Líf í árvekni: Monn, tú, fí!

fimmtudagur, 15. mars 2007

Monn, tú, fí!

Ein spurning er ófrávíkjanleg þegar við Frónverjar kynnumst nýjum Skotum. Ja, eiginlega tvær. Sú fyrri er hvort veðrið sé ekki örugglega verra á Íslandi en hér. Hin er hvort við tölum ensku við Skottuna heima fyrir.

Við segjum eins og satt er og svörum fyrri spurningunni þannig að það rigni álíka mikið í báðum löndum, en hitastigið hér sé svona fimm til sjö gráðum hærra en heima á meðalvísu (þeir verða mjög fegnir að heyra það) og þeirri seinni þannig að við tölum aldrei ensku við Skottuna, en hún tali hins vegar stundum við okkur á engilsaxnesku.

Sú stutta hefur verið að bæta ört við sig síðan hún byrjaði í leikskólanum í haust, notar þó vissulega íslenskuna þar líka og stundum þegar við komum að sækja hana síðdegis biðja fóstrurnar okkur að spyrja hana hvað hún hafi verið að segja við þær fyrir klukkutíma þegar bunan stóð út úr henni á óskiljanlegu víkingamálinu.

Nýjasta afrek Skottunnar er að hún hefur lært að telja. Ætli það verði ekki að skrifast á fóstrurnar, því hún telur bara á ensku: Monn, tú, fí, fo, fæv! Tilhneiging hjá henni að skeyta emmi fyrir framan orð sem byrja á vaffi, til dæmis er ,,vondi kallinn" í teiknimyndunum alltaf ,,mondi kallinn."

Eitt og annað fleira er alltaf á ensku hjá henni líka; ,,Here you go!" þegar hún réttir manni eitthvað, ,,Bless you!" (framb. Bleþþ jú!) ef hún sjálf eða einhver annar hnerrar, og ,,Come on!" í hörðum boðhætti þegar hún vill að maður fylgi sér eitthvert (t.d. fram í eldhús að ná í kexköku). Hún hefur ekki sagt ,,Sjáðu!" frá því að hún byrjaði á leikskólanum, nú er það alltaf ,,Look!" með ótrúlega krúttaralegu skosku uu-hljóði.

Frumskógardýrin hafa öll sín heiti bæði á íslensku og ensku og notast jöfnum höndum, þannig að hún leikur sér með plastdýrin sín geta það verið ýmist ,,tægeh" og ,,læon" eða ,,tiggiþdiþ" og ,,lón". Villidýrsurrin dýranna sem fylgja alltaf á eftir þessum orðum eru vitanlega alþjóðleg.

Talandi um dýraheiti; fyrsta enska orðið barnsins í haust var einmitt ,,dinosaur" - það er heil hrúga af slíkum úr plasti í körfu á leikskólanum - og ekki fyrr en alveg nýlega að hún benti mér á mynd af þvílíkri skepnu í litabók og sagði stolt á ástkæra ylhýra: ,,Hetta eð ðiþa-ella!"

Bangsímon og félagar hans í Hundrað- ekruskógi hafa sömuleiðis bæði ensk og íslensk heiti, Bangsímon sjálfur gengur oftast undir heitinu ,,Ninni- neh-putt" (Winnie the Pooh á máli hérlendra), Grislingur er ýmist ,,Piglet" eða "Þinklínguð" (hljómar eins og Skinklingur!), og Kaninka er stundum Kaninka en stundum ,,Ðabbitt".

Myndskreytingar dagsins eru úr heimsókn okkar í höllu drottningar hér í borg síðasta sunnudag, en þar skoðuðum við sali Maríu heitinnar Stúart og fleiri eðalborinna Skota, sem og rústina af klausturkirkju hins heilaga kross, Holyrood Abbey, sem er þarna í bakgarðinum. Fleiri myndir þaðan í myndaalbúminu hér.

Ekki seinna vænna að túrhestast um þessa yndislegu Edinborg, nú þegar dvöl okkar hér fer að styttast. Næsti áfangastaður innanbæjar í þeim efnum er Farmer´s Market neðan við kastalann, þar sem bændur úr nærsveitum falbjóða framleiðslu sína á laugardagsmorgnum milli klukkan 9 og 1 frá vori til hausts.

