Líf í árvekni: Alltaf eins innan í sér

föstudagur, 5. október 2007

Alltaf eins innan í sér

Það er rétt svo að ég þori þessu. Ef þessi færsla verður horfin á morgun þá er það vegna þess að aðalpersóna dagsins, Únglíngurinn í skóginum (áður Snúður), sem er 13 ára í dag, hefur ,,óskað eftir því að ákveðin ummælin verði fjarlægð af síðunni" (eins og hann tók til orða um daginn eftir færslu með yfirskriftinni Blessað barnalán). Ég lofaði að birta ekki mynd hér sem ég náði af honum með harðfylgi um daginn og virði það loforð að sjálfsögðu þótt mig blóðlangi til að monta mig af honum (en ég lofaði engu um gamlar myndir...).

En sem sagt, hér læt ég vaða nokkur gömul brot úr Matthíasarbók í tilefni dagsins:
Haust 1999: 5 ára

Eftir að hafa lesið nokkrum sinnum bókina Gettu hve mikið ég elska þig notar Matthías yfirleitt lengdareiningar til að lýsa ást sinni og elskar ástvini sína ,,hærra en geimurinn" ,,upp í tungl og til baka" og það stórkostlegasta: ,,Ég elska þig lengra en endimörk geimsins!"

Matthías biður ekki lengur um hjálp heldur hjálparhönd og segir alltaf þegar hann vantar aðstoð: ,,Geturðu rétt mér hjálparhönd?" Ef hann vantar athygli segir hann einfaldlega: ,,Sko, get ég fengið athygli?!" Og ef hann er óþolinmóður að bíða eftir því að Katrín ljúki máli sínu, þá bætir hann við: ,,Ég fæ aaalldreeiii neina athygli hér, bara Katrín!"

,,Pabbi er með tattó brætt í kjötið á sér!"

,,Húsin lítast út fyrir að vera skökk af því að jörðin snýst alltaf" sagði Matthías 5 ára þegar við ókum framhjá Hallgrímskirkju og Katrín sagði að kirkjuturninn virtist vera skakkur.

,,Óli lokbrá látti drauminn koma úr sjónvarpinu í mig" sagði Matthías eftir að hafa sagt frá því að hann hefði dreymt að við værum búin að setja upp jólatréð. Kvöldið áður var sýnt skreytt jólatré í Íslandi í dag á Stöð 2 hjá jólaóðri fjölskyldu (í október).

Mamma þurfti að skafa snjó af bílnum til að sjá út.
Matthías: ,,Þegar sólin kemur þá gefur hún okkur mjög góða horfingu, því hún lætur snjóinn fara.."

nóv 99 til jan 2000:

Matthías segir að leikskólavinirnir, hann og Valur Páll og Kári ætli í lokastríð í sumar við Aron Gunnar; þeir ætli að berjast en samt bara í þykjustunni, en Aron Gunnar vilji alltaf vera að meiða og lemja og þá geri þeir hann hræddan með því að öskra. En núna (í jan 2000) eru þeir "eiginlega hættir við lokastríðið því allir, allar stelpurnar og allar fóstrurnar og allar mömmurnar og bara allir, vilji ekki að þeir fari í stríð, svo þeir eru bara hættir við.."

7. febrúar 2000

.... í bílnum á leið í leikskólann á mánudagsmorgni:
,,Veistu að það er að koma rauð tunga yfir landið og hún nálgast óðfluga. Þegar hún kemur þá verður heitt og þá er komið sumar!! ..... "

Stuttu síðar, þegar söguhetjan var að horfa á mjög svo grafískan veðurfréttatíma Stöðvar 2 benti hann á ,,rauðu tunguna " og sagði hissa: ,,Þarna er tungan, ætlar hann ekki að tala neitt um hana?! Kannski sér hann hana ekki…" Svo sló hann á ennið á sér og sagði hálfhlæjandi: ,,Já, auðvitað, tungan er ofan í sjónum, en ég hélt fyrst að hún væri sko nebblega uppi í himninum!"

