Árlega Smákökuboðið Okkar nálgast hröðum skrefum; þau sem telja sig náin og/eða nokkuð skyld (
sko Okkur, ekki hvert öðru endilega) eru beðin vinsamlega að planleggja jólainnkaupaferð í miðbæ höfuðstaðarins laugardaginn 13. desember og geta þá stólað á heitt á könnunni og seytján sortir hér á Café Hallveigar á milli búða, húsið verður opið frá sirka tvö eftir hádegi til sirka sex síðdegis.
Tvær sortir eru þegar komnar í dósir, Rúsínukökur mömmu og Bóndakökur, líka mömmu (minnar, Björgvin er ekkert byrjaður á uppskriftum sinnar, kveðst upptekinn í verkefnavinnu til 10.des! Eins gott að komið hefur í ljós að Únglingurinn í skóginum er verklagnasti smákökubakari).
Annað kvöld eru það Súkkulaðibitakökurnar og kannski dálítið af Loftkökum, ef ég man eftir að kaupa flórsykurinn í heimleiðinni, Piparkökur Dunnu (jólasveinalaga, jólatréslaga, englalaga o.s.frv.) um helgina þegar allir (flestir) í fjölskyldunni geta rétt hjálparhönd.

Ekki alslæmt sosum að hafa Jóhannesarbúð hér við dyrnar þegar baksturstórræði standa yfir, þó þykir mér lítil prýði að bleikugrísafánaborginni sem minnir meir en lítið á yfirráðatákn (
sést ekki á þessari mynd, er ögn lengra til hægri, fimm stk. grísafánar í vendi). Ég mæli með bílastæðum í næstu póstnúmerum fyrir þá sem vilja heiðra okkur með nærveru sinni; ekki var um auðugan garð að gresja í þeim efnum fyrir en nú eru mikil uppgrip hjá stöðumælavörðum sem vísast fá ágætan jólabónus,
þökk sé þeim Bónusfeðgum.

Úr mínum Veruleika (
sjá síðasta pistil) er það annars að frétta að í dag hrinti ég gamalli konu svo illa að hún mjaðmagrindarbrotnaði. Ekki orð meira um það.
8 ummæli:
Mamma! Illgjörn ertu :P
Aldeilis dugleg ertu,trúi ekki þessu með gömlu, nema það hafi verið Grýla?
mamma
Þú leynir á þér vinkona góð. Það hlýtur að hafa verið rosalegur ljótikall sem hrinti konunni fyrir þig.
þva
Matta
Komdu sæl frú!
dugleg fjölskylda að klessa saman í kökur..ég gerði þetta einn laugardaginn í nóv. og bauð upp á þetta sama dag svo boxin eru tóm. Rúsinukökur mömmu hljóma vel...er það haframjöl og rúsinur?
Er í ömmuleik núna svo kannski að ég geri e-ð svona að viti loksins.
Kveðja
Inga María
Verð ég nokkuð rekin út, þó ég komi beint af Austurvelli, dúðuð en örugglega ísköld.
Súkkulaðið og smákökurnar á Hallveigarstígnum eru ekki gleymdar. Víkingarnir numu lönd en þrælarnir mæta á Austurvelli!!!
Bestu kveðjur, Bryndís
Hó hó, hefði gjarnan viljað vera í þessu boði, en það var aðeins of langt að fara. Fín mynd af skottunni.'Astarkveðjur mamma
Kem bara við á morgun.....er maður réttdræpur fyrir það?
Inga María
Ilurinn á Hallveigarstígnum var í hrópandi andstöðu við ískuldann sem ríkti yfir hópnum á Austurvelli í gær. Kaffivélin suðaði og smákökuhlaðborðið svignaði í skugga bókasafns heimilisins.
Bestu þakkir og gleðileg jól. Bryndís
Skrifa ummæli