Líf í árvekni: Líf í hæglæti

fimmtudagur, 3. janúar 2013

Líf í hæglæti

Áramótaheitið mitt fyrir þetta nýhafna ár er að lifa í hæglæti af enn meiri elju en áður. Og hefur þó yðar einlæg lengi lagt sig fram í þeim efnum að lifa sem hægast og í deginum í dag. En betur má ef duga skal, sér í lagi þar sem drekinn og ungi hans gera sig þessa dagana æ breiðari og fyrirferðarmeiri í tilverunni. Mér sýnist að það sé einna besta vopnið gegn ófétunum þeim sem keppast við að ræna sem mestri hugsun og flestum rósemdarstundum frá okkur Mínum heittelskaða að við teygjum sem mest við megum á þeim tíma sem okkur gefst og fyllum hann af notalegheitum. Finn það svo vel að þegar ég missi tök á huganum og hann þeysist á undan mér og þykist ætla að hafa betur í kapphlaupinu, þá fyrst stefnir í óefni fyrir alvöru.

Sú uppkomna skenkti mér um jólin fjóra diska með slökunartónlist og eitthvað á ég fyrir af gregoríönskum kirkjusöng, kontratenórum, nunnukórum og þvíumlíku sem einnig henta fyrirtaksvel til þess að hægja á hjartslættinum. Minn heittelskaði eignaðist þess utan góða viðbót í eigið safn af sinni uppáhaldsmúsík, Latínudeildina og Sigurð G. Memphismafíósa í Havana, og hlustar á suður-ameríska tóna með augun lygnd aftur. Tónlistin er margra meina bót.

Þau tíðindin eru annars helst hér úr Hallveigarkastala að illfyglin á Skeljastöðum voru sett í segulómun í morgun (2. jan), þremur vikum eftir síðustu myndatöku (11. des) þar sem þau sjúkdómseinkenni sem hafa verið að gera Mínum lífið leitt síðan þá hafa hreint ekkert batnað og eiginlega versnað nokkuð þrátt fyrir mikla og stóra steraskammta og fjögurra daga innlögn á krabbameinsdeildina (20. til 23. desember) þar sem sterunum var dælt beint í æð.

Drekaófétið er svo illa grillað af geislunum að í því hefur myndast
frumudrep. Það veldur því að rými eykst á milli krabbameinsfrumnanna
sem fyllist af vökva og rúmmál æxlisins eykst = Vandræði.
Miðdegis fengum við niðurstöðurnar sem voru þær skástu sem hægt var að fá í stöðunni, sem sé að heilaæxlin bæði eru nákvæmlega eins að umfangi og útliti og fyrir þremur vikum og hafa ekki stækkað neitt. Satt best að segja var yðar einlæg búin að setja sig í þær stellingar að taka við upplýsingum um stækkun eða jafnvel annan drekaunga til viðbótar. Bjúgur þenur ennþá út nýja æxlið sem spratt í hvirfilblaðinu í september sl. og í kringum það er einnig vökvi sem veldur þrýstingi.

Steragrömmin sem Minn hefur innbyrt á sl. fjórum mánuðum ættu að hafa dregið verulega úr þessari heilabólgu en ekki er að sjá að hún hafi minnkað nokkurn skapaðan hlut, því er nú verr og miður því það er hún sem veldur mestum vandræðunum.

Björgvin á nú mjög erfitt með að tjá sig í töluðu máli. Geta hans til að skrifa texta í tölvu eða á blað er horfin. Það er eins og bókstafirnir vilji alls ekki skila sér fram í fingurna. Lesturinn er ekki alveg farinn en er vandkvæðum bundinn. Tölvuvinnsla er af þessum sökum vitanlega ógerleg, þótt hann geti enn flett upp á síðum á Netinu og rennt yfir fyrirsagnir og stutta texta. Talnaskilningurinn er að mestu horfinn. Hann getur ekki reiknað og skilningur á tímahugtökum er truflaður. Að tala um morgun, kvöld, hádegi, í nótt, á morgun, hvað þá í fyrradag eða hinn daginn ... er snúið mál, svo ekki sé meira sagt.

Að meðtaka og eiginlega enn fremur að muna upplýsingar um að eitthvað eigi að gerast klukkan þetta eða hitt, hvort sem það er lyfjataka eða stefnumót, er útilokað. Ýmis einfaldari húsverk sem til þessa hafa verið unnin ,,með annarri hendi" krefjast nú mikillar einbeitingar og yðar einlæg er um það bil að læra að ávarpa ekki Sinn heittelskaða sé hann að fást við slíkt. Einbeitingin fýkur við minnsta áreiti, ekki síst ef Minn er að leita að orðum til að tjá sig og ,,frýs" í orðaleitinni. Skilningi á alls kyns hugtökum hrakar. Aftur og aftur nefni ég einhverja algenga hluti, eins og kaffi eða gemsa eða lykla og hann lítur á mig með spurn í brúnu augunum og segir: ,,Útskýrðu hvað það er."

Feðginin á setustofunni á deild 11 G/E á LSH 22. desember 2012.
Og þótt það sé eiginlega frekar sorglegt en fyndið hversu tíð mismæli og misskilningur eru orðin í heimilislífinu þá kemur samt fyrir að ég get ekki annað en brosað þegar við eigum orðaskipti eins og í morgun þegar ég spurði hvernig hann hefði sofið og hann svaraði: ,,Bara vel. En þú? Hvenær dóst þú?"