20. febrúar 2000

,,Húsin í Grafarvogi eru kössótt í laginu. Sum húsin eru lang-kössótt í laginu en sum eru feit-kössótt."

5. apríl 2000

Ég var að skrifa fyrir Matta boðskortin í hálfsexafmælið og við vorum að reyna að rifja upp fullt nafn Kára, vinar af leikskólanum. Ég sagði: ,,Ég man að mamma hans heitir Salóme." Þá svaraði sá stutti að bragði: ,,Já, ég veit það en hann heitir sko meðfram pabba sínum!"

Við kortagerðina sagðist mamma vilja skrifa að pakkar væru ekki mjög nauðsynlegir af því að þetta væri bara hálfafmæli og þá skiptu heimsóknir vina mestu, en ekki pakkar. Matti samþykkti það en bætti svo við: Viltu samt ekki skrifa þá bara að pínku pakkar séu soldið nauðsynlegir?
Það var gert.

Í 5 og hálfs árs afmælisveislunni 5. apríl sló Valur Páll fram þessari fleygu setningu eftir að hafa lokið við kökuna sína: ,,Takk fyrir gumsið!" - við mikinn fögnuð félaganna þriggja, sem allir notuðu sama hátt til að tjá þakklæti sitt. Þessi ódauðlegu orð munu fengin að láni frá Tímoni og Púmba.

Eftir veisluna var Matthías að skoða kortið frá Kára vini sínum. Þar stóð Til hamingju með hálf 6- afmælið. Hann skoðaði stafina og sagði hugsi: ,,Á ekki bara að skrifa hálfsexið með því að sleppa þessu sem kemur uppúr sexinu, eða bara ýta því niður? Þá myndi það líta út alveg eins og kanelsnúður!"

apríl 2000

Matthías: Mamma, hvað þýðir samtal?
Mamma: Það þýðir það þegar fólk talar saman - saam....taal, skilurðu, tala saman?
Matthías: Já, ég skil. Alveg eins og Saaam....bíó.

Matthías:,, Ég veit alveg að Biggi afi er rosalega gamall. Veistu hvernig ég veit það? Það er af því að skinnið framan í honum er svo mjúkt þegar ég kem við það."

apríl 2000

Matti var að lýsa mjög spennandi leik á leikskólanum sem var spunninn upp úr Space Jam teiknimyndinni að hluta og allir höfðu geimveruhlutverk, mismunandi á litinn, einn var gula geimveran, annar sú rauða og svo framvegis. Sjálfur var hann ,,dreki sem spúði eitureldi og veistu hvað ég gerði?! Ég spúði eldi beint á Kára svo að hann brann alveg til ösku, allt nema augun og tennurnar!" Og svo skellihló hann....hætti svo að hlæja og sagði alvarlegur: ,,Veistu, ég vildi líka vera brúni hérinn en það var ekki hægt... Svo var Júlía litli guli fuglinn."

páskar í apríl 2000

Á leiðinni úr búðinni eftir páskaeggjainnkaupin vorkenndi Matthías mömmu soldið að fá lítið egg nr. 3 en sjálfur fékk hann nr.4 með legódóti. ,,Það eru bara þrjú nammi í þínu eggi og málmur," sagði hann. Mamma skildi ekki hvað hann gæti átt við og sagði að það væri sko enginn málmur í egginu, heldur súkkulaði. ,,Nei, ég meina ekki málmur, hvað heitir það, já sálmur!" sagði hann þá. Mamma var enn skilningssljó og bað hann að segja þetta hægt. Þá lifnaði yfir honum og hann sló flötum lófa á ennið einsog hans er vandi og sagði: ,,Já ég meina auðvitað ekki sálmur, heldur sál-máttur!"

