Líf í árvekni: Hægan

laugardagur, 22. september 2007

Hægan

Það er eitthvað svo notalegt við haustið, hvað svo sem rignir og blæs. Inn á milli styttir upp svo að sér í bláan himin á milli skýja á hraðferð og hægt að horfa upp í reynitrén og dást að þrútnum berjunum og laufinu í síbreytilegri litasynfóníu. Á kvöldin er rökkvað inni sem úti og logi á litlu ilmkerti í regnblautum glugga ljær heimilinu svo rómantískt og ljóðrænt yfirbragð að konu finnst hún einsog persóna í þriggja binda verki eftir sænska skáldkonu frá fyrri hluta síðustu aldar.
Árstíðaskipti eru svo áhugaverð; svo margt að sjá ef augun gefa sér tíma til að taka eftir. Ég lærði að horfa í kringum mig af börnunum mínum þegar við löbbuðum saman í leikskólann á níunda áratugnum, og þeim tíunda.... já og reyndar líka núna, á fyrsta tug 21. aldarinnar (ég hef eiginlega verið að labba með barn á leikskóla í ansi mörg ár þegar ég fer að spá í það...) því þau hafa alltaf verið svo dugleg að benda mér á það sem blasir við frá þeirra sjónarhorni; nýsprottna fífla og víðikettlingana á limgerðunum á vorin, ánamaðka í drullupollunum og á stéttinni þegar það hefur rignt, skrjáfandi laufblöð í ökklaháum hrúgum í vetrarbyrjun. Já, og veggjakrotið í Þingholtunum.
,,Þubbulingar!" segir Skottan í hneykslunartón sem hún hefur vísast lært af mömmu sinni. ,,Má ekki giva á húþin!"
Annars átti þessi póstur ekki að vera um haustið, heldur um sældarlífshreyfinguna; cittaslow, slow-food (sem er andstæðan við skyndibita) og hæglætislífið allt saman sem við hjónakornin höfum verið að tileinka okkur smám saman í gegnum tíðina. En þetta fer vel saman, haustið og hæglætið. Það sljákkar í okkur mörgum þegar rökkrið færist yfir og sölnað laufið minnir okkur á þennan eilífðarhring náttúrunnar sem hefur alltaf sinn gang hvað svo sem líður okkar gönuhlaupum; allt sem lifir mun deyja og síðan lifna á ný og svona áfram endalaust.

Besta bókin sem ég hef lesið sem sameinar áhuga okkar á sældarlífi í hægum stíl og eftirtekt í núinu (sjá undirtexta titils efst á síðunni) er Slowing Down to the Speed of Life eftir Richard Carlson og Joseph Bailey (Ríkharð þessi er frægur fyrir síðari bækur sínar um að smámál ættu ekki að ergja okkur). Minn er að lesa sitt eintak í annað eða þriðja sinnið núna; ég ætla að taka mitt upp til upprifjunar þegar ég er búin að fletta í gegnum glænýja bók á náttborðinu sem heitir Cognitive Behaviourial Therapy for Dummies ;o) (skrifa kannski meira um það þegar ég kemst í þannig ham).

Nokkru eftir að ég greindist með vefjagigt fyrir rúmum áratug þá ávísaði minn góði læknir mér á fyrrnefnda bók eftir Carlson og Bailey um mikilvægi þess ,,að hægja á lífinu niður á hraða lífsins," ásamt reyndar með pillum til að tryggja mér djúpsvefn í stað stöðugra draumfara á nóttunni.

Hvort tveggja hefur hjálpað mér verulega til að lifa með þessu heilkenni og mér finnst að fleiri mættu taka það sér til fyrirmyndar að ávísa fólki á góðar bækur nú á þessum upplýstu tímum, þegar flestir eru að átta sig á því að á líkami og sál eru sífellt að verka hvort á annað. Það sem er hollt sálinni er líka gott fyrir kroppinn og öfugt.

Eitt af því sem ,,sældarbæir" (cittaslow-bæir) hlú sérstaklega að er rekstur verslana sem eru ekki hluti af stórum, ópersónulegum keðjum í eigu andlitslausra fjárfesta og peningamógúla, og byggja framar öðru á góðri þjónustu, eru í hjarta bæjarins, selja gjarnan vandaðan varning af heimaslóðum og leggja áherslu á vistvæn gildi og vinsemd í garð umhverfisins.
Þetta finnst oss Þinghyltingunum ákaflega góð pólitík.