Eða þegar ég bað hann í kvöld að rétta mér símann sem lá á skrifborðinu, við hliðina á tölvunni. Minn rétti mér tölvumúsina. Ég hristi höfuðið og benti á símann og sagði: ,,Nei, símann, þetta hvíta." Hann yppti öxlum og horfði dálítið undrandi á músina. ,,En þetta er sími." Rétti mér samt hvíta tækið, enda friðarins maður.

Doktor Jakob, sem er yfirlýstur ,,anti-steristi" (orðrétt kvót í hann sjálfan), ákvað á fundi okkar í dag að draga nú litillega úr steraskammtinum og sjá hvort staðan versni nokkuð við það. Enda ekki að sjá að þetta (eina mögulega) lyf við heilabólgu sé að gera nokkuð annað en að valda þeim fjárans aukaverkunum sem það er alræmt fyrir. Og hverjar eru þær? Jú, það sem flestir sjá nú um leið og þeir líta steratröllið augum er fitusöfnun í andliti og um miðbik líkamans.

Það sem þó er öllu verra en búlduleitt andlit og búkur eru kvíðaköst sem láta Kringluferð kl. 21.55 á Þorláksmessu líta út sem hjóm eitt. Við þeim eru til lyf en þau hafa aftur þá aukaverkun að valda enn frekari ruglingi og röddin á það til að vera drafandi. Og nú er þriðja aukaverkunin farin að gera illilega vart við sig en hún er vöðvarýrnun sem veldur því að Minn er að verða ófær um hvers konar líkamlega áreynslu og þarf að styðja sig við handrið í stigum hér á milli hæða í kastalanum - þau sem til þekkja vita að þeir eru reyndar brattir og þrepin há eins og í öðrum eldri húsum - og sé hann þreyttur fyrir þá þýðir það að hann verður að stíga báðum fótum í hvert þrep. Talandi um að taka eitt spor í einu...

Sem sagt, ekki gott. Og reynir nú heldur betur á hæfileikann til að líta á björtu hliðarnar í lífinu. En þær eru þarna samt. Riddarinn minn hugumprúði stríðir til að mynda ekki við neins konar hreyfihömlun eða vöðvakrampa en þess háttar er fremur algeng afleiðing heilaæxla. Flogaveikin hans, sem auk þess er af vægustu gerð (gagnaugablaðsflogaveiki) er nú alveg haldið niðri með lyfjum eftir tveggja daga syrpu viku fyrir jól. Hann er ekki heldur með neina höfuðverki (þeim hefur verið haldið niðri með föstu lyfi frá 2007) né heldur er hann með ógleði eða nokkra aðra líkamlega vanlíðan, að frátaldri geislaþreytunni sem slíkri. Og hann getur sofið og svefninn líknar og læknar.

Á brúðkaupsdeginum 5. ágúst 2006.
Og svo eru það öll blessuð lyfin sem gera sitt. Við kvíðaköstunum má til allrar hamingju taka ,,sólarvítamín" og eitt slíkt bætist í vikuskammtaboxin í fyrramálið. Sem betur fer nóg pláss þar ennþá, þótt fyrir séu tvær tegundir af flogalyfjum, höfuðverkjalyf, magalyf (vegna magasýruáhrifa höfuðverkjalyfsins), kvíðastillandi lyf og sterarnir títtnefndu. Eftir tvær vikur hefst síðan önnur lota af sex í fimm daga inntöku á æxlishemjandi lyfinu Temomedac og með því má gleypa lyfið Zofran sem kemur algjörlega í veg fyrir ógleði. Guði sé lof fyrir lyfjafræðina, segi nú ekki meir!

Og síðast en ekki síst má ekki gleyma því hvað Minn heittelskaði er heppinn að vera svona líka assgoti vel giftur ;)  Góðar stundir, elskulegu vinir og vinkonur, og munið að halda áfram að láta ljósið og styrkjandi hugsanir streyma því ég finn það svo vel að það hjálpar allt.

7 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa mín kær og sterk, sendi þér sem nýársgjöf orð Alberts Einstein, með heillakveðju. Já, Albert vissi sínu viti.
"There are only two ways to live your life. One is as though nothing is a miracle. The other is as though everything is a miracle."
http://www.awakin.org/read/view.php?tid=255

Valgerður B.

Nafnlaus sagði...

Elsku Villa og Böbbi.
Takk fyrir að láta okkur fylgjast með.
Kites rise highest against the wind - not with it!
Baráttukveðjur,
Palli og Ólöf

Vigga bloggar sagði...

Takk fyrir innsýnina - sem vekur mann til umhugsunar. Þekki ykkur ekkert en þið eigið hér eftir herbergisrými í hugarhöllinni minni.
mbk
vs

Nafnlaus sagði...

Faðmlag frá mér til þín Villa mín.
Anna Þóra

Nafnlaus sagði...

Knúskveðjur frá okkur að vestan
Mamma og pabbi

Nafnlaus sagði...

Dearest wee sister,
I think about you all, my heart hurts for what life is throwing at you.
I will e-mail at the weekend.
With love and empathy
Morag D.x

Alda sagði...

Thu ert yndisleg kona ,modir, og eiginkona.

Megi ljos fylgja ther og thinum , manni og bornum ..Gud blessi ykkur