Hefjast þá dagbókarskrifin, á fyrsta tíma síðasta dags ársins, og ekki seinna vænna. Hér verður deilt með þeim sem þola hinu og öðru sem vísast kemur fæstum við og mun vart nema að litlu leyti standa undir þeim væntingum sem hvatt er til með yfirskriftinni.*
Til sögu verða kynnt eftir því sem tilefni gefast til Hún ég, Minn heittelskaði, Táningsdóttirin, Strákurinn (einnig þekktur sem Míní Mí), Skottan (einnig þekkt sem Míní Hí), gamla frú Fersch á 3. hæð, mýslurnar okkar, Ýmsir Skotar og hverjir þeir aðrir sem á förnum vegi bloggarans verða og vekja upp þanka sem þurfa á blað/skjá.
Meðfram spjalli um alls kyns óþarfa verður þó leitast við að deila með lesendum tilraunum sögupersónanna til að finna út hvernig má sem best lifa til fulls, lifa sjálfrátt, ríkulega, með fullri eftirtekt, et cetera og eru allar athugasemdir um skrifin ákaflega vel þegnar frá hverjum þeim sem til þess finnur hjá sér hvöt að gefa af nægtum sínum inn um þar til gerðan glugga.
*p.s. Til mjólkurfernufasista og annarra velunnara íslenskrar tungu: Sá/sú sem getur komið með skothelda þýðingu á hugtakinu Mindful Living vinnur til veglegra verðlauna, þ.e. gisting í lúxusgestaherbergi í íbúð í hjarta Edinborgar í viku að eigin vali fyrir þrettánda 2006. Útsýni yfir Arthur's Seat, The Meadows, krokketvöll (húsið okkar á miðri mynd) og 18 holu æfingagolfvöll (að vísu hvítan af hrími). Kastali og verslunarhverfi í göngufjarlægð.
5 ummæli:
Sæl vinkona og til hamingju með þetta nýjasta uppátæki þitt. Þar sem ég hef einlægan áhuga á því að vinna mér inn gistingu hjá þér og þínum, þ.e.a.s. ef ég drattast einhvern tímann á yfir hafið, ætla ég að koma með tillögur að þýðingu á Mindful living. Ég satt að segja veit ekki nákvæmlega hvað það þýðir en hef samt á tilfinningunni að það ég eftirsóknarvert.
Við eigum eitt orð í íslensku sem gæti komið til greina, lífssannindi, en skv. orðabók þýðir það sannindi sem snerta lífið eða orka til skilnings á því.
Huglæg lífsspeki..... æ, það er er svo yfirgengilegt að varla nokkur gæti skilið það en sem slíkt líklega nothæft.
Lifun finnst mér flott orð en það þýðir víst bara að upplifa.
Þva
Matta
Til hamingju með nýju síðuna! Tungumála-snörun er ekki mín sterkasta hlið en ég legg til spluku-nýyrðið ,,huglifun" sem þýðingu á Mindful Living.
Kv. Bjarney
Takk fyrir boðið. Er það nokkuð "meðvitað líf" sem um er að ræða?
Sæl Villa mín og til hamingju með síðuna þína, gaman að geta nú fylgst með þér og þínum. Við Siggi skelltum okkur vestur á Patró núna yfir áramótin með börnin og hundinn og ætlum heim 2 jan, það er alltaf gott að koma vestur, hér snjóar og snjóar og veðrið er alveg yndislegt. Það væri nú ekki leiðinlegt að koma og heimsækja þig til Edinborgar og aldrei að vita nema maður eigi eftir að kíkja á ykkur. Hvernig líst þér á þýðinguna Skapandi tilvera, er það ekki ágætt, annars mjög erfitt að þýða þetta orð. Siggi gaf mér bókina þína í jólagjöf (grunaði það reyndar) þess vegna keypti ég ekki bókina af þér þegar ég hitti þig í Hagkaupum, vona að það hafi gengið vel hjá þér í íslandsheimsókninni, ég las bókina þína í einum rykk og hefði alveg viljað að hún væri lengri, þú verður bara að koma með framhald. Jæja nú ætla ég að hætta við Siggi óskum þér og þínum gleðilegs og góðs árs.
Kveðja Gerður.
Bestu þakkir fyrir góðar kveðjur og snörunartillögur!
Skrifa ummæli