Fyrst er líkast til að skýra fyrirsögnina; það sést hugsanlega á þessari mynd til vinstri við hvað er átt, ef vel er að gáð (ofan við eyrað á Mínum). Nú með haustinu höfum við nefnilega veitt því athygli að nýja, silkimjúka hárið Míns heittelskaða sem er sprottið í stað þess sem losnaði í geislunum beggja vegna á höfðinu er ekki aðeins ívið dekkra og næstum svart, heldur einnig lambakrullótt!
Í pósti sem var lagður inn 25. janúar sl., þar sem ég sagði frá því að niðurstöður vefjarannsóknarinnar eftir skurðaðgerðina væru þess eðlis að geislameðferð væri framundan, útskýrði ég að geislarnir myndu valda hárlosi á svæðinu sem fyrir þeim yrði og þar sem þeir kæmu út og bætti svo við, óskaplega fyndin að eigin mati, og var svona mest að reyna að víkja huganum frá alvöru málsins:
Hárið vex til allrar hamingju aftur stuttu eftir að meðferðinni lýkur, en það eru víst til eru dæmi þess að fólk fái þá aðra hárgerð svo hver veit nema prinsinn verði með krullur með vorinu!
Ekki datt mér í hug að svo myndi reynast í neinni alvöru og frétti reyndar nokkru síðar að það væri reyndar engan veginn víst að hárið kæmi yfirleitt nokkru sinni aftur eftir jafnstranga geislameðferð og Minn gekkst undir - en segið svo að kjöftugri ratist ekki stundum satt orð rétt á munn ;o)
Að allt öðru, út af þessarri umræðu hist og her um dónaskap við útlendinga í verslunar-og þjónustustörfum; bara tilvísun í þennan póst Þeirrar uppkomnu frá því 13. ágúst sl. undir fyrirsögninni Quota, en þar greinir hún frá því - nota bene skúbbar þessu á undan öllum fjölmiðlum - að landinn eigi það til að vera alveg voðalega dónalegur við (innlent) afgreiðslufólk í búðum.
Sú uppkomna, (sem vinnur í útlendingalausri ritfangabúð), gerir það að tillögu sinni að kvóti sé settur á þann fjölda dóna sem hver starfsmaður þarf að afgreiða hvern dag - eftir að hann er uppfylltur geti viðkomandi farið af kassanum inn á lager eða eitthvert annað þar sem friður er fyrir fólki sem skeytir fúlu skapi sínu á öðrum, sem eru að gera sitt besta í lýjandi (og yfirleitt illa launuðu) starfi.
Mér þykir þetta eindregið benda til þess að þeir sem séu ókurteisir við útlendinga séu ekki endilega allir svona miklir rasistar, heldur aðallega bara svona miklir dónar. Við alla jafnt. Og þó veit ég ekki, kannski er auðveldara að vera ruddalegur við útlending af því að það er engin hætta á að hann sé skyldur einhverjum sem þekkir mann?
Ef þið þekkið einhvern eða einhverja sem eru svona geðvond og kunna ekki að leysa úr því sem raunverulega amar að þeim, þannig að vanlíðan þeirra gusast á þá sem eru nálægt í það og það sinnið, þá mætti benda viðkomandi á hina góðu bók, en þar segir í Orðskviðunum Salómóns, 15.15:
Þau sem vel liggur á eru sífellt í veislu.
Ekki amalegt það.
Víkur þá talinu að bókinni góðu (er ég ekki lunkin að tengja svona óskyld mál) sem orðskviði þessa geymir, en nú hef ég tekið mig andlegu taki og er byrjuð á stuttu leikmannanámskeiði í lestri Biblíunnar hjá síra Maríu í Hallgrímskirkju. Búin að mæta í eitt skipti af fjórum og fannst einkar fróðlegt og skemmtilegt. Umræðuefnið fyrsta kvöldið var gamla testamentið og syndaselurinn Davíð konungur (pabbi Salómóns), sem varð ákaflega iðrunarfullur þegar honum hafði verið bent á það með grafískum hætti að hann hefði brotið fyrsta, fimmta, sjötta, sjöunda, áttunda og tíunda boðorðið. Meira um það í sögunni Batseba baðar sig og kóngur fylgist með í laumi ofan af þaki (2S 11). (Batseba þessi fæddi einmitt fyrrnefndan Salómón).
Veit ekki alveg hvernig ég tengi héðan yfir í síðasta mál á dagskrá en það er uppreisnin sem hefst á þessu heimili á morgun. Ekki hjá Únglíngnum í skóginum, aldeilis ekki, og er hann þó yfirlýstur uppreisnarsinni (og kennir sjálfur aldrinum og hormónastarfsemi um). Það er sjálf Yðar einlæg sem hyggst í uppreisn, gegn Skutlmenningunni.
Ég hef sem sé ákveðið að gerast svo djörf að ætlast til þess að drengurinn, sem nú er einmitt kominn á 14. árið, læri á almenningssamgöngur borgarinnar og taki ábyrgð á því sjálfur að koma sér á sínar fjórar þrekæfingar í viku hverri, á þessum þremur stöðum sem tilvonandi skíðakappar í Káerr koma saman til þess háttar á meðan enginn er snjárinn.
Já, ég veit það er til mikils mælst og þung er raunin en að vandlega íhuguðu máli er ég viss um að það reynist góð upphitun í þrekið að tölta út á stoppistöð, færni á þessu sviði muni færa drengnum heim sanninn um að honum er treyst og ekki sé komið fram við hann eins og ,,eitthvert smábarn" (ákaflega oft um beðið af hans hálfu) og aukin heldur muni það efla sjálfstraust hans til mikilla muna að vera sjálfbjarga að þessu leytinu.
Við sem höfum bílpróf getum á meðan gert aðra nauðsynlega hluti, eins og til dæmis að vinna fyrir skíðanámskeiðsgjaldinu, skíðaúlpunni, æfingabuxunum, innihlaupaskónum, útihlaupaskónum, gerviefnisæfingabolunum (3.000 kr. stk!), skíðaklossunum etc.
Og svo græðir nú umhverfið líka og það ekki lítið; hugsið ykkur bara hvað það væri hægt að reisa margar álverksmiðjur og olíuhreinsistöðvar um allar trissur án þess að ganga á Kyoto-kvótann ef foreldrar hættu nú allir sem einn að skutla börnunum sínum út og suður og kenndu þeim að nota http://www.straeto.is/?!
P.S. Úff, ég kvíði fyrir morgundeginum... únglíngaforeldrar allra landa, sendið mér styrk og ljós!
1 ummæli:
Það verður spennandi að sjá tendgasoninn næst!Gangi ykkur allt í haginn!!! Mamma.
Skrifa ummæli