Líf í árvekni: Góð tíðindi

miðvikudagur, 27. júní 2007

Góð tíðindi

Það fór eins og við vonuðumst til; niðurstaðan úr MRI myndatöku dagsins um stöðu mála í kolli prinsins er hin sama og á þessari hér til vinstri. Ástandið er gott - miðað við allt og allt.

Málið er reyndar ekki einfalt; eins og þeir segja læknirarnir þá er prinsinn afar ,,unusual" (ég vissi það nú fyrir) og mikið er ég fegin að við fórum að uppástungu (frá sænskum hjúkrunarfræðingi sem er í sambúð með Íslendingi, á íslenskan mág í Edinborg og við hittum af tilviljun í Maggie´s Centre) um að filma fundinn með dr. Grant taugasérfræðingi, því það stóð vitanlega bunan út úr honum á læknalatínunni - í sirka 40 mínútur.

Myndatakan fór fram kl. hálfeitt og fundurinn hófst upp úr tvö þannig að ekki var búið að greina myndirnar til fullnustu né gera um þær skýrslu, en meginniðurstaðan er sú að æxlið sýnist að mati læknisins ,,pretty stable" eða nokkuð stöðugt og ekki í vexti.

Aukin heldur er gott að vita að á myndinni sást ekki arða af því sem kallast á læknamálinu ,,enhancement" og ég veit ekki hvernig á að þýða (dr.Palli?), en sé slíkt til staðar er það skýr vísbending um illkynja vöxt (þ.e. frumubreytingar af 3.-4. gráðu). Örsmátt slíkt svæði sást á CT myndinni sem var tekin um miðjan maí - í veikindunum sem ollu því að Björgvin fór á spítala í nokkra daga - en það er sem sagt horfið núna!

Þann fyrirvara verður þó að hafa á fögnuðinum að illkynja vöxtur sýnir sig ekki alltaf sem ,,enhancement" og getur verið til staðar í leynum. Á MRI-myndatökunni í nóvember sást til dæmis ekkert ,,enhancement", en þó sýndi vefjarannsóknin að á litlu svæði í æxlinu, sem að stofni til og langmestu leyti er af 2. gráðu, voru samt sem áður frumur sem höfðu þegar tekið 3. gráðu breytingum, og voru að einhveru leyti komnar í átt til 4. gráðu. Hvað sem því líður er taugasérfræðingurinn okkar, hann dr. Grant, mjög bjartsýnn á að það sem eftir sé af æxlinu sé allt saman af 2. gráðu og vöxtur þess þar af leiðandi mjög hægur og lítið ífarandi.

Umfang æxlisins hefur ekki minnkað við geislameðferðina en við vissum reyndar fyrir að þess væri ekki að vænta strax því að heilinn er afar lengi að losa sig við dauðar og skaddaðar frumur. Bólga er hins vegar engin lengur í heilanum sem skiptir mjög miklu því hún veldur slæmum einkennum og krefst sterameðferðar, sem til langs tíma veldur síðan enn öðrum einkennum. Apótekið hjá mínum hefur því skroppið saman til muna og telur nú aðeins höfuðverkjalyfið góða og tvær tegundir flogalyfja, sem fækkar í eina á nokkrum næstu vikum, auk átta gerða af bætiefnum og vítamínum sem styrkja ónæmiskerfið og vinna gegn æxlinu.

Við erum ekki komin með afrit af myndunum ennþá (væri gaman að sýna ykkur eintak því þar sést vel að prinsinn er nú með holu í höfðinu!) en rýndum í þær með doksanum og hann benti okkur þar á enn eitt tilefnið til ánægju; nefnilega að nú sést greinilega að æxlið þrýstir ekki lengur á miðlínu heilans eins og það gerði fyrir skurðaðgerðina.

Fyrir þá sem ekki hafa spöglérað svona djúpt í svonalöguðu eins og við heilafílarnir, þá má segja til skýringar að heilinn skiptist hnífjafnt í tvö hvel um miðbikið og á þversniðsmyndum sést svokölluð miðlína þar sem hvelin mætast. Vaxi æxli yfir miðlínu er mikil hætta á ferðum, en svo er sem sagt alls ekki og þrýstingur af völdum æxlisins þar ekki lengur til staðar, línan er bein og fín, svo er færni heilaskurðlæknisins Ian R. Whittle fyrir að þakka.

Hvenær vöxtur fer af stað aftur getur enginn spáð fyrir um því hver einstaklingur er ólíkur öðrum og engin tvö heilaæxli haga sér nákvæmlega eins, fyrir nú utan það að læknavísindunum hefur ekkert orðið ágengt í að skilja hvað kemur þeim af stað eða hvers vegna þau haga sér á þennan veginn eða hinn. Lyfjameðferð er úrræði sem við eigum til góða þegar þörf krefur og geymist vonandi enn um margra ára sinn. Miðað við ofansagt allt saman höfum við góðar forsendur til að vera bjartsýn, auk þess sem líðanin öll er orðin aldeilis góð eftir endurnærandi ferðalag um Hálöndin & eyjarnar, höfuðverkirnir horfnir, engin flog á árinu og minnið hjá prinsinum að ýmsu leyti betra en yðar einlægri ;o) (þetta síðasttalda segir kannski ekki mikið..)

