Líf í árvekni: Um vonina

laugardagur, 30. júní 2007

Um vonina

Netheimavinur okkar og ,,æxlisbróðir,“ hann Þórir í Ameríkuhreppi, fann og færði okkur á bloggsíðunni sinni um daginn einstaklega góðan texta á ensku um vonir þeirra sem veikjast. Ég fletti höfundinum upp á netinu, Angie Cenneno (1952-2002), og fann textann hennar á síðu um sjálfsónæmissjúkdóm sem kallast polychondritis og væntanlega hefur verið hennar banamein, aðeins fimmtugrar að aldri.

Við flettingarnar rakst ég líka á annan góðan texta um vonina, eftir Vaclav Havel, sem meðal annars bendir þar á að von er hreint ekki það sama og bjartsýni - þið kannist við það vísast einhver hversu lýjandi dagskipunin um bjartsýni og jákvæðni getur orðið, þótt hún sé vitanleg gefin í bestu meiningu ;o)

En nóg um það, Havel bíður betri tíma - ég snaraði því sem Angie hafði að segja á milli þess að setja ofan í kassa nr 72 og 73 (rauða Kitchen Aid hrærivélin sem við fengum í brúðkaupsgjöf í fyrrasumar í kassa nr. 73) og tek fram að ávallt tapast eitthvað í þýðingu, tala nú ekki um í miðjum búferlaflutningum, en þið finnið frumtextann hjá Þóri þann 22. júní. Gefum Angie orðið á ástkæra og ylhýra málinu:

,,Veikindi minna okkur á að lífið er bæði brothætt og heilagt. Veikindi kenna okkur að við erum ekki ónæm. Sama á við um þá sem við elskum. Við áttum okkur á því að sú trú okkar að við séum ósæranleg er byggð á blekkingu. Veikindi jafna allt út. Það rennur upp fyrir okkur að lífið og dauðinn eru í rauninni nátengd og það á við hjá öllum. Veikindi bera okkur stórkostleg boð um að taka eftir helgi lífsins. Þau vekja okkur til vitundar um það sem er dýrmætt, um að taka eftir hvunndeginum, um að vera til staðar hér og nú, um að setja líf okkar í rétt samhengi við líf annarra og við alheiminn. Þau kalla á okkur að gangast við stað okkar í óendanleikanum og eilífðinni, að spyrja ,,stóru“ spurninganna og njóta ,,einföldu“ svaranna. Til þess verðum við að finna þjáningunni réttmætan stað, viðhorf sem veitir voninni rúm.

Alvarlegur sjúkdómur er ferðalag, ferðalag í von, á ókunnan áfangastað. Í veikindum er tvískiptingin skýr. Vonin á sér stað milli einkennanna og sjúkdómsgreiningarinnar, milli greiningarinnar og lífshorfanna. Hún er í glímunni á milli vísindanna og samúðarinnar; milli líkama og sálar, milli sársauka og lausnar frá sársauka. Hún er í vandanum við að velja á milli óttans við að vera ein og hungursins eftir einveru.

Vonin er í biðinni – eftir niðurstöðum úr rannsóknum, eftir læknisviðtölum, eftir því að líkaminn grói sára sinna og sálin tendrist á ný. Að vona er að feta línuna á milli stöðugra skoðana og innrása og þess að lýsa því yfir að nú sé nóg komið; ekki meira, ekki núna. Vonin um að lifa af er ekki eina vonin; oft á tíðum er það ekki einu sinni helsta vonin. Við vonumst eftir að verða ekki hömluð. Að vona er að vita að einhver leggur sig fram um að hjálpa, að fjölskyldan er aldrei langt undan, að kerfið ber umhyggju fyrir okkur, að við njótum bestu tækni sem völ er á og þess besta sem býr í manneskjunum. Að vona er að vera sinnt af fólki sem skilur að umhyggjan skiptir máli, óendanlega miklu máli.

Vonin liggur í því að komið sé fram við okkur eins og manneskjur en ekki eins og enn eitt tilfelli af tilteknum sjúkdómi. Að vona er að vita að ekkert er haft að leyndarmáli og að við séum þátttakendur í meðferðarteyminu. Vonin felst í því að vera hvött til þess að gera eins mikið og við getum fyrir okkur sjálf. Vonin felst í því að reyna aftur, að fara gegn líkunum, að vita að verið er að gera allt sem hægt er að gera, að vita að umhyggjan muni halda áfram þegar komið er að mörkum þess sem er í valdi vísindanna.

Að vona er að afneita tölfræðinni, að rétta fram höndina út yfir það hefðbundna, að halda þeim möguleika opnum að vera undantekningin. Að vona er að hlusta á undirmeðvitundina, að eiga drauma í heimi svefnsins og drauma í heimi meðvitundarinnar, að velta því fyrir sér hvort kraftaverkin geti gerst, um að vera heilluð af litlu kraftaverkunum, orðunum sem líkna og lækna, minninu sem leyfir okkur að gleyma. Að vona er að lifa af ástríðu, að taka eftir lífinu, þrá lífið, þoka sér í átt til lífsins, vera fús til þess að halda þétt utan um lífið þrátt fyrir áhættuna. Að vona er að gera sér grein fyrir því að dauðinn er ekki óvinurinn, heldur hitt að lifa aldrei.

Þjáningin gerir okkur auðmjúk. Vonin færir okkur fram á veginn. Við öðlumst skilning á því að við erum meðal margra sem veikjast, meðal margra sem finna til og eru hræddir, eru í þörf og geta ekki útskýrt þá óvenjulegu reynslu sem við höfum lært að treysta á, reynslu sem engin orð ná yfir. Þjáningunni fylgir skilningur; skilningur sem á sér rætur djúpt innra með okkur og mælir fram úr annarri vídd lífsins."

5 ummæli:

Katrín sagði...

fallegur texti, mamma, vel þýddur.

Nafnlaus sagði...

Frábær texti!
Vorum að lenda aftur í Kópavoginum eftir að hafa verið á yndislegu Þingeyri um helgina á Dýrafjarðardögum.
Erum farin að hlakka virkilega til þess að fá ykkur heim og knúsa ykkur!
Bestu kveðjur frá okkur öllum

Nafnlaus sagði...

Þetta er frábær texti og svo ótrúlega sannur.

Bestu kveðjur
Hrefna o co

Nafnlaus sagði...

Glæsileg þýðing!
Snilld!!!!!

kv.Þórir

Nafnlaus sagði...

Thank you Villa, my thoughts are always with you take care and you all stay well and be happy.

Kindest Regards

Lewis