Líf í árvekni: maí 2007

fimmtudagur, 31. maí 2007

Meira afmæli

Heimasætan er tvítug í dag, 31. maí 2007. Með sama áframhaldi verðum við jafngamlar á endanum, mægðurnar...

Ég man þá stund fyrir 20 árum að ég horfði á þessa litlu, ókunnugu manneskju í glervöggunni á Fæðingarheimili Reykjavíkur og velti því fyrir mér hvað þetta líf væri merkilegt...

Til hamingju með daginn, elsku besta Katrín mín.

p.s. Hún er komin með vinnu hjá ritfanga - og bókaversluninni Griffli í Skeifunni!

sunnudagur, 27. maí 2007

Hvítadagur

Af því að síðasta blogg var svoddan langloka verður þetta frekar stutt. Reyndar aðeins tvær tilvitnanir. Sú fyrri er frá Richard Bach, sem ég var ógn hrifin af þegar ég var únglíngur í Emmí fyrir nokkrum (23) árum:

"We think, sometimes, there’s not a dragon left. Not one brave knight, not a single princess gliding through secret forests … What a pleasure to be wrong. Princesses, knights, enchantments and dragons, mystery and adventure … not only are they here-and-now, they’re all that ever lived on earth! Masters of reality still meet us in dreams to tell us that we’ve never lost the shield we need against dragons, that blue-fire voltage arcs through us now to change our world as we wish. Intuition whispers true: We’re not dust, we’re magic!"
- úr bókinni The Bridge Across Forever

Seinni tilvitnunin er í Bertrand Russell, enskan heimspeking m.m., og er tileinkuð öllum þeim sem hún á við (nefni engin nöfn):
"One of the symptoms of an approaching nervous breakdown is the belief that one's work is terribly important."
Að svo mæltu óska ég ykkur ánægjulegs Hvítadags.

fimmtudagur, 24. maí 2007

Áður fyrr og akkúrat núna

Það er svo margt að gerast ytra og innra þessa dagana að kona veit vart hvar byrja skal væntanlega langloku. Skrifin hér hjálpa óneitanlega til við að koma reglu á hlutina í kollinum á mér, setja hlutina í rétt samhengi eins og sagt er í fræðunum góðu sem fela í sér göngu til þroska og æðruleysis með hjálp sporanna tólf.

Að setjast niður til þess að segja frá verður nefnilega til þess að ég þarf að staldra við; horfa yfir sviðið og reyna að raða þessu öllu saman niður. Spyrja sjálfa mig hvað sé mikilvægast, hvað komi fyrst og hvað sé svo lítt merkilegt að óþarfi sé að eyða í það pixlum.

Góð vinkona mín, ein þroskaðasta manneskja sem ég hef kynnst, lætur farsímann sinn heilsa sér þegar hún kveikir á honum með eftirfarandi spurningu: ,,Hvað skortir núna?“ Spurningin er hlaðin hvatningu um að vera í núinu, lifa í einmitt þessu andartaki en ekki þeim sem eiga enn eftir að koma. Svarið hlýtur því alltaf að vera það sama: Akkúrat núna skortir mig ekkert.

Æðruleysið er komið aftur – skorti það um tíma en fann það í gær (á tannlæknabiðstofunni af öllum stöðum). Sem minnir mig á orðaskipti sem ég átti eitt sinn fyrir þó nokkrum árum við son minn þá sex ára gamlan (nú 12 og hálfs). Við bjuggum þá í Hruna í gamla vesturbæ, þrenningin hún ég, Heimasætan og Snúðurinn og vissum ekki svo mikið sem um tilveru draumaprinsins sem síðar varð, hvað þá að okkur grunaði að Skottan ætti eftir að bætast í veröldina.

Yðar einlæg var að tína upp blaut handklæði úr skólatösku pjakksins síðdegis (sem áttu að hengjast upp af honum við heimkomu) þegar hún lét þessi orð falla stundarhátt, í miklum mæðutóni (enda ætlunin að vekja sektarkennd með slóðanum): ,,Mig vantar æðruleysi!“ Þá heyrðist innan úr herbergi skýr og ákveðin drengsrödd: ,,Þig vantar kærasta!“ Mín hváði hissa og var sagt í sama tóni að það vantaði líka stóran bróður og litla systur.

