Líf í árvekni: Þessi heimur...

fimmtudagur, 30. mars 2006

Þessi heimur...

Mesta sjónvarpsruslefni sem ég hef augum litið hér í Bretlandi er daglegur þáttur sem heitir Trisha eftir stýrunni, og er breska útgáfan af þeirri amrísku ömurð Jerry Springer. Þarna mætir treggáfað fólk með alls kyns þroska- og fíknivandamál til að viðra vandamál sín og fá ,,ráðgjöf" frá áhorfendum í sal.

Vandamálin eru t.d. þau að makinn heldur framhjá, drekkur, beitir ofbeldi, er kynlífsfíkill, stelsjúkur, lyginn og svo framvegis. Hann/hún mætir líka í sjónvarpssalinn þar sem spúsan eys yfir viðkomandi svívirðingum og brestur iðulega í grát eða stendur á öskrum. Áhorfendur taka yfirleitt undir og óþverrinn lekur af skjánum. Ég horfði á brot af þessu með klígju í hálsi um daginn og fylltist myrku vonleysi um framtíð mannkyns.

Fleiri þættir af álíka tagi eru á öðrum stöðvum og hér er ágæt grein sem lýsir því að sjónvarpsdagskráin breska sem er í boði á daginn sé hreinlega stórskaðleg börnum. Það á örugglega við um fullorðna líka - þó má reyndar ætla að það fullorðna fólk sem horfir reglulega á þessa þætti sé þegar illa skaðað á sál og skert að þroska. Í dag fann ég hins vegar bjartsýnina á ný, þegar ég hlustaði á viðtal á BBC 2 við Lundúnabúa sem í fyrra tók til við að læðast út seint á kvöldin vopnaður blómlaukum, runnum og skóflu og gróðursetja hvers kyns plöntur hvar sem honum sýnist ástæða til á vanræktum svæðum sem talist geta almenningseign, s.s. umferðareyjar og eyjar inni í hringtorgum, skikar sem enginn hirðir um en milljónir hafa fyrir augunum á hverjum degi.

Hann sagðist því miður ekki eiga neinn garð sjálfur en vera mikill áhugamaður um garðyrkju og með þessu móti slær hann tvær flugur í einu höggi; notar sína grænu fingur og fegrar heiminn.

Fjöldi fólks hefur farið að dæmi hans og gerst það sem nú kallast ,,Guerrilla Gardeners", skvett úr fræpokum á eyðilegar umferðareyjur, jafnvel sett grænmeti í moldarbeð sem enginn hefur áður sinnt um og stungið niður páskaliljulaukum hist og her, eins og sjá má á heimasíðunni sem þessi snillingur heldur úti.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Frábær náungi þetta!kveðja mamma

Nafnlaus sagði...

Gæti svona "guerrilla gardener" ekki kallast garðyrkjuskæruliði á íslensku? Og , held ég, sissipuutarhuri á finnsku! Hmm... partisanaednik á eistnesku...

Vilborg Davíðsdóttir sagði...

Jú, og ef þeir hefðu með sér samtök gætu þau ábyggilega heitið "Græna höndin" ;o)

Gaman væri nú að kunna þessi tungumál sem eru svona óskaplega framandi og ólík því ástkæra. Kannski ég drífi í að læra finnsku árið sem minn heittelskaði ætlar að lesa Stríð og frið...

Nafnlaus sagði...

Ég er mikið að velta því fyrir mér að herma eftir þessum sniðuga manni, vera gróðursetningar skæruliði Kópavogsbæjar :)

Kær kveðja úr Fífulindinni

Auður

p.s nýjar myndir á barnalandinu ;)