Líf í árvekni: ,,Upp, upp mín sál..."

laugardagur, 20. október 2007

,,Upp, upp mín sál..."

Ég ákvað fyrir nokkru síðan að þessi vetur skyldi helgaður andlegri viðleitni af minni hálfu. Tími til að rækta andlega lífið. Ekki að ég hafi ekki sinnt andanum og sálinni sosum undanfarin árin og við hjónakornin bæði; þó nokkrir metrar í bókahillunum af alls konar fínerístitlum um sjálfsrækt og aðhlynningu hjartans. En nú er komið að því að iðka fræðin sem innbyrt hafa verið og næra sig af því sem gott er; fylla bikarinn helst svo að yfir barmana flæði. Oft var þörf en nú er nauðsyn :o)

Hef tekið syrpur á sálarræktinni í gegnum tíðina; man einn sérlega góðan vetur þegar ég fór til vinnu vestan úr bæ með Sjöunni upp í Hálsa og las á leiðinni í bók sem heitir The Practice of Kindness; tók eftir hana til við aðrar í sama dúr, stútfullar með kærleiksboðskap fyrir hvunndaginn. Ferðin tók hálftíma hvora leið þannig að þarna gafst mér klukkustund á dag til þess að sökkva mér ofan í hollustuefni fyrir andann í algjöru næði - man bara eftir því að hafa farið út of seint í tvígang ;o)

Einn þáttur í andlegri viðleitni þennan vetur hefur verið námskeiðssókn um bók bókanna, fjögur skipti í kirkjunni hans Hallgríms hjá séra Maríu. Síðasta kvöldið er í næstu viku og verður um nýju útgáfuna sem ég er vitanlega búin að tryggja mér eintak af, í óskaplega fallegu, rauðu leðurbandi.

Óvæntur bónus við námskeiðið í Hallgrími er að þar frétti ég af orgelandakt sem þar er í hádeginu á fimmtudögum; undursamleg orgeltónlist í korter eða svo, síðan stutt hugvekja prestsins og endað á meiri orgelspili. Nærandi súpa fyrir sálina, það - og svo er líka hægt að fá súpu fyrir magann í safnaðarheimilinu á eftir.
Annar liður í andlegheitunum yðar einlægrar er mánaðarleg messusókn hjá Kvennakirkjunni og stutt hádegisbænastund í Kvennagarði í miðri viku. Streitan er þema vetrarins í Kvennakirkjunni og hvernig við tökumst á við hana - það er aldeilis frábært að hlusta á síra Auði tala um þennan óboðna og þaulsetna gest og fá reglulega hlýlegar ábendingar um að við erum aldrei ein; Guð vinkona okkar getur hjálpað okkur að finna hugarróna og friðinn. Þurfum bara að biðja Hana um það ;o)

Og nú þegar biblíunámskeiðinu lýkur ætla ég beint á annað námskeið til eflingar andlega lífinu, þ.e. Þú ert það sem þú hugsar hjá Guðjóni Bergmann. Búin með bókina hans og þótt hún sérdeilis fín samantekt á mörgu af því sem ég hef lesið í gegnum tíðina í sjálfsræktinni, vitnað í gamla kunningja eins og M. Scott Peck og Veginn fáfarna (sem kenndi mér fyrir margt löngu að lífið væri svo miklu auðveldara þegar við höfum sættum okkur við að það sé erfitt) og aðra nýrri eins og Harold S. Kushner, sem segir á einum stað að fólk sé tungumál Guðs. Og til þess höfum við trúarbrögðin, siðina okkar, hefðirnar og helgihaldið allt, að geta talað og hlýtt á þetta himneska tungumál.

Kunni líka vel við áherslu Guðjóns á það sé ekki nóg að lesa og lesa - iðkunin er það sem skilar árangri fyrst og fremst. Eins og ég hef trúað ykkur fyrir er hugleiðslan mér heldur erfið en nú er ég farin að iðka slökun með nokkru meiri árangri, hlýði næstum daglega á disk sem mér áskotnaðist á slökunarnámskeiði hjá Maggie´s Centre í Skotlandi og get valið á milli þess að slaka í tvær til tuttugu mínútur eftir óskum.
Mæli eindregið með þessari aðferð til þess að fylla bikarinn reglulega; hún hefur reynst mér vel líka til þess að ,,setja hlutina í rétt samhengi" eins og sagt er í góðum fræðum og skipta út streitu- eða rolukasti fyrir ,,æðruleysið ómetanlega" (sömu, góðu fræði).
Botna pistilinn á sama hátt og síðast með því að óska eftir frekari viðbrögðum við tillögunni um að við notum orðið kempa á sama hátt og enskumælandi nota orðið survivor, yfir þá sem hafa greinst með krabbamein en láta ekki deigan síga en lifa lífinu af öllum mætti, einn dag í einu.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið er gaman að lesa það sem þú segir og verð ég bara að taka til máls (þrátt fyrir að hafa kommenterað í hljóði við hvern póst áður) og segja að Kempa er frábært orð!

Nafnlaus sagði...

Heil og sæl!
Besta rað sem eg hef fengið a minni andlegri göngu var fra trunaðarvinkonu minni þegar hun sagði :Hulda min hættu að lesa og farðu að upplifa, og finna hvað er satt og logið i öllum þessum andlegum bokum sem þu ert buin að vera að lesa siðan þu varst unglingur!

Kempa! Eg er fimm ara kempa, eg er tolf ara kempa þetta rennur vel. Kempa er fallegt orð og kraftmikið.
Haustkveðjur!

Nafnlaus sagði...

Hæ elsku vinir

Það er nokk langt síðan ég hef skrifað hér. Ég er búin að reyna að hringja í 5510479 en engin svarar - vona að ég hafi rétt símanúmer. Anyway... allt gott að frétta frá Danmörku - Dísa á eilífu flakki með skólanum (Berlin þessa dagana)og Tómas datt niður úr tré og var fluttur með hasti á sjúkrahús þar sem 8 manna trauma-lið tók á móti honum og klippti utanaf honum nýju peysuna sem ég hafði rétt nurlað saman fyrir. Eftir rannsóknir hlaup og köll varð minn maður þreyttur á látunum, hrækti í lófann, stóð upp og vildi fá að éta. Hann átti samt að vera einn sólahring á spítalanum , sem hann mótmælti mikið, en féllst að lokum á það af því að spítalinn átti playstation og fullt af leikjum. Síðan fórum við heim.

Þetta er nú svosum það sem gerst hefur síðan ég talaði við Björgvin síðast, nema jú einhver í fjölskyldunni tók upp á því að setja skeiðarnar þar sem hnífarnir eiga að vera í skúfunni. Það tók smá tíma að leiðrétta.

Ég hef átt nokkur svona tímabil sem þú lýsir, þar sem ég hugðist rækta mig andlega - það tókst nokkuð vel á köflum en erfitt að viðhalda. Þetta hefur vafalaust eitthvað með gáfnafar að gera - ekki mín sterka hlið - en ég eyddi miklum tíma í að þykjast vera andlegur án þess að iðka það. En nú hef ég Dísu til að leiðrétta mig þegar illa gengur.

Allavega... Guð veri með ykkur

Ykkar vinur Gummi

Katrín sagði...

Gummi, þau eru komin með nýtt númer! Ég man reyndar ekki hvað það er...