Líf í árvekni: Síðbúið jólablogg

sunnudagur, 30. desember 2007

Síðbúið jólablogg

Ekki gengur annað en skrifa eins og eitt jólablogg áður en árið er liðið og tækifærið til slíks horfið, þó ekki væri nema til annars að skreyta mig með aðventukransinum mínum sem ég er ákaflega stolt af, sérstaklega appelsínusneiðunum sem ég þurrkaði alveg sjálf (reyndar var það á meðan ég bjó í Hruna þannig að það er víst dálítið síðan).

Ég merki reyndar á teljaranum mínum að það heimsækja mig alveg jafnmargir þótt ég skrifi ekki staf, hvernig svo sem á því stendur ;o)

Fátt hefur borið til tíðinda þessa jólahátíðina; fjölskyldan eins og flestir landsmenn hefur unað sér við hefðbundnar athafnir svo sem eins og lestur góðra bóka, ketát og maltesíndrykkju, auk þess sem við höfum tæmt nokkra konfektkassa og erum nær því búin með allar smákökurnar sem gestirnir í Smákökubjóðinu kláruðu ekki (sirka fjórar dósir af tíu). Ekki seinna vænna því eftir sólarhring rúman hefst á nýjan leik fyrirmyndarlíf án sykuráts, sem að jafnaði stendur í ellefu og hálfan mánuð á ári, og mikið verður Hún ég fegin því ég er satt best að segja búin að fá alveg yfir mig nóg af sætindunum.

Auk þess sem eftir er hálfur Lindukonfektkassi af stærri gerðinni er uppi í eldhússkáp ennþá tvær plötur af dökku eðalsúkkulaði sem líka þarf að klára fyrir miðnætti á gamlársdag og hér mætti Sú uppkomna gjarnan koma til aðstoðar. En hún er langt fjarri Ísalands köldu ströndum; verður fram á Þrettándann stödd í indælu Eiðinaborg að halda upp á Hogmanay að þeirra þjóðar sið og tekur þá Skota álíka marga daga að fagna nýju ári og okkur að halda upp á jólin.
Ég segi það samt ekki alveg satt að ekkert óvenjulegt hafi borið til tíðinda; þegar ég hugsa mig betur um þá man ég að ég tók í fyrsta skipti á föstudaginn síðasta virkan þátt í guðsþjónustu Kvennakirkjunnar. Jólamessan okkar fór fram í Dómkirkjunni og yðar einlæg fékk að flytja ,,meðhjálparabænina" - þ.e.a.s. bjóða kirkjugesti velkomna með nokkrum orðum frá eigin brjósti.
Þessi gjörð varð til þess að senda mig í örferðalag aftur til æskunnar þegar ég sat einatt (langdregnar) messur í Þingeyrarkirkju, þar sem faðir minn var (og er) meðhjálpari, undir augnliti Jesú sem svipar mjög til þess sem prýðir altaristöfluna í Dómkirkjunni; báðir svona sviphreinir og skolhærðir með skipt í miðju.
Sömuleiðis varð mér, sérstaklega þegar ég steig upp tröppurnar og þurfti að lyfta kjólfaldinum til að hrasa ekki í honum, einnig hugsað skemur aftur í tímann, þ.e. til laugardagsins í verslunarmannahelgi í fyrra þegar ég og Minn vorum vígð saman í heilagt hjónaband í Dómkirkjunni, sællar minningar.

Og þar sem ég setti nú hvort sem er á tölvutækt blað þessi ,,nokkru orð" - og hef verið að reyna að lifa eftir þeim að undanförnu í biðinni eftir niðurstöðunum úr segulómuninni á Mínum (MRI var 28.desember, niðurstöður 2. janúar) - þá endurflyt ég þau mestanpartinn af þeim hér og minni um leið á að næsta messa Kvennakirkjunnar verður þann 13. janúar í Hallgrímskirkju kl. 20.30 og allir eru velkomnir, bæði karlar og konur:

,,Mörg okkar hafa eflaust - og vonandi sem allra flest - átt gleðileg jól í faðmi fjölskyldu sinnar en sum okkar hafa kannski líka átt erfitt um jólin; sum hafa saknað einhvers sem hefur kvatt þetta líf; sum fundið sárar nú en á öðrum tímum fyrir því að ekki væri allt eins og það ,,ætti að vera" – eða kannski réttara sagt, eins og okkur finnst að allt ÆTTI að vera.

Vísast erum við viðkvæmari fyrir á þessum tíma en öllum öðrum vegna þess að aldrei sem á jólum er áherslan ríkari á að fjölskyldan sé saman og friður ríki meðal manna og kvenna; að við förum öll að dæmi frelsarans og sýnum af okkur kærleika í orði og verki.

