Líf í árvekni: Undir hnífnum...

föstudagur, 12. janúar 2007

Undir hnífnum...

Þá er biðin hafin. Mættum á stofu 32 á taugalækningadeild Western General Hospital klukkan hálfátta í morgun og stuttu síðar var pilturinn háttaður upp í rúm á gjörgæslunni í náttkjól með slaufum á bakinu og sportsokka með loftgötum fyrir stórutærnar.

Fjögur rúm eru á gjörgæsludeildinni sem er á efstu hæð í húsinu hér á myndinni, vorum sammála um að útsýnið yfir bæinn væri ekkert ósvipað og út um glugga Borgarspítalans yfir Kópavoginn.
Ótrúlega þröngt þarna um mannskapinn; rúm Björgvins var hálfan faðm frá vinnuborði starfsfólksins.

Hvítsloppar, grænsloppar og blásloppar heilsuðu upp á hann hver af öðrum, gáfu sprautur, spurðu sömu spurninga og í fyrradag og mældu blóðþrýsting og púls; minn maður bara slakur með 62 í púls!

Klukkan hálfellefu var hann svo sóttur og farið með hann niður á skurðstofuna sem er á jarðhæðinni og mín rekin heim að bíða. Má hringja um fjögurleytið og athuga hvort hann er þá kominn inn á gjörgæsluna.

Í þessum skrifuðum orðum ætti hann að vera vaknaður af svæfingunni eftir eins og hálfs tíma blund, og byrjaður að segja talmeinafræðingnum frá Feneyjaferðinni sem við ákváðum í morgun að við ætlum í á vormánuðum. Guð gefi nú að hann verði ræðinn...

23 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gangi þér vel í biðinni. Eins & ég sagði í Commenti í fyrra innlegginu þínu hugsa ég mikið til ykkar, þrátt fyrir að þekkja ykkur ekki neitt :)

Vonandi gengur þetta rosalega vel.

kv Lilja, Kópavogi

Nafnlaus sagði...

Biðin er löng, biðin er ströng. Hertu upp hugann ég er viss um að allt fer vel í dag. Hér heima er hvítur bylur og við sjáum varla á okkur tærnar. Hugsa til ykkar allra
þva
Matta

Nafnlaus sagði...

Vorið kemur.

Þér sem hefur þunga borið,
þráða gleðifregn ég ber:
Bráðum kemur blessað vorið,
bráðum glaðnar yfir þér.

Stefán frá Hvítadal . 'Astarkveðjur pabbi og mamma

Nafnlaus sagði...

Svakalega lítur prinsinn vel út svona rakaður & fínn.
Ætli hann fái sloppinn með heim svona til að gleðja prinsessuna? :)

Allur hugurinn er hjá ykkur, bíð spennt eftir góðum fréttum!

Nafnlaus sagði...

Vonandi gengur allt vel. Gaman að fá að fylgjast með þessu svona utan frá!!! Það er ný upplifun fyrir mig (he,he)

Baráttukveðjur
Þórir

Nafnlaus sagði...

Allir góðir vættir sendir til ykkar í dag og orkan héðan að vestan
Góður guð styrki ykkur í biðinn
Baráttukveðjur
Gunna og fjölskylda

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Kominn úr aðgerð hálffimm og aðgerðin gekk "quite well" - farin upp á spítala!!

Nafnlaus sagði...

Erum búin að vera með hugann hjá ykkur í dag, gott að heyra að aðgerðin gekk vel.
Baráttukveðjur
Magga, Arnar og Elvar Orri

Nafnlaus sagði...

Gaman að heyra um fyrstu útkomuna. Bið kærlega að heilsa. Bjössi bróðir.

Nafnlaus sagði...

Baráttukveðjur og risaknús !!!
Dedda og Siggi

Nafnlaus sagði...

kærar baráttukveðjur frá Olgu Þórði Dísu og rest.Við hugsum til ykkar.

Nafnlaus sagði...

