Þennan dag fyrir 42 árum fæddist hjónunum Janet og Martin Sheen sonurinn Carlos Irwin/Charlie vestur í Nýju Jórvík í Amríkuhreppi. Hann var þriðji sonur þeirra hjóna á fjórum árum; Martin var 25 ára þegar drengurinn fæddist, Janet 21 árs. Carlos litli Irwin óx úr grasi í Helgaskógi við leikaraskap og hefur meðal annars unnið sér það til frægðar að vera næstefstur á listanum yfir Lifandi goðsagnir ástalífsins samkvæmt kjöri karlablaðsins Maxim, en þar kemur fram að hann hafi látið vel að 5000 konum það sem af er ævi.
Sama dag fæddi 24 ára gömul kona á sjúkraskýlinu vestur í Þingeyrarhreppi við Dýrafjörð sitt fimmta barn, telpukorn í þetta sinnið en fyrir átti hún fjóra drengi, þann elsta á sjöunda árinu.
Sá næstelsti var að verða fimm ára, þriðji rétt orðinn þriggja ára og fjórði tæpra tveggja. Hún var snögg að þessu enda í ágætri æfingu; fæðingin tók um 40 mínútur og ljósan komst ekki einu sinni fyrir fjörð til að vera viðstödd, svo að læknirinn mátti sjá um hina fæðandi konu á eigin spýtur. Faðir þessa fríða hóps var að veiða silfur hafsins fyrir austan þegar þetta var og barði dótturina ekki augum fyrr en þremur vikum síðar, í nokkurra daga feðraorlofi af sjónum. (Að því loknu fór hann aftur austur og kom næst heim í vertíðarlok viku fyrir jól.)
Hann kom við núna áðan og óskaði mér til hamingju með daginn um leið og hann rétti mér tvo spriklandi silunga í afmælisgjöf, annar stútfullur af hrognum. Svo var hann farinn að spila vist við gamla fólkið í húsinu hjá Nínu og Venna.
9 ummæli:
Innilega til hamingju með daginn kæra systir!!
Frábær pistill að vanda.
Þú skrifar allt svo vel! Eins gott að pistlarnir séu almennilega langir, mann langar ekkert að hætta að lesa :o)
Elska þig endalaust mikið og njóttu dagsins í botn.
Þín systir
Auður Lilja
Til hamingju með daginn Villa mín!Þér bregst ekki bogalistinn frekar en fyrri daginn!!!'Astarkveðjur mamma
Til hamingju með daginn, vinkona! Vona að þú njótir vel.
Til hamingu með daginn Villa mín. Þú ert betri en best og mikið er ég þakklát fyrir vináttu okkar.
Þva
M
Til hamingju með daginn nafna mín. Við þekkjumst ekki neitt, en eigum tvennt sameiginlegt; að heita Vilborg og að eiga afmæli í september.
Ég hef unun af því að lesa bloggið þitt eins og svo margir aðrir, einnig er ég mikill aðdáandi bókanna þinna. Það er alveg sama um hvað þú skrifar, þú gerir það alltaf vel og skemmtilega. Ég er stolt af því að bera sama nafn og þú mín kæra.
Annars óska ég þér og þínum alls hins besta í öllu því sem þið þurfið að taka ykkur á hendur í framtíðinni. Hef svo sannarlega trú á því að saman munuð þið sigra drekann.
Kær kveðja, Villa
Til hamingju með daginn mín kæra.
Dedda
Til hamingju með daginn, Villa,
og kærar kveðjur frá okkur öllum í Finnaskógi. Nú er Dísa skvísa nýfarin aftur út, stoppar eitthvað við Faxaflóann. En ég er reyndar á leiðinni út til Íslands líka, var boðinn í bókmenntahátið í Reykjavík sem erlendur höfundur, hverning sem á því stendur. Sjáumst kannski þar? og enn: til hamingju, og óskum þér margra náðarríkra ára.
Til hamingju með afmælið og takk fyrir fjölskylduferðina til Viðeyjar í gær - den var rigtig dejlig.
Til hamingju með daginn :)
Alltaf jafn gaman að lesa allt eftir þig.
Skrifa ummæli