Líf í árvekni: Endaspretturinn

þriðjudagur, 20. mars 2007

Endaspretturinn

Þessi mynd er tekin af Skottunni við vatnsverkið hljómfagra í garðinum hjá Möggu í Básum, sem ég sagði ykkur frá í þarsíðasta pistli. Sá það ekki fyrr en þegar hún var komin á skjáinn hvað ljósið og skuggarnir leika skemmtilega saman, rétt eins og ljósmyndarinn hafi reiknað þetta allt út af mikilli kunnáttusemi ;o)

Sú stutta er ekki síður hrifin af athvarfinu Maggie´s Centre en yðar einlæg, en þangað hefur hún komið ,,hjólandi" um hádegisbilið undanfarna þriðjudaga að sækja mömmu sína eftir stuðningsfundinn hennar, sem lýkur rétt áður en prinsinn mætir í meðferðartímann sinn á spítalanum.
Sérstakrar hylli nýtur græni kökudunkurinn á eldhúsborðinu hennar Möggu, og þess ávallt gætt að nesta sig vel áður en haldið er heim aftur með strætó. Prinsinn er okkur ekki samferða, hann hjólar náttúrulega báðar leiðir og er oftar en ekki fljótari en við til baka.

Nú eru aðeins sex skipti af þessum þrjátíu geislasendingum eftir; það síðasta verður á fimmtudaginn í næstu viku, þann 29. mars. Starfsfólkið í geislameðferðinni hristir hausinn yfir þessum víkingi sem kemur stormandi inn dag hvern í hjólagallanum með hjálminn undir hendinni svo gustar af honum; um daginn var hann víst nær því búinn að hlaupa hana Shanne okkar niður (sjá næstneðstu mynd), var þá með Skottuna á öðrum handleggnum og hjálmana þeirra beggja á hinum.
Sem von er þá er endaspretturinn nokkuð lýjandi og krafturinn ekki jafnmikill síðustu dagana og áður, óþægindi eins og höfuðverkur og ógleði hafa gengið í bylgjum en þá er ekki að spyrja að því; Shanne bætir við pillum eða útvegar nýjar í staðinn fyrir þær sem hann fékk síðast og hinn þrautskipulagði drekabani skiptir út eftir þörfum í vopnabúrinu (les: vikuskammtaboxunum).
Það er viðbúið að nokkurn tíma taki síðan að safna kröftum eftir að geislastríðinu lýkur, þreytan sem leggst á fólk nær víst hámarki einverjum vikum síðar. Hvað sem því líður verður að minnsta kosti fagnað á fimmtudaginn í næstu viku, gott ef ekki keypt blóm handa stelpunum í hvítu sloppunum (það er víst alltaf nýr og nýr konfektkassi á borðinu hjá þeim frá þakklátum ,,kúnnum") og farið út að borða í tilefni dagsins.

Botna pistil þessa kalda þriðjudags (+4 stig á hitamælinum í eldhúsglugganum - brrr!) með hjartanlegum afmæliskveðjum til móðurafa Skottunnar, sem um þessar mundir lætur sólina baka sig á þeim suðrænu Kanaríeyjum. Elsku pabbi minn, megirðu sjö sinnum enn verða sjötíu og sjö ára...
p.s. Þetta er nýjasta myndin sem ég á af pabba, tekin 5. ágúst sl. á tröppum Dómkirkjunnar kl. 5 mín yfir hálf 5 - erum við ekki bara með alveg nákvæmlega eins nef?! Og ég sem hef alltaf haldið að nefið á mér væri frá Hofi...

p.p.s. Afmæliskveðjur líka til Huldunnar í Finnaskógum!

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Fin mynd af skottunni og lika af brudurinni og fodur brudarinnar sem helt upp a daginn med heimsokn i langprad hladbordid a Camelias!Gangi ykkur allt i haginn! Mamma.

Nafnlaus sagði...

Það er alltaf svo notalegt að líta hér inn, þú ert svo hlý manneskja.

Baráttukveðjur frá Northampton.

Alda sagði...

Gangi ykkur vel. Frábært hvað þið eruð jákvæð. xx

Nafnlaus sagði...

Hæ!