Er buin að vera með ykkur i huganum i allan dag og senda ljos. Gott að heyra að aðgerðin gekk vel !!!

Nafnlaus sagði...

Bestu baráttukveðjur af norðurslóðum, gott að lesa að dagar drekans eru taldir og Björgvin vonandi allur að braggast. Láttu vita þegar símtalsfært er orðið.

Nafnlaus sagði...

Gott að heyra að aðgerðin gekk vel.Svo vonandi eruð þið laus við drekann. Búin að vera með hugan hjá ykkur í dag.Baráttukveðjur og góðan bata.
Kv.Kiddý

Nafnlaus sagði...

Elsku Vilborg,
Guð gefi að allt gangi vel í aðgerðinni og að hann Matti þinn nái heilsu aftur. Það er annars skrýtið hvað þetta líf leggur á mann. Skin og súrir. Þó að Amma mín hafi alltaf sagt að það skipti ekki máli hvað kemur fyrir mann í lífinu, heldur hverig maður tekur því, er það ekki eftirsóknarvert hlutskipti að einhver í fjölskyldunni fái krabbamein. Ég tala af reynslu, maður má aldrei láta bugast, það er ekki í boði! Það er allt í lagi að vera sorgmæddur og gráta ef maður heldur í vonina. Sonur minn Kári Örn greidist með krabbamein í nefholi og hálseitlum í september s.l. og er hálfnaður í meðferð. Lyfjakúrar búnir og hann byrjaður í geislum sem munu taka 7-8 vikur.
Hann fór einmitt að blogga þegar hann kom uppúr áfallinu og það hefur hjálpað honum og okkur í fjölskyldunni mikið. Að segja orð á tilfinningar sínar og fá uppörvandi heimsóknir inn á síðuna hefur hjálpað okkur í fjölskyldunni líka. Þá þarf maður ekki alltaf að vera að endurtaka atburðarás og staðreydir fyrir vel meinandi ættingjum og vium, heldur veit að þeir geta fylgst með á netinu.
Elsku Vilborg og fjölskylda.
Þið verðið í mínum bænum héðan í frá.
Erna Arnardóttir (fyrrum vinnufélagi á Stöðinni)

Nafnlaus sagði...

komin skilaboð frá mömmu á sjúkrahúsinu: aðgerðin tókst vel og Björgvin talaði mikið á meðan. hann er hálfsofandi þegar þetta er skrifað. læknarnir telja að 80-90 % af æxlinu hafi náðst.

Nafnlaus sagði...

Gott að heyra að drekinn er að velli lagður!heyrumst þegar vel stendur á Mamma

Smali sagði...

Við viljum bara koma því á framfæri að við hugsum til ykkar og óskum ykkur að sjálfsögðu alls hins besta. Það er léttir að vita að allt hafi gengið nokkurnveginn eftir áætlun.

Kær kveðja,
Haffi frændi og Adda

Nafnlaus sagði...

Gott að heyra fyrstu fréttir - það greinilega virkaði að láta Böbba tala um Feneyjaferðina enda hefur hann alltaf verið til í að spjalla um ferðalög út í hið óendanlega!
Mikill léttir - okkar hugsanir og bænir eru með ykkur héðan frá London.
Palli og Ólöf

Nafnlaus sagði...

Gott að allt gekk vel. Hugsa til ykkar.

Magga Hallmundsd.

Nafnlaus sagði...

Mikið er gott að heyra hvað allt fór vel og núna er líka allt annað að sjá veðrið hjá okkur. Þessi líka fallegi snjór, hann lítur ekki einu sinni út fyrir að vera kaldur og blautur.
þva
Matta

Nafnlaus sagði...

Þetta eru góðar fréttir.

Kær kveðja frá Northampton.

Nafnlaus sagði...

Elsku Vilborg,
Biðst afsökuar á því að hafa rangnefnt Björgvin. Það sýnir að hægt er að ruglast á nöfnum þrátt fyrir að hafa ekki þríhöfða dreka innbyggðan. Gangi ykkur vel Vilborg mín.
Erna A