Líf í árvekni: Jólin í júlí

fimmtudagur, 5. júlí 2007

Jólin í júlí

Við heiðurshjónin (nú er ég farin að byrja eins og Flosi!) höfum nokkur undanfarin fimmtudagssíðdegi heimsótt Möggu í Básum saman og tekið þar þátt í námskeiði í slökun og sjónsköpun/birtingu (þetta er það sem orðabókin segir orðið visualization merkja). Umfjöllunarefnið í síðustu viku var hið sama og titill þessarar dagbókarsíðu, sem sé mindful living eða líf í aðgát/varurð/djúpri skynjun. Slíkt líf snýst um að lifa af athygli og fullri meðvitund á líðandi stundu - sem sé ekki í fortíðinni sem ekki verður breytt né heldur framtíðinni, sem enn síður er hægt að eiga við.

Virðist einfalt en er hægara sagt en gert. Hún Sionead, leiðbeinandinn okkar, vitnaði í rannsókn sem gerð var á því hversu löngum tíma við verjum að meðaltali í nútíðinni, þ.e. því sem við erum að fást við þá stundina og hugurinn rápar ekki út og suður, fram í tímann og aftur til fortíðar á meðan. Niðurstaðan var heilar þrjár mínútur! Hinar fimmtíuogsjö erum við að spá í það sem við eða einhverjir aðrir höfum þegar gert eða eigum ógert og gætum kannski gert eða ekki og hvað ættum við að hafa í matinn í kvöld og afhverju sagði þessi eða hinn þetta eða hitt og hann hefði átt að gera eitthvað annað og ég líka og svona áfram endalaust... mest allan tímann sem sagt.

Heimaverkefnið - og nú er ég alveg að nálgast útskýringu á fyrirsögninni hér að ofan - var að fylgjast með okkar eigin hugsunum og reyna að halda okkur í núinu, vera með hugann við það sem við erum að gera hverju sinni, hvort sem það eru húsverkin sem okkur hættir til að leiðast hvað mest og nota til að vera einstaklega annars hugar (það má t.d. strauja í varurð, þá hugsar kona bara um hvað það er fallegt að sjá krumpurnar sléttast, hvernig áferðin er á efninu, saumarnir liggja í flíkinni, hvernig hitann leggur upp af járninu etc.) eða smjöttum á mat og erum þá ekki bara að losna við hungurtilfinninguna heldur tökum eftir því hvernig maturinn lítur út, áferð mismunandi hráefna, lit, lykt, bragði, eftirbragði - og hugsum kannski á meðan um alla þá sem hafa lagt hönd á plóg til þess að þessi réttur mætti enda oní maga vorum.

Svo kona taki til að mynda hrísgrjón, sem eru ræktuð af bændum í Kína, flutt af öðrum í verksmiðjur til pökkunar í umbúðir (sem eru framleiddar af enn öðrum úr trjám sem hafa vaxið á ....) , þaðan til hafnar til útskipunar, einhverjir hafa komið þeim ofan í skipslest, upp úr henni aftur í öðru landi, flutt hana í heildsölu og þaðan í búð og upp í hillu í Kaupfélaginu og vísast eru hlekkirnir enn fleiri. En þetta var útúrdúr, þið fyrirgefið málæðið en málefnið mindfulness er mér einkar hugleikið og hefur verið um langt skeið; hef bara ekki komist til þess að fyrirlesa ykkur um það þar til nú.

Ég vann heimaverkefnið vitanlega af skyldurækni og samviskusemi og stóð sjálfa mig hvað eftir annað að því að hugsa til þess hvað það yrði gaman á fimmtudaginn 5. júlí þegar allir þessir kassar sem ég hef verið að raða ofan í undanfarnar vikur (89 stk. í fjórum stærðum frá http://www.mad4boxes.com/) yrðu komnir í flutningabílinn til Immingham. Hugurinn sem sagt í framtíðinni (sem varð að Núi kl. 10 í morgun) en ekki núinu.

Svo ég tók mig taki og einbeitti mér að því að hafa hugann við að vefja bóluplasti (fylgir með í kassasettinu frá mad4boxes) utan um matarstellið okkar og hugsa ekki um annað á meðan. Vafði, klippti og límdi af alúð og dáðist að þessari makalausu uppfinningu sem bóluplast er, velti því fyrir mér hverjum skyldi hafa dottið fyrstum í hug að setja loftbólur inn í plast (og hljóp á eftir Skottunni og náði af henni plastlengjum því hún elskar eins og eldri systir hennar að sprengja bólurnar!) og eftir skamma stund var ég farin að hafa gaman af því að sjá bolla og diska hverfa oní kassann, vel varin fyrir hugsanlegum áföllum á leiðinni yfir hafið. Það rifjaðist upp fyrir mér gleðin við að pakka inn jólagjöfum, ljúf eftirvænting smaug um æðarnar og ég hafði á orði við minn að það væri bara eins og jólin væru að koma.

