Líf í árvekni: Kempa í eitt ár

þriðjudagur, 9. október 2007

Kempa í eitt ár

Þennan dag fyrir ári síðan hringdi síminn í íbúðinni okkar í Edinborg og á línunni var læknir á taugalækningadeild Western General Hospital, en þar hafði Minn heittelskaði verið í tölvusneiðmyndatöku af heila fáum dögum áður, vegna floga sem höfðu hrjáð hann um þó nokkurt skeið.

Við vorum í óða önn að pakka niður í töskurnar fyrir Íslandsferð næsta dag og áttum ekki auðveldlega heimangengt, gat læknirinn sagt frá því í símann sem hefði komið í ljós í myndatökunni? Nei, eiginlega ekki, best væri að við kæmum bara núna strax upp á sjúkrahús. Við vorum hljóð á leiðinni í leigubílnum.
Dr. Grant, sá sem hafði pantað myndatökuna og skrifað upp á flogalyfin var fjarri þennan dag, og í hans stað ræddi við okkur asísk-ættaður læknir, dr. Al-Sahai. Við sáum hann reyndar aldrei eftir þetta eina viðtal.
Hann talaði fyrst um að á myndinni hefði sést það sem hann kallaði swelling; bólga. Hún liti samt út fyrir að vera benign; góðkynja. Staðsett fyrir ofan vinstra eyrað. Í næstu setningu notaði hann orðið tumour; æxli. Fleira yrði ekki ráðið af þessarri myndatöku; segulómun væri næst á dagskrá, strax og við værum komin til baka frá Íslandi.
Við fórum heim og grunaði að lífið yrði aldrei aftur samt; það reyndist rétt vera.
Segulómunin rúmum mánuði síðar sýndi að æxlið sat djúpt við heilastofninn, stórt um sig, og nauðsynlegt að grípa til skurðaðgerðar sem fyrst. Það var ekki fyrr en eftir þá aðgerð í janúar sem í ljós kom að hluti æxlisins hafði tekið illkynja breytingum og geislameðferð var nauðsynleg. Og orðið krabbamein kom upp í hugann í fyrsta sinn.
Við höfum forðast að nota þetta orð í netskrifunum. Af einhverjum ástæðum tíðkast oftar að tala um heilaæxli en heilakrabbamein, bæði á íslensku og öðrum málum. Kannski vegna þess að krabbameinsæxli í heila sáir sér nánast aldrei út fyrir heilann. Teygir ekki anga sína um allan kroppinn. Og er að sumu öðru leyti öðruvísi en önnur æxlismein; hver og einn er einstakur, ekkert heilaæxli er nákvæmlega eins og annað, einkennin eru ólík eftir staðsetningu og engin leið að alhæfa eitt né neitt um gang mála eða meðferða.
Kannski er það líka vegna þess að við erum mörg hver hrædd við orðið, því að fyrir fáeinum áratugum voru lífshorfur þeirra sem fengu krabbamein ekki miklar. En það hefur breyst verulega; til allrar hamingju eiga fjöldamargir nú langa ævidaga fyrir höndum þrátt fyrir slíka greiningu.
Viðhorf fólks eru samt lengi að breytast; orðin móta hugsun okkar líkt og hugsunin orðin.
Ein af mörgum, góðum frænkum Míns heittelskaða starfar í þessum geira heilbrigðiskerfisins og við áttum í fyrravetur bréfaskipti þar sem hún hvatti mig til þess að velta því fyrir mér hvort ég gæti ekki fundið gott orð á íslensku um þá sem hafa greinst með krabbamein - af því að ég væri svo mikill ,,orðhákur" (orðhákur ég!) - og sagði:
,,...af því að þú ert svo mikill orðhákur þá varpa ég fram hér einu þýðingarverkefni sem bráðvantar íslensku fyrir og það er "cancer survivor". Sjúklingasamtökin í hinum enskumælandi heimi hafa beitt sér fyrir að nota þetta orð frekar en krabbameinssjúklingur sem lið í því að breyta ásýnd þessa sjúkdóms sem fyrir löngu er orðið tímabært. Á íslensku hefur verið talað um krabbameinsgreinda sem mér persónulega finnst ekkert skárra.“
Ég spögléraði nokkuð í þessu, stakk fyrst upp á krabbameinslifendur en það var eiginlega ótækt í eintölunni og alls ekki sami sigurvegarastíll yfir því og sörvævernum á engelskunni og saltaði svo málið. Þar til í morgun, þegar Minn vaknaði, bauð góðan daginn og sagði: ,,Ég er eins árs í dag." Þá fannst mér tími til að grufla betur í þessu, hafandi í huga undangengna umræðu um ástkæra, ylhýra málið.
Ég settist með orðabækurnar, íslenskar bæði og enskar, fletti upp í orðabók Háskólans á vefnum, leitaði helst eftir samheitum við hetju, kappa og sigurvegara og tillaga mín er á endanum þessi: Kempa.
Þetta orð er gamalt í málinu og hefur verið notað í tvenns konar merkingu. Annars vegar þeirri sem allir þekkja, þ.e. garpur eða kappi sem stendur sig vel í hvers kyns átökum og hins vegar í sjómannamáli um listann ofan á borðstokki báts. Það síðara hafði ég nú ekki hugmynd um áður en ég lagðist í orðabækurnar en get vel verið sammála því að kempan sitji efst og taki við ágjöfinni.
Orðið kempa hefur verið notað í allslags samtengingum; hér eru nokkrar í boði Orðabókar Háskólans:
Og svo eru líka til ýmsar tegundir af kempum, segir orðabókin: Sjó-, stjórnmála-, stríðs-, forn-, heiðurs- og höfuðkempur, svo að það er ekkert í vegi þess að til séu einnig krabbameinskempur. Eða einfaldlega kempur. Þurfum ekkert að skeyta sjúkdómsheitinu þarna fyrir framan fremur en tilefni er til.
Við gruflið rakst ég á ýmis dæmi um kempuorðanotkun sem ég má til með að skeyta hér inn að gamni, svo sem þessum ljóðlínum eftir Einar H. Kvaran úr kvæði hans Minni Vestur-Íslendinga:
Og er vér leiðum oss í hug
vor ævi hulin rök
þá óskum, því sem eykur dug
og ást og viti og kempuhug,
því gefi megin menning spök
og mannlífs glímutök.
Svo er hér eitt vísuorð eftir Matthías Jochumsson, sem ég veit því miður ekki framhald á:
Úr augum gnístrar kempu-kraftur.
Og staka eftir Guðmund Friðjónsson:
Okkur vantar Íslendinga
eftir fornum sið:
þá, sem hafa kempukrafta,
kjark og stefnumið.
Í Móðarsrímum eru svo þessar línur, mig vantar fyrripartinn:
Lifði so með lukku traustri
ljúft sem hæfði kempu hraustri.
Gaman væri að vita hvað lesendum þykir um þessa tillögu að nýyrði af gamalli rót, svo ég bregði nú fyrir mig fræðimannamáli úr íslenskuþáttum fjölmiðlanna, þ.e. kempa í merkingunni sá eða sú sem hefur greinst með krabbamein.
Því má svo við bæta að í tilefni þess að Minn hefur nú verið slík kempa í eitt ár í dag - og líka af því að við ákváðum að morgni 12. janúar sl. í þann mund sem hann rúllaði inn á skurðstofuna að fara í útlandafrí þegar hann hefði jafnað sig - þá keyptum við okkur áðan fimm daga ferð til Barselónaborgar um miðjan nóvember.
Ó, ég hlakka svo til!
P.S. Sagði frá því um daginn eftir síðustu MRI myndatökuna að væntanlegt væri álit röntgenlæknis á umfangi þess hluta æxlisins sem eftir var eftir skurðaðgerðina og samkvæmt því er staðan svipuð og í júnílok, 3 mán. eftir geislameðferðina, en æxlið ,,hefur allavegana ekkert stækkað, jafnvel aðeins minnkað, en erfitt að setja mál á það."