Eins víst að næsta færsla verði því myndskreytt með nýslátruðum, lífrænt ræktuðum, og (á meðan þeir lifðu) hamingjusömum kjúklingum...

10 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Hallo!Vorum ad koma ur hringferd um eyjuna, rosalega hrikalegt fannst ollum, en Vestfirdingar ollu vanir voru sallarolegir. 365 beyjur a einni leidinni.Mjog skemmtilegt ! sendum ykkur astar og hvatningarkvedjur !!! Mamma og pabbi.

Nafnlaus sagði...

Heil og sæl, fólkið í Skota landi!
Það er svo ævinlega gaman af börnum sem eru að læra að tala og eins og hjá okkur, eru með tvö tungumál í takinu. So fine to hehr about your wee one. Ísak Kjartan er ekki alveg búinn að temja sér föllin öll í föðurmálinu sínu, en beygir sagnorðin í fleirtölu alveg rétt- gæti verið að íslenskan og finnskan hjálpast að í þessu! Svona að við erum - me olemme eða þeir eru - he ovat. Annars talar hann oft bæði málin í einni setningu, en þetta á vist eftir að lagast. Vonandi. Annars er bara allt gott að frétta af okkur, ymislegt að gera og vorið að koma með storum skrefum lika hér austan salts.

Nafnlaus sagði...

Þegar ég skoðaði myndirnar frá drottningarheimsókninni rifjaðist upp fyrir mér eini dagur minn í Edinborg. Ég og vinkona mín röltum eftir Royal Mile og römbuðum á Mary King´s Close, skelltum okkur í gönguferð með Mary sem var uppi á nítjánudu öld og dó úr plágunni, fróðlegt og magnað!!
Hafið það sem allra best.
Kveðja
Dedda

Nafnlaus sagði...

Litla skotta tekur sig nú bara býsna vel út sem varðsveinn drottningar!

Nafnlaus sagði...

Litla skotta tekur sig nú bara býsna vel út sem varðsveinn drottningar!

Mags sagði...

Morag met you at Maggie's and passed me your blog address. Although I cannot read your words I know there is a powerful healing spirit behind them. Thank you for sharing. May I humbly add another cuddle to all the others out there in the ether for you.
Mags

Nafnlaus sagði...

Af okkur er allt gott að frétta. Óvænt og óbeisluð athygli vegna litlu hugmyndarinnar sem varð að alþjóðlegum viðburði hefur þó tekið mikinn tíma. Biðin eftir barnabarninu á þó hug okkar allra. Skv. nokkuð traustum heimildum (mynd úr maga) eigum við von á stelpu. Ég er því í þann mund að fara að byrja á því að komast í samband við innri ömmuna í mér til að sauma, þæfa og prjóna. Get ekki látið hjá líða að gefa skýrslu um veðrið en eftir rysjótta tíð en brostin á sól og blíða með vægu frosti og allt svona skýnandi hvítt og hreint.

Knús og kveðja
Matta

McHillary sagði...

Hæ darlings! Nú er maður hættur að vinna og er til í besta kaffið í Gilmore hæðum hvort eð heldur er kvölds, morgna eða um miðjan dag. Hvernig er staðan í vikunni??

Nafnlaus sagði...

Allt gott fra okkur!Afmaeli i dag! ut ad borda i kvold!Astar kvedur mamma .Vonum ad ykkur lidi vel!

Nafnlaus sagði...

Knús til ykkar allra! Var að reyna að hringja í Villu og held áfram að reyna morgun. Þegar ég var skiptinemi í Finnlandi/Suomi forðum daga lenti ég hjá alþjóðlegri fjölskyldu. Hann var breskur, hún var finnsk og þau höfðu búið í Frakklandi og börnin fæðst þar. þannig að þau töluðu þrju tungumál í bland. Verstur var sá sem var sjö ára og byrjaði gjarna setningar á frönsku, skipti yfir í finnsku eða ensku í sömu setningunni. Menntaskólafranskan dugði ekki til nema í barnamyndabókalestur fyrir stelpuna sem var 4 ára en krakkarnir kenndu mér heilmikikð í finnsku. Það er gott fyrir heilann að kunna mörg tungumál