Ég hef alla aðventuna haft á krítartöflunni í eldhúsinu, sem er höfð til að minna fjölskylduna á eitt og annað mikilvægt, eins konar kjörorð, sem ég hef lært af okkar góða presti, henni séra Auði Eir. Þessi orð eru upp á dönsku: ,,Skidt með det!”

Þessi orð minna mig á að taka sjálfa mig ekki of hátíðlega og gera ekki of miklar kröfur, hvorki til sjálfrar mín né fólksins í kringum mig, um að vera fullkomin. Ekkert okkar er fullkomið; við erum öll að gera okkar besta og meira getur enginn gert.

Við breytum ekki öðru fólki, við breytum ekki því sem er liðið og við höfum ekki áhrif á framtíðina með því að hafa áhyggjur af henni. Þessi stund er sú eina sem við höfum í hendi okkar og við skulum njóta hennar og þess sem við höfum – og það er svo margt sem við höfum til að njóta.

Leitin mín að æðruleysinu hefur helst borið árangur á þeim stundum sem mér hefur tekist að láta af kröfunni um að eitthvað eigi að vera öðruvísi en það er og einfaldlega gengist við veruleikanum; lífinu eins og það er.

Og friðurinn hefur helst komið til mín þegar mér tekst að fara eftir því sem Páll postuli segir í fyrra bréfi sínu til Þessalonikíumanna; Verið ætíð glöð, segir hann, biðjið án afláts. Gjörið þakkir í öllum hlutum, því að það hefur Guð kunngjört ykkur sem vilja sinn fyrir Jesúm Krist.

Gjörið þakkir í öllum hlutum, segir Páll - ekki ,,fyrir alla hluti” – við þurfum ekkert að vera þakklát fyrir það sem er erfitt og sárt. En við getum verið þakklát á meðan við göngum í gegnum lífið, jafnt í gleði og sorg, fyrir svo ótal, ótal margt. Í kvöld er ég meðal annars þakklát fyrir Kvennakirkjuna og fyrir okkur öll sem erum hér saman komin og þessa stund sem við ætlum að eiga hér saman. Velkomin til jólamessunnar."
P.S. Myndin af kennslustund í bindishnýtingu er tekin um kl.17 á aðfangadag, myndin af tunglinu fyrir ofan mannfjöldanum á Laugaveginum kl. 22 á Þorláksmessukvöld og sú af Tjörninni um kl.15 á jóladag.

9 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Kærar þakkir fyrir myndirnar,var einmitt að hugsa hvernig hefði gengið að komast í þessu veðri! Sendum ykkur ynnilegar nýársóskir og biðjum ykkur alls hins besta í framtiðinni Mamma.

Katrín sagði...

haehae maman,
eg fattadi nuna ad eg hef gert svakalega skyssu. eg keypti, eins og hugulsom fille sem vill gera maman gott, 85%kako sukkuladi fyrir tig. eg fila tad ekki, tannig ad annadhvort verdurdu ad taka bara fra einn dag til ad leyfa ter ad borda svona gotteri, eda bara geym tar til i desember ;)

btw eg er nuna a msn og tu ert "Away" tannig ad eg er bara ad lata tig vita ad tu hefur misst af gullnu taekifaeri til ad spjalla adeins! :P bara strida...

Villa sagði...

Engin skyssa, ma fille, svo vel vill til að sykurbindindið hefur aldrei náð til súkkulaðis sem inniheldur 80% kakó eða meira. Enda kakóbaunin grænmeti og þ.a.l. svona súkkulaði hreinasta grænmetisfæði. Söknum þín öll alveg gommu - þ.m.t. bróðir þinn, hann hafði sérstaklega orð á því í gær - ástarkveðjur til Edinborgar!

Nafnlaus sagði...

Með magann (of)fylltan af maltasíni og hangiketskartöflubaunauppstúfsleifum og tartalettum (hver nennir að elda með allar þessar matarleifar í ísskápnum?) sit ég og hlusta á rokið, rigninguna og þvottavélina á meðan ég skoða myndir og blogg. Takk kærlega fyrir skemmtunina, í dag og núna :-) KÞD Fjölnismaður

Matthildur sagði...

Gleðileg jól til þín og þinna og takk fyrir skrifin á árinu. Vonandi kemur bara gott út úr mri-inu þann annan. Hugsa til ykkar.
þva
Matta

Nafnlaus sagði...

knúskveðja og kvitt frá mér.
Gleðilegt ár!

Nafnlaus sagði...

úbbs, átti að koma nafnið mitt með
knúsó
Auður Lilja

palli sagði...

Yndisleg hugvekja að vanda. Lifið manna heilust áfram sem hingað til og takk fyrir allt kaffið!
Palli

McHillary sagði...

Gleðilegt nýtt ár kæra vinkona.
Kossar til þín og familíunnar.