Og í morgun komu sem sagt ,,jólin í júlí" því á innan við klukkutíma voru burðarmennirnir og Arnar vinur og nágranni (og maðurinn hennar Möggu Höskulds frá Þingeyri) búnir að rífa þessa 89 kassa, ásamt skrifborði, skrifborðsstólum, rimlarúmi og nýja víðsjárvarpinu okkar út í flutningabílinn. Óvæntur ,,jólabónus" var veittur af aðvífandi stöðumælaverði, eftir lítils háttar jaml reyndar. Hann vildi sem sé í fyrstu að við borguðum 30 punda sekt fyrir flutningabíl og önnur 30 pund fyrir tengivagn á gulri línu - af því að við höfðum verið þeir kjánar að vita ekki að til að geta flutt frá heimili sem er við götu sem er með gula línu í 2 km. vegalengd þarf að hringja með góðum fyrirvara í einhvern hjá kánsilinu og fá undanþágu frá sektum - en gaf okkur svo þessi 60 pund eftir fyrir málaleitan bílstjórans sem átti orð við hann í einrúmi, eftir að ég hafði stormað inn í hús aftur grimm á svip, með Skottuna skælandi á handleggnum, með þeim orðum að úr því að ég væri soddan heimskur úttlendingur að hafa ekki fengið guðlega vitrun um þessar regúlasjónir þeirra Skota um gular línur og búferlaflutninga þá skyldi hann bara skrifa sektina því ég yrði að flytja núna og mætti ekki vera að þessu þjarki með menn á tímakaupi við kassaburð (bætti við í huganum að hann gæti sent hana á Hallveigarstíg 6a, ;o) ).

Skammaðist mín náttlega ögn fyrir hrokafullt attitjúdið þegar þessi skyldurækni maður, sem var bara í vinnunni sinni, lofaði bílstjóranum að bíllinn mætti vera þarna í hálftíma en tengivagninn eins lengi og með þyrfti - og lét svo ekki sjá sig meira þann daginn þótt flutningabíllinn hefði verið á gulu línunni til verkloka sem var 20 mínútum lengur en lofað var. Hef ekki fengið jólabónus síðan ég hætti að vinna hjá öðrum árið 2000 en fékk þarna sem sagt heil 60 pund í júlíjólabónus.

Herbergið sem er á efstu myndinni nokkuð svo stútfullt með kössum lítur þannig út núna - og hvað skyldi nú vera í þessum háa kassa sem var það eina sem gleymdist og eitthvað grænt upp úr...? (Ég leit inní öll herbergi nema þetta áður en bíllinn fór). Jú jú, nefnilega... JÓLATRÉÐ OKKAR!

Gleðileg júlíjól, elsku vinir - ég er farin að kaupa (mér) gjafir á Prinsastræti!

7 ummæli:

mamma sagði...

Þvílíkur dugnaður! Hvað með jólatréð! ;-)Frábær lesning!!!
Hlökkum til að fá ykkur heim, þó að Edinborg sé dásamleg og gott að vera þar og koma!
Loksins kom ein rigningarskúr í gær velþegin eftir þurrk í allan Júní hér!'AStarkveðjur Mamma

Auður Lilja sagði...

Yndisleg lesning kæra systir,
er búin að lesa upp úr þessu fyrir vinnufélagana sem giskuðu á að mínúturnar í nútíðinni væru 30 af 60 en göptu þegar að ég sagði þeim sannleikann samkv. þessari rannsókn sem þú vitnar í.
Allir ættu að lesa þetta :)
Við teljum dagana í heimkomu ykkar!
Ástarkveðja
Auður Lilja

Trína sagði...

úps! hvað ætliði að gera við tréð?
henda því og kaupa alvöru í ár?

McHillary sagði...

Hæ júlíjóla fólk!
Til hamingju með að vera laus við alla óðu kassana. Brósi er alveg rosalega öflugur í kassaburði, það veit þessi hér. Alveg er ég viss um að innihaldið hefur verið nóterað niður með réttum kassanúmerum. Og innilega til hamingju með Trínuna. Hún er ekkert smá glæsileg á útskriftinni að kyssa skólastjórann. Mér fannst hann svo ægilega sætur kall og ekki veldur hann vonbrigðum í pilsinu. Gaman líka að sjá þarna aðeins glitta í hinn kunnuglega James Gillespies skóla. Konu hérna megin hlýnaði aðeins um hjartarætur.... fæ stundum smá örlítinn Edinborgarfiðring..
Hlakka til að sjá ykkur.

Hrefna skásystir sagði...

Til hamingju með þetta allt saman!
Góður punktur þetta með núið og að vera í núinu. Það er eitthvað sem ætti að kenna öllum að einbeita sér að í byrjun skólagöngunnar ;)
Góða heimferð og ég hlakka til að sjá ykkur.
Kær kveðja,
Hrefna

Nafnlaus sagði...

Þetta með núið er snúið, en gáfulegt er það. Ég er langdvölum í fortíðinni og tek svo helgarferiðir inn í framtíðina.
þva
M

Gunni & Co sagði...

Mæli eiddregið með að jólatrénu verði lógað og eins og komið er og svo notað furutré framvegis. Er talsvert fallegra og vistvænna :-) Takk fyrir skrifin - alltaf gaman að lesa. Erum í Faaborg á Fjóni - förum á HP frumsýningu straks eftir miðnætti ég og Lilja.