Þegar ég spurði Snúðinn hvort hann vissi um vænlegan kandídat í kærastadjobbið svaraði hann neitandi, en bætti við hugulsamur: ,,Þú verður að finna hann sjálf. Þú þarft að hitta vini þína og finna kærasta sem verður ástfanginn af þér og þú ástfangin af honum.“ ,,Og á hann þá að eiga stóran strák og litla stelpu?“ spurði ég. ,,Já, það væri best. Það vantar stóran bróður og litla systur í þessa fjölskyldu,“ endurtók hann ákveðinn á svip.*

Jamm og já. Síðan þá hefur margt breyst og honum bæst bæði stjúpi og stjúpa og fjórar litlar systur að auki. Eins gott að fara varlega í að óska sér, því það gæti allt saman ræst og gott betur!

Ætti þá kannski að fara að koma mér að títtnefndu núi aftur og rekja heilsufarstíðindi héðan úr Gilmore kastala í Eiðinaborg síðla í maímánuði á því herrans ári 2007. Sem mætti svo sem koma fyrir í einum bókstaf, endurteknum nokkrum sinnum: Zzzzzz...! En eins og þið vitið er ég ekki fyrir að stytta mál mitt ;o)

Frá heimkomu af sjúkrahúsinu hefur prinsinn sem sé sofið ósköpin öll - svona 18-20 tíma á sólarhring - og lystin er lítil en þó einhver (engin á mat krydduðum engifer!). Hitavellan hefur farið, komið og farið aftur. Kollurinn hefur því miður myndað mótefni gegn tópasinu eins og öðrum verkjapillum og það virkar ekki lengur svo að höfuðverkirnir líta við reglulega, stoppa sem betur fer yfirleitt ekki lengi.

Á þriðjudag sóttum við heim maxfaxinn mr. Larkin hjá Edinburgh Dental Institute (myndin tekin á biðstofunni þar) en hann er sérfræðingur í öllu því er viðkemur andlitsvöðvum. Honum þótti Björgvin geta opnað munninn bara þó nokkuð mikið og er sá eini sem hefur tekið svo til orða þar um, enda prinsinn vart fær um að gapa meira en sem nemur þykkt á brauðlausum borgara frá því eftir aðgerðina í janúar.

Fólk sem hingað kemur, sagði maxfaxinn orðum sínum til skýringar, getur yfirleitt alls ekki opnað munninn nema agnarögn eða ekki neitt vegna þess að það hefur gengist undir geislameðferð sem lendir neðar á andlitinu (en í tilviki Björgvins), vegna krabbameina í hálsi og munni. Og sagði okkur sem sagt að helsta ástæðan fyrir því hvernig komið er væri sú að geislarnir hefðu valdið örum á kjálkavöðvanum vinstra megin og þar hefur myndast ,,fibrosis" (sem ég held að sé örvefur á íslensku, Palli?) sem hindrar eðlilega hreyfingu.
Ekkert er við því að gera - því fibrósinn þessi kemur alltaf aftur þótt hann sé numinn burt með aðgerð -annað en að æfa sig í að gapa sem mest til þess að vinna gegn því að ástandið verði verra. Svo að það má sem sagt hafa gagn af öllum þessum geispum, svo kona sé nú jákvæð!
Góðu fréttir vikunnar eru þó þær að læknirarnir hafa gefið kenninguna um vírussýkingu upp á bátinn eftir hitavellu í 3 vikur og telja nú líklegast að flogalyfið (Carbamezapine) geti átt sök á hitanum; það á til að hafa þá aukaverkun og slíkt gæti hafist þegar saman koma öll þessi ,,snemm-síðbúnu" eftirköst af geislunum sem fyrr eru talin. Svo að framundan eru væntanlega lyfjaskipti og betri líðan.

Ekki er þó von til þess að orkan aukist að neinu gagni alveg á næstunni og eins víst að prinsinn hugrakki verði að hvíla sig mikið næsta mánuðinn að minnsta kosti. Ástæðan ku vera eyðing svonefnds myelins í heilanum. Miðtaugakerfið er eins og skiptiborð sem sendir rafboð eftir taugaþráðum til hinna ýmsu líkamshluta. Þessi boð stjórna öllum meðvituðum og ómeðvituðum hreyfingum.
Flestir taugaþræðir eru einangraðir með slíðri úr efni sem kallast myelin. Þessi einangrun er mikilvæg fyrir leiðnina í tauginni. Þetta er svonefnt hvítt efni í heilanum (sem sé ekki sjálfar gráu sellurnar) og það tekur heilann yfirleitt um sex vikur að bæta skaðann sem orðið hefur á því af völdum geislameðferðar (þessi læknisfræðilega skýring er í boði heimasíðu MS-félagsins).