Hann hefur nú lýst því yfir að hann hyggist tala næst um heilsufar sitt að ári, þann 27. júní 2008, og er í þessum skrifuðum orðum tekinn til við að pakka oní kassa af miklum móð, en hefur fram að þessu hlýtt skýrum fyrirmælum mínum um að láta allt slíkt vera. Verð að hlaupa áður en hann fer að asnast til að bera kassana upp stigann - - - !

P.S. Þau hraustmenni sem þetta lesa, til okkar þekkja og vilja vera hjálpleg, eru beðin að spara krafta sína fram að þeim degi sem við fáum búslóðina úr tollinum, væntanlega í kringum 24. júlí, því prinsinum er eftir sem áður banna að lyfta nokkrum hlut og ég mun fylgja því banni eftir af fyllstu hörku!

16 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Mikið eru þetta góðar fréttir. Frábært!

Nafnlaus sagði...

Hef fylgst með ykkur um tíma. Þetta eru mjög góðar fréttir og ég óska ykkur innilega til hamingju með góða skoðun.
Nú er að passa að prinsinn fari sér ekki að voða og hlýði því sem honum er sagt, mér hefur sýnst stundum á bloggfærslunum að hann sé dálítið varasamur og fari heldur geyst.
En svo er auðvitað hin hliðin þ.e. að lifa lífinu lifandi og eftir sínum óskum.
Við treystum því að þú setjist ofan á prinsinn og fáir einhverja góða vini í flutningana.
með kærri kveðju frá Sólveigu

McHillary sagði...

TIL HAMINGJU með þessi góðu tíðindi!
Mr Prins verður að fara sér hægt í að tætast í kössunum þó vissulega sé hægt að missa stjórn á sér líkt og þeir vita sem reka hið rómaða fyrirtæki madforboxes. Hugsa mikið til ykkar hérna í sólinni og hlakka til að koma í hádegissnarl og spjall á Hallveigarstíginn.
Gvvvöð hvað það verður næs hjá okkur.
Luv, Hilla Miðbæjarsmilla

Nafnlaus sagði...

Yndislegt! Mamma og pabbi!

Nafnlaus sagði...

Jahúúúú!! Innilega til hamingju með þessar niðurstöður. Gangi ykkur vel að pakka.....Þórir myndi mæta í kassaburð ef hann væri ekki hinum megin við hafið...Bestu æxliskveðjur,
Guðrún Erla og Þórir
Ameríkuhreppi

Nafnlaus sagði...

Þessi mynd er frábær og fréttirnar ennþá betri. Ég skal hjálpa til. Bestu kveðjur.

Nafnlaus sagði...

Æðislegt hjá ykkar !!!!!!
hef fylgst með ykkar um tíma sá bloggsíðan hjá ameríkuhrepps fólkið heh heh !
Gangið ykkar bara rósalega vel
Kveðja Dee

Nafnlaus sagði...

frábært!

Nafnlaus sagði...

Villa
i don't know what you are writing - but I hope it is a healthy report!!
love
morag

Nafnlaus sagði...

Dásamlegar hetjur bæði tvö. Frábærar féttir.
Bestu kveðjur.

Fornleifagrafarinn á suðurlandi

Nafnlaus sagði...

Til hamingju með þetta Villa og Björgvin - samgleðst ykkur af heilu hjarta.
Nú hlýtur ákveðnum steini að vera létt af hjarta ykkar, í bili a.m.k. Það er tilfinning sem ég þekki, upplifði fyrir hálfum mánuði þegar við fengum sambærilega fréttir af syninum.
Hin seigfljótandi tilvera þess sem biður eftir góðum fréttum, eða slæmum eftir atvikum, tekur nefnilega ótrúlega á.

Lykke till!!!!
Erna A

Nafnlaus sagði...

Elsku bestu hjón og dætur
Til hamingju með þessi frábæru tíðindi. Hlakka til að hitta ykkur á Hallveigarstígnum.
þva
Matta

Nafnlaus sagði...

Ljómandi fréttir og mætti æxlið sofa í hundrað ár að hætti Þyrnirósar. Erum að fara í frí á sunnudag - heyrumst eða skjáumst!

Nafnlaus sagði...

Þetta eru góð tiðindi. Gangi ykkur vel. Af okkur er það að frétta að ég er að vinna við listahúsinu á fullu (reyndar verið í gluggunum undanfarið) og byrja að vonum að múra skorsteininn á næsta víku. Aldís er að fara suður á helginni til að hitta einhverjar stelpur frá Ísó sem eru þar á námskeið (veit ekki meir) Og við feðgar ætlum á bátnum til eyju kunningjafölskyldunnar okkar. Hulda verður ein í kotinu og fær frið til að gera eitthvað í listinni sinni. Jarðaberin er komin hér, komu reyndar fyrir jónsmessu, sem er óvenju snemma í Finnlandi. Hafiði það sem best.

Nafnlaus sagði...

Hæ hæ og til hamingju með frábærar niðurstöður.
Kíkti bara aðeins á síðuna, var að koma heim úr siglingu á Oxford canal og á eftir að lesa blogg síðustu daga betur.
Hlakka mikið til að hitta ykkur í sumar eða haust.
Kveðja
Dedda

Nafnlaus sagði...

Frábært að heyra þetta; til hamingju!

Hef ekki komist til að skoða síðuna í rúma viku og enginn hefur sagt mér þessar fréttir. Var þó á Þingeyri um helgina ( á Dýrafjarðardögum ) og hitti ættmenni þín Villa hvert af öðru.
Hlakka til að hitta ykkur þegar þið komið heim og vonandi gengur vel að pakka.

Kær kveðja
Hrefna