
Ilmar vísast af enn fleiru því þetta skoska athafnaskáld býður upp á ýmsar bragðtegundir af hafragaut, s.s. einsog með maltviskí, púðursykri, rjóma, hnetum og hvítu súkkulaði svo fátt eitt sé talið. Matseðilinn má í heild sjá hér, en framtakið hefur vakið þó nokkra blaðamannaathygli og auðvitað tær snilld að hefja svona rekstur í janúar, einmitt þegar heilsufæði á hug allra, og ekki verra að hafa vagninn í þvervegi fyrir öllum skokkurunum sem hlaupa reglulega líkt og ég og minn heittelskaði hringinn í kringum Meadows, auk hundruða hungraðra háskólastúdenta á leið í skólann við Georgstorg (n.b. móderne byggingin á myndinni er gaflinn á bókasafni Edinborgarháskóla - þjóðfræðin er kennd í 250 árum eldra og betur viðeigandi húsnæði, sér í hluta þess aftan við grautarvagninn).
Á enn sjálf eftir að prófa herlegheitin, er að spá í að reyna fyrst uppskriftina sem hér er að finna. Hver veit þó nema maður splæsi í einn sjóðheitan skyndigraut í pásu á milli tíma í næstu viku, þegar veturinn kemur hingað frá Rússlandi skv. spám veðurfræðinga BBC; óvíst að hitalagnir frá 18. öld dugi þá til að hita upp kennslustofurnar við 27 George Square.
Myndin af hafrabarnum er tekin síðdegis í dag, farið að rökkva dálítið um fjögurleytið þegar ég var á leið í fyrirlestur um iðnvæðingu skosks menningararfs. Fyrirtækið nefnist Stoats Porridge Bars, og þannig er yfirskrift dagsins til komin - þ.e. út frá spekúlasjónum mínum um það hvort athafnaskáldið væri í orðaleik eins og hér er svo títt (St.Oats by St. George Square); önnur hver fyrirsögn í blöðum hér tvíræð ef ekki margræð, sbr. frétt Scotsman um vagninn "Porridge: a stirring story". Innfædd skólasystir mín benti mér svo á að orðið stoats merkir hreysiköttur - (þannig að þeir sem voru að bíða eftir því að Kolbeinn kafteinn kæmi við sögu í dag verða að sætta sig við að svo er ekki).
Tilvitnun dagsins kemur frá Cosmo Gordon Lang erkibiskupi af Kantaraborg (1928-42) sem eitt sinn hrósaði Edinborgurum í ræðu með eftirfarandi orðum:
"If you take the shorter catechism, the psalms, and Sir Walter Scott, and mix them with porridge, you will breed a great race of men." Þeim þótti hólið víst ekkert gott...
3 ummæli:
Hæ hæ myndavéla kaup, já alveg sjálfsagt, þyrftum eiginlega að hittast einhvern daginn, máski í hádeginu?
Gaman ad heyra um skoskan hafragraut.
I einni sjonvarpsauglysingu her er prestur ad rempast vid ad skrifa predikun arla morguns.Hann fer og faer ser hafragraut tha kviknar a perunni. "Sannleikurinn fyrirfinnst i hafragrautnum"! Finnar borda grautinn thykkan med allskonar berjasultum a.
En fyrsta sinn a aefinni fyrir mörgum arum,sa eg minn heittelskadan steikja ser afgangasgraut daginn eftir !
Þetta þarf ég að segja Björgvin frá. Hann hefur ekki verið mönnum sinnandi að morgni dags frá 29. desember sl. en þá kláruðust birgðirnar af Cheerios sem voru fluttar hingað af Klakanum, smyglað með búslóðinni! Steiktur hafragrautur hlýtur að vera eitthvað svipaður og lummur, skyldi maður ætla...
Skrifa ummæli