Það er samt dálítið vandlifað á landinu bláa eftir þessum gildum, nú þegar allar bókabúðir eru í eigu sömu keðjunnar (nema Iða í Lækjargötu og Bókabúð Steinars við Bergstaðastræti), nánast engir kaupmenn eða kaupkonur á horninu lengur (veit ekki hvort Þingholt við Grundarstíg er síðasta hverfisverslunin?), öll apótekin komin undir tvo keðjuhatta (veit einhver um fleiri sjálfstæð apótek fyrir utan Lyfjaver við Suðurlandsbraut 22?) og vörur til viðhalds á heimilinu bara seldar í Býkósmiðjunum tveimur og húsbúnaðurinn einhverstaðar í Garðabæjarmóum hjá Íkearisanum (margt gott og gagnlegt til hjá Þorsteini Bergmann á Skólavörðustígnum og fljótgert að finna það sem vantar). Klæðin og skæðin flestöll framleidd í Kína og seld í tippalöguðum verslunarmollum í jaðri borgarinnar ( heittelskaði er hrifnastur af Guðsteini á Laugaveginum en við skulum ekki tala um það opinberlega).

Og allt svona dáldið undirmannað hjá þeim stóru, svo ekki sé meira sagt. Enda skiptir þá engu hvort kúnninn er glaður eða ekki; hvert gæti fólk sosum farið ef það er ekki ánægt með þjónustuna?!
Til allrar hamingju höfum við þó Brynju á Laugaveginum ennþá; Minn heittelskaði hefur útnefnt hana sem sína uppáhaldsbúð, enda hefur hann verið þar fastagestur að undanförnu og finnur alltaf eitthvað til að dásama í hverri ferð.
Ekki er þar aðeins einstaklega góð þjónusta (starfsmennirnir vita hvað er til sölu, hvar það er geymt og til hvers það er notað!), bendir Minn á, heldur hefur Brynja ekki seilst inn á svið sælgætisverslunar, eins og báðar býkósmiðjurnar hafa gert, sem og Íkeaferlíkið, lyfjakeðjurnar báðar (sem eru langt komnar með að drepa af sér alla samkeppni með skammarlegum aðferðum) og vitanlega allar matvöruverslanir landsins. Hvar sem stigið er inn um búðardyr blasir við í hillumetravís þessi líka gomma af sælgæti. Furðulegt alveg, mætti ætla að við kæmumst ekki í gegnum daginn nema innbyrða kílógramm af súkkulaði og sykri og karamellum. Meira að segja lífrænt ræktuðu hollustubúðirnar bjóða ,,heilsunammi"- gotterí, sem á að vera óskaplega heilsusamlegt af því að sykurinn dylst undir heitum einsog frúktósi, sýróp, hunang eða hrásykur.
Læt staðar numið, þetta er náttlega enn ein langlokan því ég hef verið að skrifa hér inn af og til á milli þess sem hin ýmsu laugardagsverk hafa verið innt af hendi (aðallega hef ég samt verið að leika mér með trélestina með Skottunni og litla frænda). Myndirnar efst og hér neðst eru utan af Nesi; teknar þegar Minn fór að viðra Sína um daginn í fjörunni við Gróttu. Myndskreytingar þess á milli héðan úr hverfinu; sá eða sú sem þekkir götuna sem þarna sést fær kaffi latte og kleinu með í verðlaun...

8 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábærar hugleiðingar að venju!Vildi að það væru komnin til ykkar smáræði af uppskeru haustins!'Astarkveðjur mamma.

Nafnlaus sagði...

Takk fyrir pistil dagsins, þetta er orðið sannkallað heilsublogg, fullt af nærandi hugleiðingum fyrir andann.
Mér finnst haustið besta árstíðin rólegt og notalegt. Gott að sitja við kertaljós og gott kaffi í bolla, með prjónana eða góða bók við höndina.
Kveðja
Dedda

Nafnlaus sagði...

Rangá - litla búðin inni í Sundum lifði af Miklagarð og Bónus..og lifir enn að því er ég best veit.
-
Já - ef ró og friður er ekki gott fyrir sálina þá veit ég ekki hvað.
Kveðja,
IÞÞ

Nafnlaus sagði...

haha ég þekki götuna. Þetta er á Bjarnarstíg í 101. Ég bjó þarna rétt f. neðan á Njálsgötu...í gamla daga.

Ég verð því miður að afþakka boðið með kaffið því ég bý erlendis hahahhh ;)

kv. Eva ókunnuga

Katrín sagði...

Heyrðu mamma, sammála þessum hugleiðingum... en jafnvel þó að einokunarmarkaðurinn sé ekki beint af hinu góða, þá kemur það sér vel a.m.k. fyrir MIG að Penninn ehf. skuli hafa teygt arma sína svona langt... ;)

Knús,
Su uppkomna

Nafnlaus sagði...

Gott gengi á morgun Björgvin ! 'Astarkveðjur tengdamútta!

Nafnlaus sagði...

Gaman að lesa þessar hugleiðingar eins og aðrar sem þú lætur frá þér fara.
Nú er víst að bresta á MRI-skoðun og viðtal hjá lækni. Vona að allt gangi vel hjá ykkur!
Bestu kveðjur,
Hrefna

Nafnlaus sagði...

Hi guys, Just stopped by your blog. loved the photos. Thinking of you all,Arnot