að hafa í matinn 2) þrasa um hver eigi að fara út í búð núna af því að hinn fór síðast 3) pirra sig á því að kona/maður eldi oftar en makinn og það sé nú kominn tími til að athuga verkaskiptinguna á þessu heimili með gremjusvip en í staðinn 1) sparast peningar 2) og mikill tími og 3) mataræðið verður fjölbreyttara því ég nenni ekki að elda sama réttinn tvisvar í sama mánuðinum, síst ef ekki þarf að elda nema svona fjórtán sinnum í mánuði (gott að bæta við einum splunkunýjum í hverjum mánuði), 4) það er auðveldara að gá að jafnvægi í mataræðinu þegar maður hefur þetta fyrir framan sig, þ.e. kjöt/fiskur/kjúlli/súpa/grænmetisréttir, en ekki til dæmis kjöt/kjöt/kjöt/frosin pizza/kjúlli/það sem er til í ísskápnum ef eitthvað og svo framvegis og 5) krakkarnir sem taka þátt í að elda átta sig á því að það er vinna og fyrirhöfn og hvað það er gaman að fá hrós fyrir vel unnin störf og fara þá að meta og hrósa aðalkokkunum svona líka miklu meira í staðinn fyrir að fýla grön yfir dásemdunum á diskunum og svo mega þau líka skipta sér af við matseðilgerðina og biðja um uppáhaldsmat þennan og hinn daginn og nú er þetta víst komið gott, bon appetit.

11 ummæli:

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Post Scriptum: Þið sem kunnið á Excel forritið notið það auðvitað, við gerum það og höfum svo eitt skjal (hvort) sem er bara listi af öllu sem við kunnum að elda og hráefninu sem til þarf og gerum svo bara ,,copy-paste" úr því yfir á matseðil mánaðarins. Já og svo má alls ekki líta á matseðilinn sem heilaga kú, ef kona fyllist löngun á mánudegi í búlgörsku súpuna sem er á að vera á fimmtudaginn þá er bara víxla og/eða að fara út að borða eða panta heim, enginn skammast yfir því og sniðugt að hafa svoleiðis líka inn á matseðlinum, kínverskt heim eða pizzu af og til, allir ánægðir með það :o)

Nafnlaus sagði...

Hahaha - þetta var naumast löng setning. Ég las í hljóði en náði samt varla andanum ;-)
Ég, líkt og börnin þín, var orðin langeygð eftir lesningu. Þar sem ekkert nýtt birtist dag eftir dag þá greip ég í bók í staðinn, sem reyndar varð að bókum og nú á ég bara eftir Hrafninn af safninu sem ég á hér heima eftir þig (sem mér telst vera allar nema ein). Nýt lestrarins í hvert skipti, því fyrsta, þriðja og tíunda.
Sigrún - ókunnug

Nafnlaus sagði...

Ég segi nú bara fyrir mig að þú skrifar svo vel að ég vil frekar fá pistilinn um ekki neitt en ekki neitt.

þva
Matta

Nafnlaus sagði...

Villa mín, þetta var nú meiri pistillinn frá þér (en góður samt), ég vildi óska þess að vera svona skipulögð eins og þú. Ég er yfirleitt altaf á hlaupum í bónus og set í körfuna eftir mynni og þegar heim kemur vantar ýmislegt, í eitt skiptið gleymdi ég meira að segja peningaveskinu heima, mundi eftir því þegar ég var komin á Ísafjörð ja svona er maður bara skildi það stafa af því við kvað ég vinn, haha :-)
Kveðja,
Guðrún.

Nafnlaus sagði...

Síðan er ofsalega gott að eiga sjómann sem sér um þetta alles í frítúrunum sínum,- og nota á móti hvaderimatinn.is síðuna sem er hrein unaðsleg snilld !!

Nafnlaus sagði...

Bíddu, átti ekki að vera excelskjal hér einhverstaðar? :þ

Nafnlaus sagði...

Kærar þakkir fyrir þetta, hin ágætasta hugmynd, gott og áhugavert blogg um svo marga góða hluti, hversdagsleikinn er líka hugljúfur oft á tíðum. Kærar þakkir fyrir mig

Eva

Margrét sagði...

Las þetta brosandi - alveg allan tíman (og samt er ég grænmetisæta og minn matseðill væri þá grænmeti/pasta/soya/pitsa/lasangja/indverskur )

Það er virkilega gaman að lesa það sem þú skrifar - það skilur alltaf eitthvað eftir sig og það er gott að eyða tímanum í eitthvað sem fær mann til að brosa.

Nafnlaus sagði...

Þetta er frábært Villa, veitti mér innblástur.. búin að semja matseðil og núna er bara að þrusa á þetta og vera skipulögð!
Takk fyrir mig..
Sjáumst í vöfflum á laugardaginn
Auður Lilja

Nafnlaus sagði...

Just a quick hello from Edinburgh. It is a lovely sunny morning with some beautiful light, however our poor neighbours in England are expecting a 10 second earthquake today.
fondest love to all,
Arnot

Christine sagði...

Vá er gott að vera aftur með fyrrverandi mína, þakka þér dr. Ekpen fyrir hjálpina, ég vil bara láta þig vita að þetta er að lesa þessa færslu ef þú ert með mál með elskhuganum þínum og leiðir til skilnaðar og þú gerir það ekki Vilja skilnaðinn, Dr Ekpen er svarið við vandamálið. Eða þú ert nú þegar skilnaður og þú vilt samt að hafa samband við hann. Dr Ekpen stafrænar rifrildi núna (ekpentemple@gmail.com) eða whatsapp hann á +2347050270218 og þú verður klæddur sem þú gerðir.