Enda þetta á að gefa í skyn að von sé góðra tíðinda í atvinnumálum Heimasætunnar en segi ekki meir í bili, svo að þið fáið nú einhverja spennu í lífið og lítið hingað fljótt aftur ;o)
P.S. Til ykkar sem hafið hug á að senda okkur kveðju í comments-gluggann en lent í vandræðum við framkvæmdina: Það þarf bara að haka við og skrifa nafnið sitt annað hvort í reitinn merktan Other eða Anonymous og slá síðan á Publish your comment. Hunsið alveg ósk um password og username því þess háttar er eingöngu ætlað þeim sem eru skráðir bloggarar með síður hjá www.blogger.com .
* Nei, minni mitt er ekki svona gott; ég á þetta samtal skrifað niður frá því í apríl 2001 í svonefndri Matthíasarbók, sem verður kannski birt opinberlega í heild sinni þegar söguhetja hennar hefur aldur til að hafa húmor fyrir því sem þar stendur ;o)

miðvikudagur, 23. maí 2007

Afmæli og Emelíur

Á mánudaginn síðasta, 21. maí, var haldið upp á þriggja ára afmæli Skottunnar með pompi og pragt. Reyndar voru veislugestir ekki aðrir en við fjölskyldan og Jonni frændi sem lagði land undir fót alla leið frá Íslandi í tilefni þessa merkisdags ásamt Hjalta vini sínum. En það var bara ljómandi gaman þótt ekki væri skarinn stærri, og veisluföngin enda ekki af verri endanum; súkkulaðikaka á la Nanna tengdó hans Árna frænda og pönnukökur á la Katrín með sultu og rjóma.

Gleðin afmælisstúlkunnar átti sér engin takmörk þegar það rann loks upp fyrir henni að ekki var ætlunin að fara (aftur) í afmæli hjá Luca leikfélaga af Rainbow (eins og hún virtist halda) heldur átti hún sjálf afmæli og þennan líka fjölda af fínum pökkum og allt sem í þeim var: Leikföng, mynddiska og fatnað bæði á sig og Emelíurnar (dúkkurnar hennar þrjár heita allar Emily). Eins og sést hér til hægri eru prjónafötin frá ömmu Sigrúnu m.a.s. með vösum!

Eldavélin góða vakti líka mikla lukku og kvöldmatur var eldaður samfleytt í þrjá klukkutíma. Skottan sýndi í verki að hún er mikil málamanneskja, en auk íslensku og ensku talaði hún allan liðlangan daginn ákaft á eigin máli sem enginn reyndar skildi frá orði til orðs, en meginmerkingin var okkur öllum ljós: Það er mjög gaman að eiga afmæli!

laugardagur, 19. maí 2007

Skrítnir dagar (og auglýsing)

Þetta eru skrítnir dagar. Dálítið eins og að vera skutlað upp í rússíbana án öryggisfestinga, aldrei víst hvenær brestur á með Bröttubrekku eða hraðferð niður Hrafnseyrarheiðina og best að halda sér fast. Inn á milli hægist þó ferðin og við finnum að við höfum nokkurt vald sjálf á því sem gerist innra enda þótt hið ytra sé ekki á okkar valdi. Meðal þess sem hjálpar er að hafa afdrep af því tagi sem hér sést (og Skottuna frammi á meðan) fyrir hljóða stund í einveru.

Þessa dagana er hægagangurinn ríkjandi, ekki alveg að eigin ósk reyndar, því prinsinn hugrakki telur nú orkuprósent hvers dags á fingrum annarrar handar. Jæja, hann segir mig vísast ýkja núna en þreytan er vissulega mikil og líkust því sem var fyrst eftir uppskurðinn í janúar. Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að hitinn hefur verið eðlilegur og höfuðverkirnir mun færri allra síðustu daga en um langt skeið og skammvinnari.

Í stað þess að innbyrða verkjalyf af sterkara taginu hefur minn mann nú þann háttinn á að leggjast hið snarasta flatur á hægri hliðina þegar höfuðverkur bankar uppá , fá sér tópas (sem Jonni mágur kom færandi hendi með að heiman) og oftar en ekki er verkurinn farinn eftir korter.