11 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Líst frábærlega á þetta góða orð!!!'Astarkveðjur Mamma

Nafnlaus sagði...

Mér finnst þetta alveg brilljant orð!
Nú þarf bara að koma því í almenna notkun.
Mæli með því að þú póstir þessu á fjölmiðlavini þína Villa mín.
Ástarkveðja til ykkar
Auður Lilja

Nafnlaus sagði...

Flott orð og velvalið. Vill benda á þennan orðalista sem þú varla veist um?
http://www.hafronska.org/pages/wordlists.php
Bið að heilsa árskappanum.

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Orðið flotta er sem sagt kempa (árskempa þá en ekki árskappi, Gunni!) og það er eins og annað hvort komi athugasemdirnar frá fjölskyldunni eingöngu eða ókunnugum eingöngu.

Skrítið - og ekki gott í þessu tilviki þar sem ég er óskaplega forvitin að komast að því hvort öðrum en mínum allra nánustu finnst orðið "kempa" ganga fyrir "survivor" eða ekki. Þau þora náttlega ekki annað en vera jákvæð... Hvar eruð þið nú, mjólkurfernufasistar Íslands?!

Nafnlaus sagði...

Þetta segir allt sem þarf. Vel til fundið og á vel við þessar kempur sem maður hefur verið að fylgjast með í netheiminum. kv Guðný Sig

Nafnlaus sagði...

Kappi var ágætis orð í mikilli notkun um lok áttunda áratugsins :-).

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa takk fyrir í kvöld. Yndisleg messa og samvera. Hittumst yfir kaffibolla í vikunni berðu Bubba kveðju mína.
Batakveðju og hlýjann hug.
Lóa frænka og 12.spora geek.

Nafnlaus sagði...

Hæ. Gangi ykkur allt í haginn. Bjössi.

Unknown sagði...

Kempa finnst mér flott orð en truflar mig svolítð þar sem oft er talað um kempur til dæmis í handbolta, gömlu kempurnar ( Óli H og þeir hinir gömlu jaxlarnir )
En bráðnauðsynlegt að finna íslenskt orð yfir Canser survivor !

notabene :
Er ekki ættingi eða vinur !

Nafnlaus sagði...

Just a wee hello from scotland.

love to all,

Arnot

Penny sagði...

Viltu selja nýru þína? eða Ert þú að leita að tækifæri til að selja nýru fyrir peninga vegna fjárhagsbrests og þú veist ekki hvað þú átt að gera, hafðu þá samband við okkur í dag og við munum bjóða þér góða upphæð fyrir nýru þína. Ég heiti (læknir Elvis Whyte) er með fræðingafræðingur á sjúkrahúsinu okkar og ég sérhæfði mig í nýrnastarfsemi og við glímum líka við að kaupa og ígræðslu nýrna með framfærslu samsvarandi gjafa. Hafðu samband við tölvupóst: doctorelviswhyte@gmail.com eða whatsapp okkur +2347083629144 fyrir frekari upplýsingar