2001 - 6 ára

Stundum biður Matti mömmu að lesa texta sem vekur forvitni hans undir myndum í Mogganum. Mynd af loftsteini vakti mikinn áhuga hans; af einhverjum ástæðum hafði hann nýlega spurt eftir því hvort nokkur hætta væri á að loftsteinn myndi rekast á jörðina og sprengja hana upp í loft, það væri víst svo mikið af svona loftsteinum út um allt. Fyrsta línan textans hljóðaði svo: ,,Loftsteinninn Eros er talinn rekast á jörðina eftir eina og hálfa milljón ára." Þá brosti minn maður út að eyrum og sagði feginn: ,,Eina og hálfa milljón! Þá verð ég nú löngu dauður hvort sem er!"

Mamma fær oft að heyra að hún sé lang-langbesta mamma í öllum alheiminum en um daginn var söguhetjan í döpru skapi og mamman eitthvað ómöguleg því henni var sagt að hún væri sko ,,lang-langleiðinglegasta mamman í öllum al-al-alheiminum!"

Matthías var að skoða ofan í lítinn trékistil sem Katrín systir á, fullan af gler -og plastperlum til að þræða á band. ,,Rosalega er Katrín rík!" sagði hann við mömmu. ,,Hún á sko bæði gull og græna spóa!" Svo rótaði hann ofan í perluhrúgunni af miklum móð þar til mamma spurði hvort hann væri að leita að einhverju sérstöku. ,,Já, ég er að leita að grænum spóa," svaraði hann að bragði. Lyfti svo upp bleikri perlu, mjög fallegri, og sagði alvarlegur: ,,Þetta er örugglega grænn spói."

október 2001 - 7 ára

Mamma er Katrín hætt að vera lasin?
-Já, hún er orðin hitalaus.
Það er gott, því þá get ég hætt að bögga hana.
-Af hverju segirðu það, þú ættir nú ekkert að vera að bögga hana einmitt þegar hún er lasin?
-Jú, ég verð að gera það því að henni finnst það svo skemmtilegt, og af því að ég elska hana þá verð ég auðvitað að skemmta henni!

desember 2001

Matti: Mamma, þú átt alveg rosalega mikið, þú átt svona silljón!
Mamma: Já ég veit það því að ég á ykkur Katrínu og þið eruð svo dýrmæt.
Matti: Já, þú er rosaleg rík!
Mamma: Ég á eiginlega alveg gúgúplex mikið.
Matti: Nei, það er nú ekki svo mikið sem þú átt, því það er stærsta tala í heimi. Þú átt kannski svona silljón sinnum silljón - en ekki gúgúplex samt.

Febrúar 2002 - 7 og næstum hálfs

,,Mamma, finnst þér ekki skrítið að það er alveg sama þótt maður eigi afmæli og verði eldri og stækki, en samt er maður bara alltaf eins innan í sér og alveg sá sami?"

5 ummæli:

Helga Sigurrós Bergsdóttir sagði...

Hálfgömul frænka sem er alltaf eins innaní sér óskar "Únglinginum í skóginu" til hamingjum með áfangann, ...tán!

Dýrfirðingurinn á Króknum

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með afmælið Matti okkar! amma og afi Þingeyri.
'Otrúlega skemmtilegt barn og mikill spekingur sem þú átt Villa mín!!!
'astarkveðjur frá okkur!

Katrín sagði...

þessi krakki er botnlaus brunnur af speki! ég mun berjast fyrir því að Matthíasarbók verði gefin út innan skamms.. þó ég spái því að hún sé nú ekki alveg tilbúin enn ;)

Kristín Bjarnadóttir sagði...

get ekki orðabundist .. það er sjaldan sem ég hlæ upphátt þegar ég hef engan á staðnum til að deila aðhlátursefninu með ... en við að lesa þessa perluröð eina nóttina hló ég með sjálfri mér(og þér!) svo húsið hristist,
svo: takk kærlega fyrir mig
kveðja/k

Nafnlaus sagði...

Hahaha þekki þig ekkert en rakst inn á síðuna þína. Bjargaðir strembnum deginum og ég hló og hló! Takk fyrir þetta :-)