Spurning hvort tópasframleiðendur ættu kannski að huga að markaðssetningu á þessu ágæti sem undralyfi við höfuðpínu. Óvíst hvort það virkar þó fyrir aðra því það er engu líkara en bragðkirtlar prinsins hafi verið forritaðir upp á nýtt og að undanförnu hef ég fengið skrítnustu athugasemdir eins og hversu margar skeiðar af sykri ég hafi sett út á kornflexið hans (ætti nú ekki annað eftir!) og hvaða aukabragð sé eiginlega að kaffinu (?!).

En að allt öðru - mig langar að bæna á ykkur, lesendur góðir, og láta okkur vita af því ef þið getið verið heimasætunni, henni Katrínu minni, hjálpleg og bent henni á atvinnutækifæri heima á Íslandi í sumar (sem og næsta vetur, meðfram væntanlegri háskólagöngu).

Ykkur til upplýsingar, sem ekki þekkið stúlkuna af eigin raun en gætuð vitað af opnum dyrum fyrir hana út á vinnumarkaðinn þá verður hún tvítug eftir ellefu daga (guðminngóður!), og þótt ég sé vitanlega ekki hlutlaus þá verð ég að segja að samviskusamari, ábyrgari og duglegri unga konu er vart hægt að hugsa sér til vinnu.

Fyrir utan nú dótturlega fullkomnun (hjálpar við öll húsverk, passar hvenær sem óskað er, er ALLTAF stundvís, stendur sig snilldarvel í skóla, er glaðlynd, o.s.frv.) þá er hún bæði afar vel mælt og skrifandi, jafnt á íslensku sem ensku (sjá blogg sl. 3 1/2 ár), mjög hraðritandi á lyklaborð og kann á allt sem nöfnum tjáir að nefna við ritvinnslu. Sumarstörfin fram að þessu hafa verið garðyrkja (bestu meðmæli verkstjóra Vinnuskólans til skrifleg) og fiskvinnsla (Grandi tvö sumur), en það er víst best að geta þess að það síðarnefnda er engan veginn efst á óskalistanum.

Mesta starfsreynsluna hefur hún af barnagæslu (sl. 12 ár) og margir fleiri en yðar einlæg, meðal annars íslenskar barnafjölskyldur í Edinborg, geta borið henni gott vitni í þeim efnum.
Áhugasviðið er vítt og breitt og nær hvaðeina kemur til greina, afgreiðslustörf af hvers konar tagi gætu hentað því stúlkan hefur þjónustulund góða (og mikla, persónulega reynslu af verslun bæði á fatnaði, tónlist og myndefni!) en kannski væri draumastarfið falið í sýsli með bækur og/eða blöð og texta. En kannski eitthvað allt annað sem á enn eftir að koma í ljós.
Ó, að standa á þröskuldi fullorðinsáranna og allir þessir möguleikar ósnertir og innan seilingar eins og konfektmolar í kassa... ;o)
P.S. Ef ykkur kemur eitthvað hjálplegt í hug, endilega sendið línu á vilborg(hjá)snerpa.is eða sláið á þráðinn til okkar hingað í Eiðinaborg í síma 0044 131 22 11 935.

þriðjudagur, 15. maí 2007

Kominn heim

Þá er Björgvin kominn heim aftur eftir fimm daga dvöl á taugalækningadeildinni - jafnlangan tíma og fyrir fjórum mánuðum - til muna betri til heilsunnar. Skottan var svo glöð að sjá pabba sinn að hún hló og söng samfellt frá því að hann kom heim þar til hún var færð úr fanginu á honum í rúmið með valdi um háttatímann.

Ekki fannst nein einhlít skýring á veikindunum, ómskoðun af lifrinni vegna hækkaðra ensíma þar leiddi ekki nokkurn skapaðan hlut í ljós (vorum spurð samtals í fjórgang hvort hann drykki áfengi í miklum mæli!) - þannig að vísast var þetta þá "bara" vírussýking ofan á harkaleg eftirköst af geislameðferðinni (eða öfugt).

En nú er líka loksins búið að röntgenmynda kjálkann og í framhaldinu eigum við von á að heyra frá sérfræðingi sem kallast maxfax hér og orðabókin kann ekkert íslenskt yfir, en það mun vera læknir sem leysir hvers kyns vandamál sem hafa með kjálka og andlitsvöðva að gera.

Búið er að fækka nokkuð úrvalinu í apótekinu nú þegar og enn minnkar að viku liðinni þegar sterarnir verða kvaddir, vonandi fyrir fullt og allt, sem og þeirra fylgipillur.

