Fékk það ágæta ráð hjá vinkonu sem hefur átt svona Únglíng í skóginum í þrjú ár sirka að það hjálpaði voða mikið að líta á fyrirbærið sem einu sinni var litla krúttið mitt sem marsbúa, sem er kominn til dvalar í svona þrjú, fjögur ár. Eða fimm.* En hafa samt skilning á því að stöku sinnum skýtur litla krúttið upp kollinum og þarf gamaldags knús en verður svo marsbúi jafnskjótt aftur.
Svona marsbúar tikka ekki eins og við hin og ekki til neins að beita á þá jarðnesku og gamaldags skynsemistali, þeir þrífast best á þrasi þar sem engar reglur gilda og þegar út í rökræðuhorn er komið er viðkvæðið einfaldlega ,,Énennissiggi!" Hvur á svar við slíkri orðfimi?!
Á þessarri tæpu viku síðan sást til mín hér síðast hef ég komist í gegnum einar (telja, telja) þrjár, nei, fjórar orrahríðir í mínu nýja hlutverki og er satt best að segja dáldið dösuð eftir. En nú er þó eitt og annað komið á hreint okkar mæðginanna í milli hvað sem öðru líður, húsreglurnar niðurskrifaðar og undirritaðar með umbunum og viðurlögum, og þótt ég hafi ekki nokkra einustu æfingu í sambúð með marsbúa (skrítið hvað við fyrrverandi heimasætan komumst klakklaust í gegnum þetta árabil) þá er ég ekki frá því að ég hafi barasta sæmilega gott úthald þegar kemur að því sem mér þykir skipta máli. (Mun betra úthald en Únglíngurinn í skóginum bjóst við að minnsta kosti, hehehe!)
Því þótt ég hafi aldrei nennt að vera langrækin og elskað friðinn ofar öllu öðru, jafnvel verið svo fljót að fyrirgefa (hér á árunum áður a.m.k.) að það varð sjálfri mér til vandræða, þá hefur mér lærst að það er best að hafa markalínurnar hreinar, beinar og auðskildar, jafnvel þótt það þýði (meiri en venjulega) pirring og læti. Friðurinn má ekki kosta of mikið.
En svo er líka ágætt að velja sjálf eigin orrustur. Óþarfi að ergja sig á smámunum, spara púðrið í það sem er mikilvægara en annað.
Bókin sem ég er að þýða (og mun fást í öllum betri bókabúðum fljótlega eftir áramótin) er stöðugt að miðla mér alls konar vísdómi í listinni að lifa og þar er ágæt ábending sem ég ætla nú að nýta mér af endurnýjuðum krafti í samskiptum við hvern þann sem sýnir áhuga á að ybba við mig gogg, marsbúa eða aðra. Þar er samskiptum við fólk sem þrífst best á því að skaprauna öðrum líkt við reiptog.
Sá sem ögrar heldur í reipi og rykkir í af krafti; við höldum í hinn endann og rykkjumst til, togum síðan ósjálfrátt á móti og reynum að draga andstæðinginn yfir til okkar. Hann rykkir aftur í sinn enda og svona áfram. Kúnstin mikla er að sleppa takinu á reipinu; hver segir að við þurfum að taka á móti?
Í lokin að allt öðru en þó eilíft undirliggjandi hér í varurðarlífinu, nebblega heilsufarsmálunum míns heittelskaða. Við höfum nú nýlega hitt hérlendan krabbameinslækni að máli sem mun fylgja mínum eftir og afhent honum ,,Bókina um Björgvin" (læknabréf og skýrslur) ásamt með geisladiskum með myndefninu öllu sem safnast hefur upp frá því að heilaæxlið greindist þann 9. október 2006.
Sérfræðingur þessi er að ég held sá eini sem hefur sérmenntað sig í þess háttar hérlendis og reyndist til allrar lukku ákaflega viðræðugóður og viðkunnanlegur í alla staði. Næsta MRI-myndataka (segulómun) af heilabúinu prinsins hugrakka fer fram 26. september og niðurstöðurnar svo kunngjörðar daginn eftir en þá eru liðnir þrír mánuðir frá síðustu myndatöku úti í Edinborg.
Vel má þá vera að eitthvað hafi drekaskömmin skroppið saman þótt það sé svo sem ekkert víst, þar eð geislameðferðin virkar fyrst og fremst á langt gengnar (3.-4. gráðu) æxlisfrumur í örri fjölgun en ágætar líkur eru á að sá hluti æxlisins sem eftir er séu 2. gráðu frumur, sem fjölga sér hægar.
Botna á mynd sem títtnefndur Únglíngur í skóginum smellti af okkur á Dýrafjarðardögunum okkar fyrir stuttu - ekki frá því að með okkur sé þrátt fyrir aðeins árs hjónaband þegar kominn nokkur hjónasvipur ;o)
*Og ef ég er mjög óheppin munu marsbúatímabilin ná saman hjá barni tvö og þrjú, þannig að ég verð komin langt inn á sextugsaldurinn þegar ósköpunum linnir! Jæja, mér var nær...
5 ummæli:
Rak augun í tæplega vikugamalt loforð um "bót og betrun" en eins og þið sjáið er ekkert að marka mín heit. Þakka fyrir alla hvatningu og falleg orð í minn ritgarð í undangengnum kommentum og held vitanlega áfram uppteknum langlokuhætti ;)
Stórgott að fá svona langa og góða pistla! Gangi ykkur vel í sambúðinni með Marsbúanum!!!
Góðar myndir af ykkur við lesturinn. Mamma
Hæhæ.
Upp úr hádegi á fimmtudag leggjum við hjónin land undir fót (bíldekk) og brunum í borgina. Gaman væri að hitta ykkur, verðum í sambandi.
Kvðeja
Dedda
Skilst á Fréttablaðinu að þú eigir afmæli í dag :) óska þér hér með til hamingju með daginn og mínar bestu kveðjur til eiginmannsins. Það er óneitanlega þó nokkur hjónasvipur með ykkur. Hlakka mikið til að lesa bókina þegar hún kemur út. Er einmitt ákaflega dugleg að sinna þessum málum þessa dagana. Ekki veitir af :S að læra að setja mörkin.
Hi Villa,
Thank you for the pictures and you have a very interesting blog page (nice to see the family).
Alexandra
Skrifa ummæli