Lagði inn dálítið magn af nýlegum myndum úr hvunndeginum í albúmið - þær eru í myndasöfnunum sem merkt er apríl, maí og Bataferðalag Björgvins.

mánudagur, 14. maí 2007

,,On the mend"

Matarlystin er mætt aftur, sbr. myndskreytingu en á diskinum getur að líta hinn erkiskoska þjóðarrétt, haggis með kartöflumús og rófustöppu. Ekki allra tebolli en prinsinn var afar ánægður með rétt dagsins hjá NHS. Hitinn er nú kominn í eðlileg horf, ógleðin engin í dag og vökutímarnir til muna fleiri en að undanförnu.
Ekki er aðeins að allt líti nú betur út með heilsufarið heldur dró í dag loks skýjagrámann frá sólu og veröldin öll fékk bjartara yfirbragð.
Útskrift af Western General Hospital væntanlega á morgun, þriðjudag, en þó á fyrst að taka eina röntgenmynd til viðbótar, af kviðnum í þetta skiptið. Ráðgátan um orsök þessara skyndilegu veikinda er enn óleyst - hvað varðar hitann og ógleðina að minnsta kosti - og verður líkast til áfram, en annað má kenna geislameðferðinni um. Líklegt er það taki einhverjar vikur að safna fullum kröftum á ný og hefur yðar einlæg fengið loforð fyrir því að fá allra náðarsamlegast að sjá um þvotta og þrif á heimilinu þann tíma.

Fyrir öllu er að pilturinn er nú á batavegi og það er ég alveg viss um að allar hugsendingarnar ykkar eiga þar stóran þátt. Bestu þakkir fyrir það frá prinsinum hugrakka og prinsessunni undurfögru ;o)

sunnudagur, 13. maí 2007

Enn er leitað...

Í þessum skrifuðum orðum er ríkisstjórnarmeirihlutinn fallinn og viðeigandi að varpa hér hamingjuóskum út í veröldina með von um að ekkert breytist til hins verra þegar líður á nóttina. Undarlegt samt að horfa yfir hafið héðan úr landi sem stýrt hefur verið af rósrauðum jafnaðarmönnum undanfarinn áratug og sjá hvað köld frjálshyggjan er enn feiknaöflug heima á Fróni. Engu líkara en fólk taki ekki eftir því að Sjallarnir beri ábyrgð á hvernig í pottinn er búið í íslenskum þjóðmálum, í raun meiri en Framsókn, hafandi ráðið ferðinni í heil fjögur kjörtímabil (hvað var ég að gera fyrir sextán árum...?! Úff, langar ekki einu sinni til að muna það ;o) ).

En að mikilvægari málum hér á bænum: Björgvin er nokkuð að hressast, hitinn mun minni í dag sem og ógleðin - a.m.k. á meðan hann liggur flatur - og fyrsta máltíðin í sex daga var snædd í dag: Franskbrauðssamloka með skinku á la NHS og súkkulaðijógúrt í desert.

Leitin að orsök hitans stendur enn yfir, fengum þó þær ágætu fréttir í kvöld hjá doktor Emmu að blóðsýnin hafi ekki sýnt nein merki um sýkingu og sökk mældist lágt, en væri það hækkað benti það til sýkingar eða æxlisvaxtar. Í dag var svo tekin röntgenmynd af lungum prinsins, ekki að neitt bendi til sýkingar þar en læknironum finnst víst best að vera alveg, alveg vissir.

Að vísu fannst ekki röntgenmyndin í kvöld þegar doktor Emma ætlaði til að taka, en hún kvaðst viss um að hún gæti ekki hafa farið langt og kæmi í leitirnar í fyrramálið.

Minn mann sefur óskaplega mikið ennþá og eftir því sem góð vinkona mín, sem nú er byrjuð í eigin geislastríði heima í Reykjavík, segir mér, er svefninn besti læknirinn.

Björgvin biður fyrir bestu þakkir og góðar kveðjur til ykkar allra sem hafið hringt, smessað og kvittað á bloggið; það er ómetanlegt að finna hlýhuginn streyma til okkar úr öllum áttum :o)

Sting hér inn fyrir ykkur sem áhuga og nennu hafið slóð að upplýsingum um aukaverkanir af geislameðferð gegn heilaæxli.

föstudagur, 11. maí 2007

Hvar er doktor House?!

Hafði varla sleppt bloggorðinu sl. laugardagskvöld þegar prinsinn hugrakki lagðist í bólið og hefur legið þar síðan, ansi hreint slappur með ógleði, höfuðverki og hita. Það er að segja þar til um hádegið í dag, föstudag, en þá vorum við doktor Grant taugalæknir orðin alveg sammála um það að svona gæti þetta ekki gengið og drengurinn var lagður inn á spítalann á Department of Clinical Neurology, deild 31, þar sem hann er nú í þessum skrifuðum orðum, til rannsóknar og eftirlits um óákveðinn tíma.

Öll einkenni - nema hitinn - benda til þess að hér séu á ferðinni það sem heitir á engelsku máli "early-delayed side effects" eftir geislastríðið, og gæti snarast á ylhýra sem snemm-síðbúnar aukaverkanir. Slíkt væri mjög viðbúið einmitt núna, sex vikum eftir lok geislameðferðar. Fyrstu viðbrögð læknirins sem ég náði í á mánudag eftir mikið mas (þá var nefnilega af-því-bara-bank holiday) voru því að auka steraskammtinn upp í það fyrra magn sem Björgvin hafði tekið meðan á meðferðinni stóð.

Þegar hitinn hækkaði síðan á miðvikudag var tekin CT tölvusneiðmynd af heilanum til þess að ganga úr skugga um að engin sýking væri þar í gangi. Engin sýking sást nokkurs staðar, til allrar hamingju, og ekki heldur nein heilabólga (en hún hefði útskýrt ógleðina/höfuðverkina/syfjuna) - sem eru vitanlega ekki síður góðar fréttir. Aukin heldur var æxlismassinn minni en CT myndataka strax eftir skurðaðgerðina í janúar sýndi.

Sem getur reyndar verið vegna þess að í janúar var bólga til staðar sem gerði myndina óljósari en ella en hugsanlega vegna þess að geislarnir hafa þegar náð að minnka það sem eftir var af æxlinu, þrátt fyrir að enn sé mjög skammt um liðið og ekki búist við slíkum árangri fyrr en að a.m.k. 3 mánuðum liðnum.
Þar sem enga bólgu var að sjá voru sterarnir því snarminnkaðir og eiga að vera úr sögunni eftir tvær vikur. Eftir stendur að engin augljós skýring er á hitanum - né eiginlega ógleðinni heldur - og búið að þreifa minn mann og þukla í bak og fyrir af samtals þremur læknirum á jafnmörgum dögum án þess að nokkrar nýjar kenningar hafi komið fram um hvað geti amað að, utan hugsanlega vírussýking.

Í dag var því tekið það ráð að draga úr prinsinum blóð á spítalanum og setja í ræktun, til þess að útiloka að einhvers staðar sé sýking í kroppnum sem sterarnir hafi haldið í skefjum eða hulið að undanförnu. Vírussýking kemur alveg til greina og er vonandi bara málið, ofan á aukaverkanir af geislunum - sem læknast þá af sjálfu sér á skömmum tíma og fyrr en ella þar sem hann fær nú viðeigandi aðhlynningu alls þess ágæta fólks sem starfar á DCN.
Nú væri vissulega gott að hafa doktor Gregory House og hans vaska lið við hendina en ekki bara í kassanum... Læt ykkur frétta af gangi máli strax og eitthvað er að frétta (les: ef ekkert er bloggað er allt við það sama og ráðgátan ennþá óleyst).
p.s. Má til með að geta þess fyrir alla femínistana sem hingað koma í heimsókn að hjúkkurnar tvær sem voru á vaktinni í dag og í kvöld voru báðar karlkyns en læknirinn sem heilsaði á drenginn á kvöldvaktinni var kvenkyns.
p.p.s. Tökum Tjallana okkur nú til fyrirmyndar, kjósum rétt(ar) og koma svo, Ísland!

laugardagur, 5. maí 2007

Laugardagslangloka

Í dag tókst okkur loksins að komast á fætur og út í bæ nógu snemma til þess að fara í þessa heimsókn á bændamarkaðinn á Castle Terrace, sem ég boðaði fyrir margt löngu (morgunsvæf, við) og haldinn er fyrripartinn á laugardögum frá vori til vetrarbyrjunar.

Margt um manninn þar enda margt í boði hjá bændum Lothian-sýslu og nágrennis: Dádýrakjöt (í básnum á efstu mynd), kjúklingar, Angus nautakjöt, egg úr hamingjusömum púddum, handgerð sápa samkvæmt ,,fornri keltneskri hefð" (við keyptum auðvitað soleis, sóp-on-a-róp með netluilmi), reyktar pylsur, hamborgarar grillaðir á staðnum, grænmeti, nýbakað lauk-og hnetubrauð (mmm!), skosk hindberjasaft og finnsk bláberjasaft svo fátt eitt sé nefnt.

Á hæðinni ofan við markaðinn gnæfði vesturhluti Edinborgarkastala; dálítið drungalegur að sjá þar sem hann bar við skýjaðan himin.

Laugardagar eru uppáhaldið mitt. Meðal annars vegna þess að þeir byrja alltaf á því að ég fær morgunmat, kaffi og Moggann í rúmið (les: tölvuna). Sjaldan hefur mér tekist jafnvel til með jólagjöf eins og þegar ég gaf mínum heittelskaða morgunverðarbakka um síðustu jól.

Uppfyllti fullkomlega þessi skilyrðin þrjú sem hann setur fyrir jólagjöfum, já og afmælisgjöfum reyndar líka: 1. gjöfin þarf að koma á óvart og 2. hann vantar hlutinn en áttar sig ekki á því fyrr en hann opnar pakkann. Snilld, þótt ég segi sjálf frá ;o) Erfitt verður þó að uppfylla þriðja og síðasta skilyrðið um næstu jól, en það er að hver gjöf sé valin af enn meiri hugkvæmni en sýnd var árið áður. Skilst að ein helsta ástæðan fyrir því að pilturinn var á lausu í öll þessi ár áður en yðar einlæg kom til sögunnar sé einmitt þessi, að engri kvinnu hafi áður tekist að uppfylla þessi ,,einföldu" skilyrði við afmælis-og jólagjafainnkaup og frekari samvistir því verið afþakkaðar. Enginn þrýstingur, sei sei nei...*
----
Þessi fyrsta vika maímánaðar hefur á fleiri en einn veg verið ólík því sem kona ætti að venjast heima á landinu bláa; hér hafa bæði alþjóðlegur baráttudagur verkalýðsins og kosningar til þings og sveitarstjórna landsins komið og farið án þess að svo mjög væri eftir því tekið. Í landi Skota er 1. maí ekki frídagur, og þótt gefið sé ,,bank holiday" fyrsta mánudag eftir hann þá komst ég að því að það frí er ekkert sérstaklega tengt við verkalýðsdaginn í hugum fólks; að minnsta kosti var svarið þegar ég spurði við eldhúsborðið hjá Möggu í Básum um daginn, af hverju þessi frídagur væri næsta mánudag: ,,Af því bara, það er alltaf frí fyrsta mánudag í maí."

Þegar ég hafði orð á því að fyrsti maí væri runninn upp færðist talið þegar í stað að Beltane eldhátíðinni sem haldin er aðfarakvöld ,,maídagsins" á Calton Hill í miðborginni (sjá myndir frá Beltane 2006 hér) og þeim forna sið að baða sig upp úr dögginni uppi á Arthur´s Seat í dögun 1. maí en hún ku eiga að lækna öll mein, líkt og Jónsmessudöggin á Íslandi.

Á heimleiðinni sá ég þó merki þess að einhverjir innfæddra að minnsta kosti tengja daginn baráttu fyrir bættum kjörum; á stéttinni framan við kringluna St. James' Centre stóðu fjórir eða fimm síðhærðir, skeggjaðir menn með heimagerð skilti sem á voru letruð slagorð í sönnum 1. maí-anda: ,,Niður með heimsvaldastefnuna og kapítalismann" og ,,Viva 1. May!"

Á fimmtudaginn, 3. maí, gekk svo annar hver atkvæðisbær Skoti til kosninga til sveitarstjórna og svæðisþings. Eða tæplega það. Er búin að gúggla eftir ,,turn out" hvað eftir annað en fæ ekki nákvæmari upplýsingar um kjörsóknina en þær að í þessu kjördæminu hafi hún verið 42% en í hinu heil 56% (sem er met!) og í því þriðja hafi íbúarnir ljóslega fengið nóg af þeim stimpli að vera kjörlatastir allra Skota (24% kjörsókn 2003) og þyrptust heil 38% á kjörstað til að bæta úr skák í ár. Kona á bara varla til orð (eins og það gæti gerst, not!) yfir áhugaleysi hérlendra á þátttöku í lýðræðinu.

Það tíðkast ekki hér að troða auglýsingum frá stjórnmálaflokkunum í sjónvarpið eða í gegnum bréfalúguna svo að fátt var til að kveikja í manni kosningastemmingu. Scotsman var að vísu með eitt aukablað um kosningarnar um daginn með mynd af forystusauðum flokkanna og yfirliti yfir helstu stefnumál en það var ekki fyrr en á kjördaginn sjálfan sem ljósastaurarnir í miðbænum voru skreyttir eins og hér sést.

Niðurstöðurnar létu síðan á sér standa; ekki búið að telja fyrr en síðdegis á föstudaginn! Ástæðan var að hluta til sú að tölvurnar sem áttu að hjálpa til við talninguna feiluðu eitthvað á flóknum kjörseðlum en að atkvæðin frá innri Suðureyjum komust ekki yfir á meginlandið með þyrluflugi fyrir þoku og voru á endanum talin á ystu ey Suðureyja; eyjunni við hafsbrún sem heitir Lewis norðan til en Harris sunnan til (því má svo við bæta að eyjan sú kemur við Korku sögu.)

Helstu tíðindi kosninganna - fyrir utan öll ógildu atkvæðin (5%) - eru að Verkamannaflokkurinn er ekki lengur stærsti stjórnmálaflokkur Skotlands heldur Scottish National Party, skoski þjóðernisflokkurinn, en munar þó bara einu þingsæti; SNP er með 47 en Verkó 46. Það dugir reyndar ekki til meirihlutastjórnar í Holyrood; nú þarf að smíða samsteypustjórn og þá er eins líklegt að svonefndir frjálslyndir jafnaðarmenn (Lib Dem) smeygi sér að, enda þótt þeir séu aðeins örfáir þá þykja þeir víst góður valkostur til samstarfs, verandi leiðitamir öðrum svo framarlega sem þeir komast að kjötkötlunum. Minnir dálítið á álíka lítinn flokk heima á Fróni...

Mér skilst af sögn eins lærimeistaranna í School of Celtic & Scottish Studies að SNP sé bæði hægri og vinstri sinnaður flokkur, var víst einhvern tímann fyrir margt löngu steyptur saman af sjálfstæðissinnum beggja vegna við miðlínu sem gátu sameinast í andúð sinni á þeim engelsku. Scotsman segir að stuðningur við flokkinn sé ekkert endilega það sama og vilji til að slíta sambandinu við England og Wales eftir þriggja alda friðsamlega sambúð; það séu frekar áherslurnar í pólitíkinni að öðru leyti og óánægja með Blair sem þar ráði ferð.

Vísast eru Skotar pirraðir á því að ráða engu í því sem máli skiptir sjálfir - ,,allt sem kostar peninga er ákveðið fyrir sunnan" - og kannski verður kosningaþátttakan meiri ef SNP fær því framgengt að hafa þjóðaratkvæðagreiðslu um sambandsslit. Háðfugl einn sem skrifar reglulega pistla í Scotsman fullvissar oss lesendur reyndar um að ef af því verði muni landar hans flestir greiða atkvæði með því sem hann kallar ,,the chicken-out-clause" en samkvæmt henni verði sjálfsstjórn aukin en sambandinu haldið óbreyttu við Betu drottningu.

Enda þótt við höfum búið hér í meira en 15 mánuði (reyndar heila 19) höfum við hvorki fengið hér ríkisborgararétt né heldur kosningarétt og því eltist ég ekkert sérstaklega við það að setja mig af viti inn í stefnumálin. Er þó á því að stuðningur við SNP sé óvitlaus.
Ekki aðeins vilja þeir leggja af hinn fáránlega kánsel-skatt byggðan á heimilisstærð (sjá fyrri blogg um baráttu vora í þeim efnum) og taka upp 3% útsvar á tekjur í staðinn, heldur eru þeir algjörlega á móti plani Blair & kó um að kosta 25 milljónum punda til þess að endurnýja kjarnorkukafbátaflota Bretlands; vilja frekar að þeirri upphæð verði varið í heilbrigðis-og menntakerfi landsmanna og Skotland gert að kjarnorkuvopnalausu landi. Það þykir mér bera vott um góða forgangsröðun, framsýni og heilbrigða skynsemi.


Botna þessa langloku með myndum úr hinum konunglega grasagarði Edinborgar, sem við heimsóttum á sunnudaginn síðasta. Nærðum okkur þar á möluðum ís í brauðformi og ótrúlegri fegurð náttúrunnar sem nú er vöknuð til lífsins eftir vetrardvalann. Mikið makalaust sem við eigum gott að hafa þetta allt fyrir augunum og íkornarnir að skottast yfir grasið.
*Þess ber að geta að eigandi morgunverðarbakkans nýtur hans á sunnudagsmorgnum.